Eftir Ágúst Inga Jónsson
aij@mbl.is
NÁVÍGI kylfinga við perluna Korpu eykst enn með stækkun Korpúlfsstaðavallar. Framkvæmdir við stækkun golfvallarins upp í 27 holur hófust á síðasta ári og er ráðgert að níu nýjar holur verði teknar í notkun árið 2012. Völlurinn verður væntanlega fyrsti 27 holu völlurinn hérlendis og kemur stækkunin til móts við síaukna eftirspurn eftir aðstöðu til að leika golf.
Úlfarsá eða Korpa er á náttúruminjaskrá frá upptökum í Hafravatni til ósa og er tekið tillit til náttúrufars og lífríkis árinnar við skipulag vallarins. Brautir eru lagaðar að núverandi landi á teikningum Hannesar Þorsteinssonar og virðing sýnd því lífríki sem fyrir er á svæðinu.
Garðar Eyland er framkvæmdastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur og hann var formaður klúbbsins þegar samið var við Reykjavíkurborg um uppbyggingu golfvallarins á Korpúlfsstöðum árið 1993. Samningar við borgina um afnot af því landi og á svæðinu í Grafarholti hafa nýlega verið endurnýjaðir til næstu fimmtíu ára.
Mikið verkefni
Bygging átján holu golfvallar er mikið verkefni og kostnaðarsamt. Ekki er fjarri lagi að áætla að slík bygging kosti hátt í hálfan milljarð króna og eru landið sjálft, klúbbhús og tæki þá ekki talin með Nýlega samdi GR við Reykjavíkurborg um að borgin legði fram 230 milljónir króna til ársins 2013 í stækkun Korpúlfsstaðavallar um fyrrnefndar níu holur.„Til upprifjunar er rétt að fram komi að í apríl árið 2006 skuldbatt Reykjavíkurborg sig með samningi undirrituðum af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þáverandi borgarstjóra, til að stækka golfvöllinn á Korpúlfsstöðum í samráði við Golfklúbb Reykjavíkur,“ segir Garðar.
„Drög að nýjum samningi voru síðan samþykkt í borgarráði í síðasta mánuði og kveður samningurinn á um að setja umræddar greiðslur á fjögur ár. Í ár verða greiddar 30 milljónir og auk þess fær klúbburinn endurgreiddar 20 milljónir vegna endurbóta á Korpúlfsstaðahúsi og lóð þess, sem klúbburinn lagði í árið 2007. Samtals verða því greiddar 50 milljónir árið 2010 og síðan 60 milljónir árlega næstu þrjú árin.“
Garðar vill ekki gera mikið úr gagnrýni sem fram hefur komið á þessa ákvörðun borgaryfirvalda í ljósi efnahagsástandsins. Hann segir að klúbbfélagar hafi verið þolinmóðir, en nú verði bætt úr brýnni þörf. „Það er mikið gleðiefni fyrir félaga í GR að samningurinn skuli vera kominn á fjárhagsáætlun borgarinnar svo hægt er að hefja framkvæmdir. Mér finnst full ástæða til að þakka borgarfulltrúum úr öllum flokkum, sem alla tíð hafa stutt vel við íþróttafélög í borginni.“
Fjölsótt útivistarsvæði
Framkvæmdirnar við Korpúlfsstaði eru atvinnuskapandi og í vikunni skrifaði Garðar bréf til Vinnumálastofnunar um að ráða m.a. fólk af atvinnuleysisskrá. Vélavinna hefur verið í gangi í vetur, verið er að sérrækta tíu þúsund fermetra af torfi austur í sveitum sem fer á nýju flatirnar, mörg handtök fara í grjóthreinsun og mörg önnur verkefni fylgja vallargerðinni í sumar.Um þrjú þúsund manns eru nú félagar í Golfklúbbi Reykjavíkur og eru vellir félagsins þéttskipaðir yfir sumartímann. Um 30 þúsund heimsóknir voru á völlinn í Grafarholti í fyrra, um 10 þúsund komu á Grafarkotsvöll, sem er lítill völlur í Grafarholti, um 31.500 á Korpúlfsstaðavöll og um átta þúsund manns léku golf í fyrra á litla vellinum á Korpúlfsstöðum. Að auki voru 23 þúsund heimsóknir skráðar á Garðavöll á Akranesi, en GR rekur völlinn samkvæmt sérstökum samningi sem gerður var til að stytta biðlista eftir inngöngu í GR.
Auk þessa eru æfingar undir stjórn golfkennara stærstan hluta ársins, námskeið fyrir börn og unglinga yfir sumartímann, púttmót eru á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum yfir vetrartímann, aldraðir pútta ýmist inni eða úti allan ársins hring og alls voru um 130 þúsund heimsóknir í Bása, æfingaaðstöðu í Grafarholti.
„Það lætur nærri að heimsóknir hafi verið hátt í 300 þúsund á síðasta ári,“ segir Garðar. „Færa má rök fyrir því að sú aðstaða sem sköpuð hefur verið hjá Golfklúbbi Reykjavíkur sé eitt af fjölsóttustu útivistarsvæðum Reykjavíkurborgar. Til viðmiðunar má nefna að fjöldi erlendra ferðamanna sem kom til íslands í fyrra var um hálf milljón og heimsóknir á Gullfoss og Geysi voru um 300 þúsund.“
Sumir hætta, aðrir spila meira
Dæmi eru um það að fólk hafi hætt í golfklúbbum með versnandi efnahagsástandi. Garðar Eyland segir þessi dæmi þó ekki mörg. Hins vegar hafi þeir sem stunda golf á annað borð frekar aukið ástundun sína og heimsóknum margra hafi fjölgað með minni vinnu.Golfið og félagslífið sem því fylgi sé fastur punktur í tilverunni hjá mörgum sem eru án atvinnu. Þá hafi ferðalög til útlanda dregist saman og fólk sæki frekar í afþreyingu innanlands. Þá nefnir Garðar að fólk sem áður var í tveimur golfklúbbum láti nú einn duga, hjá GR hafi fólk til dæmis aðgang að þremur 18 holu golfvöllum.
„Um fimmtán þúsund manns eru án atvinnu og auðvitað eru kylfingar í þeim hópi eins og annars staðar,“ segir Garðar. „Fólk af öllum stigum þjóðfélagsins stundar golf og það er gjörbreytt að aðeins þeir efnameiri séu í golfi. Sem betur fer er golfiðkun talin ódýr á Íslandi og það eiga allir að hafa tök á að stunda þessa íþrótt.“