Gojira Veggspjald japönsku myndarinnar frá árinu 1954.
Gojira Veggspjald japönsku myndarinnar frá árinu 1954.
GODZILLA, eðlan risavaxna, mun snúa aftur á hvíta tjaldið á næsta ári en síðasta myndin um þetta skaðræðiskvikindi var sýnd fyrir 12 árum.

GODZILLA, eðlan risavaxna, mun snúa aftur á hvíta tjaldið á næsta ári en síðasta myndin um þetta skaðræðiskvikindi var sýnd fyrir 12 árum. Þeirri mynd leikstýrði heimsendismyndaleikstjórinn Roland Emmerich en Godzilla á rætur að rekja til Japans og birtist fyrsta sinni á hvíta tjaldinu árið 1954.

Hin væntanlega kvikmynd verður byggð að miklu leyti á frummyndinni japönsku en yfir 20 myndir hafa verið gerðar í heildina um kvikindið.

Kvikmyndafyrirtækin Legendary Pictures og Warner Bros. ætla að blása lífi í eðluna og segir talsmaður Legendary Pictures að myndin verði gerð með aðdáendur Godzilla í huga.

Frummyndin frá árinu 1954 heitir Gojira en henni leikstýrði Ishiro Honda. Sagði í henni af eðlu sem stökkbreytist af völdum geislavirkni og tekur hún til við að rústa Japan og drepa Japana. Leikstjóri er ekki fundinn enn að nýjustu myndinni og ekkert hefur verið tilkynnt um leikaraval.