Eftir Gunnlaug Auðun Árnason
Stykkishólmur | Það voru óvenjulegir tónleikar sem Hólmurum var boðið upp á fyrir skömmu. Nemendur 10. bekkjar grunnskólans tóku sig saman og æfðu, útsettu og fluttu fjölbreytta tónlistardagskrá. Tilgangur sýningarinnar var fjársöfnun fyrir ferðasjóðinn, en bekkurinn ætlar í vor að heimsækja jafnaldra sína í Kolding í Danmörku.
Í haust kviknaði sú hugmynd að halda tónleika þar sem eingöngu nemendur bekkjarins kæmu að. Mikill samhljómur myndaðist í bekknum og nemendur tóku höndum saman og vildu sýna hvers þeir væru megnugir þegar viljinn væri til staðar.
Æft af kappi
Æfingar hófust fyrir jól og síðan hefur verið æft af kappi. Það þurfti að velja lög og hljóðfæri og útsetja. Allt vildu nemendurnir gera sjálfir og tókst þeim það hjálparlítið.Krakkarnir komust að því að það var meira verk en þeir héldu í fyrstu. En það dró ekki úr þeim kjarkinn því þeir ætluðu að ná sínu markmiði.
Margir nemendur í bekknum hafa stundað nám við tónlistarskólann og kom í ljós á tónleikunum að þeir hafa náð mikilli færni á sín hljóðfæri.
Tónleikarnir voru góð skemmtun. Fjöldi gesta mætti og fylgdist með þessu framlagi nemendanna. Flytjendur voru að vonum ánægðir með undirtektirnar og sáu ekki eftir þeirri fyrirhöfn sem þeir þurftu að leggja fram. Þau fundu það líka að samheldnin innan bekkjarins hafði aukist mikið við að takast á við þetta skemmtilega en um leið krefjandi verkefni.