Í læknaleik Anna Mjöll og Hlynur æfa sig með alvöru græjur og í réttu klæðunum. Brúða með sýnileg líffæri að baki.
Í læknaleik Anna Mjöll og Hlynur æfa sig með alvöru græjur og í réttu klæðunum. Brúða með sýnileg líffæri að baki. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þau neita því ekki að hafa horft á Bráðavaktina og Grey's Anatomy og að sá heimur sem þar birtist af spítalalífi virki þó nokkuð heillandi. En það hafði ekki úrslitaáhrif á að þau ákváðu að leggja fyrir sig læknisfræði.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Vissulega kveiktu þessir sjónvarpsþættir á sínum tíma einhvern áhuga en við vitum reyndar að ekki er allt samkvæmt raunveruleikanum þar. Við sjáum okkur því kannski ekki fyrir okkur í öllu því drama sem þar fer fram. En við vorum bæði ákveðin í því strax í lok grunnskóla að fara í læknisfræði,“ segja læknar framtíðarinnar, þau Anna Mjöll Matthíasdóttir og Hlynur Indriðason. Þau eru bæði á lokaári í Menntaskólanum í Reykjavík og ætla að þreyta inntökuprófið í læknisfræði við Háskóla Íslands í sumar. Þau eru í bekk sem tilheyrir Náttúrufræði 1, en sú deild hefur af gárungunum verið kölluð Litla læknadeildin, vegna þess að margir fara þaðan yfir í læknisfræðina. Þau játa fúslega að hafa valið að fara í MR og í þessa deild einmitt af því að þau vissu að hún væri góður undirbúningur fyrir háskólanám á heilbrigðissviðinu. Anna Mjöll hefur meira að segja keyrt daglega á milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar undanfarin fjögur ár til að stunda námið í MR.

Aðeins 48 af 300 komast inn

„En það er alls engin ávísun á að ná inntökuprófinu þótt við komum úr þessari deild. Í fyrra var hlutfall MR-nemenda sem komust inn, mun minna en venjulega, en það eru einungis teknir inn 48 nemendur af þeim 300 sem reyna hverju sinni. Þetta er því augljóslega harður slagur. En við lítum á það sem kost að við útskrifumst sem stúdentar aðeins tveimur vikum áður en inntökuprófið fer fram, svo námsefnið verður okkur í fersku minni. Við lesum upp fyrir stúdentspróf allt námsefni þeirra fjögurra ára sem við höfum verið hér í MR, ólíkt því sem er í áfangakerfinu. En auðvitað hafa allir möguleika á að ná inntökuprófinu, úr hvaða framhaldsskóla sem þeir koma,“ segja þau Anna Mjöll og Hlynur og bæta við að núna á lokaárinu þeirra í MR læri þau líffærafræði, um líffærakerfin, sjúkdóma- og erfðafræði. „Þetta eru skemmtileg fög sem ýta sannarlega undir áhugann á læknisfræðinni.“

Eru ekki úr læknafjölskyldum

Í bekknum þeirra eru um tuttugu og fimm nemendur og meirihluti þeirra ætlaði í inntökuprófið í læknisfræði núna í júní. „En það hafa þó nokkrir hætt við og sumir eru farnir að efast, eftir að læknanemar komu hingað og kynntu læknanámið. Þar kom nefnilega fram að þetta er dýrt nám og það eru ekki mikil laun í boði fyrr en eftir að fólk hefur lokið sérnámi. Fólk fer því ekki í læknisfræði til að eignast peninga, það kemst ekki gegnum þetta nema það hafi mikinn áhuga. Fyrst þarf að ljúka sex ára grunnnámi hér heima, síðan tekur við eitt ár í kandídatsnámi og svo nokkurra ára sérnám erlendis. Og margir starfa í nokkur ár hér heima áður en þeir fara utan til að sérhæfa sig,“ segja þau Anna Mjöll og Hlynur sem hvorugt kemur úr læknafjölskyldum. Áhuginn á læknisfræðinni er því sjálfsprottinn.

„Mér finnst læknisfræðinámið einfaldlega heillandi. Mig langar að gera gagn og hjálpa fólki. Ég held það hljóti að vera gefandi,“ segir Anna Mjöll en Hlynur segir að fjölbreytileikinn sé eitt af því sem hafi dregið hann að læknisfræðinni. „Námið kemur inn á svo margt og það er hægt að velja úr mörgum ólíkum og spennandi sviðum í sérnáminu.“

Þau segjast ekki vera búin að ákveða hvaða sérnám þau ætli að leggja fyrir sig, enda gera þau ráð fyrir að það komi í ljós þegar þau eru byrjuð í náminu og jafnvel ekki fyrr en þau fara að vinna inni á ólíkum deildum í starfsnáminu. Þó hafa þau vissulega leitt hugann að því og Hlynur segist hafa mestan áhuga á að fara í sérnám í skurðlækningum. Önnu Mjöll finnst aftur á móti heillandi að verða fæðingarlæknir.

Engin skömm að ná ekki

Þau hafa að sjálfsögðu skoðað sýnishorn af inntökuprófi á netinu til að vita hverju þau eigi von á, en þau segjast ekki ætla að undirbúa sig neitt sérstaklega nema þá helst með því að rifja upp efnafræðina sem þau tóku stúdentspróf í í fyrra. En fyrst og fremst ætla þau að slappa vel af eftir stúdentsprófin. „Það skiptir miklu máli að vera vel hvíld og í góðu formi, því þetta er tveggja daga stíft próf, í sex tíma samfellt hvorn daginn.“

Þau segjast ekki finna fyrir mikilli pressu um að þau verði að ná prófinu. „Mér finnst engin skömm að því að komast ekki inn og heimurinn hrynur ekki ef svo fer. Þótt maður sé ekki meðal þeirra sem ná, þá er ekki þar með sagt að maður hafi staðið sig illa, því það getur munað mjög litlu á þeim sem komast inn og þeim sem komast ekki,“ segir Anna Mjöll sem er með plan B ef hún nær ekki prófinu. „Þá ætla ég að fara í eitt ár í hjúkrunarfræði og reyna svo kannski að sækja um í læknisfræði í útlöndum á næsta ári.“ Hlynur hefur aftur á móti ekki ákveðið hvað hann gerir ef hann kemst ekki í gegnum nálaraugað. „Ég vona bara það besta og tek svo ákvörðun um framhaldið þegar ég fæ að vita hvort ég hafi náð. Það er sannarlega ekki sjálfgefið að komast inn, samkeppnin er gríðarlega hörð í þessu prófi.“

Anna Mjöll og Hlynur kveðja sinn framhaldsskóla í lok maí með söknuði. „MR er góður skóli og við kunnum vel við okkur hér. Bekkjarkerfið hentar okkur vel og hér er góð heild og allir þekkjast vel.“