Norski markvörðurinn Lars Ivar Moldskred hefur samið við KR um að leika með félaginu út þetta tímabil í fótboltanum.Hann er 31 árs og lék síðast með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni en áður með Lilleström , Molde og Hödd . Moldskred var til reynslu hjá KR-ingum á dögunum. Hann og Þórður Ingason munu berjast um markvarðarstöðu KR-liðsins í sumar en Þórður er í láni hjá Vesturbæjarfélaginu frá Fjölni .
H annes Jón Jónsson skoraði 5 af mörkum Burgdorf í fyrrakvöld þegar liðið vann góðan útisigur á Dormagen í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 32:28. Hannes og félagar fóru langt með að tryggja sæti sitt í deildinni með sigrinum en liðið hefur nú 17 stig og er fimm stigum frá fallsæti.
Cesc Fabregas fyrirliði Arsenal leikur ekki meira með Lundúnaliðinu á tímabilinu vegna meiðslanna sem hlaut í leiknum gegn Barcelona í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið. Við skoðun á skírdag kom í ljós sprunga í sperrilegg Spánverjans sem þýðir að hann verður frá keppni næstu vikurnar.
Meiðslin hrannast upp í herbúðum Arsenal en Rússinn Andrei Arshavin greindi frá því á heimasíðu sinni að hann yrði líklega frá keppni næstu 2-3 vikurnar vegna meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn Barcelona . Ennfremur er ljóst að William Gallas verður frá keppni út tímabilið en hann fór líka meiddur af velli í leiknum við Evrópumeistarana.
Manchester United greindi frá því á skírdag að ökklameiðslin sem Wayne Rooney varð fyrir í leiknum gegn Bayern München fyrr í vikunni væru ekki alvarleg. Myndataka sem Rooney fór í leiddi í ljós að ekki var um fótbrot að ræða en ljóst er að hann verður ekki með í stórleiknum gegn Chelsea í dag.
Þórður Steinar Hreiðarsson , fyrrum leikmaður Þróttar , tryggði Færeyjameisturum HB í knattspyrnu jafntefli, 4:4, í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar þar í landi á skírdag. Þórður skoraði með skalla í uppbótartíma gegn nýliðunum í FC Suðurey en þetta var fyrsti deildaleikur HB undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar , sem tók við þjálfun liðsins í vetur.
A rnór Atlason skoraði 6 mörk fyrir FCK þegar liðið vann Ringsted , 38:26, í síðasta leik sínum í dönsku úrvalsdeildinni. FCK verður sem kunnugt er sameinað AG Håndbold í lok tímabilsins. FCK endar í öðru sæti og á eftir að spila í úrslitakeppni átta efstu liðanna um danska meistaratitilinn.
Nordsjælland , lið Gísla Kristjánssonar , tryggði sér 5. sætið í deildinni með því að sigra Team Tvis Holstebro á útivelli, 30:26. Gísli skoraði 4 mörk í leiknum.
Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði 5 mörk fyrir Faaborg sem vann Ajax á útivelli, 28:22, í dönsku 1. deildinni í handknattleik. Faaborg er í öðru sæti og fer í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.