Breyting Elín G. Jóhannsdóttir: „Ég er að gera eitthvað allt öðruvísi.“
Breyting Elín G. Jóhannsdóttir: „Ég er að gera eitthvað allt öðruvísi.“
Í DAG kl. 15 opnar Elín G. Jóhannsdóttir myndlistarkona sýningu á verkum sínum í Gallerí Fold. Sýningin ber heitið Borið á borð .

Í DAG kl. 15 opnar Elín G. Jóhannsdóttir myndlistarkona sýningu á verkum sínum í Gallerí Fold. Sýningin ber heitið Borið á borð . Aðspurð um titil sýningarinnar svara Elín svo: „Ég er að fara að sýna kyrralífsmyndir þar sem ég ber hluti á borð samkvæmt hefðinni en síðan hef ég landslag í bakgrunni sem er nýstárlegt því kyrralífsmyndir voru alltaf uppstillingar innandyra.“

Umfjöllundarefni myndanna eru margvísleg en Elín segist mála það sem er að gerast á líðandi stundu, „ég túlka líðandi stund með tilvísun í hefðina. Hlutirnir í myndum mínum tengjast á ákveðinn hátt og kalla fram spurningar í huga áhorfenda. Hlutirnir sem ég ber á borð eru til dæmis fartölva, kaffibolli, leðurhanskar og farsími sem endurspegla karllægt viðmót til stjórnunar, síðan í annarri mynd ber ég fram hina kvenlegu búsáhaldabyltingu með tilheyrandi vísunum í samtímann“.

Elín segir að viðfangsefni listsköpunar hennar hafi tekið miklum breytingum á undanförnum misserum „ég er að gera eitthvað allt öðruvísi núna en áður, ég vann aðallega landslagmyndir en það varð allt í einu ekki nóg fyrir mig að einblína bara á tóma fegurðina eða stilla upp appelsínum og eplum. Því breyti ég hefðinni, sem ég sæki aðallega til Kjarval og Erró, og túlka hana á nýjan hátt í samtímanum“.

asgerdur@mbl.is