Aðalsteinn Einarsson fæddist á Vestdalseyri við Seyðisfjörð 9. júní 1929. Hann lést á heimili sínu 5. apríl 2010.

Foreldrar hans voru Einar Sigurðsson og Dagný Einarsdóttir, f. 16. janúar 1901, d. 1968.

Alsystkini Aðalsteins eru: Guðlaug húsmóðir, látin, Rósamunda húsmóðir, látin, Garðar sjómaður, látinn, Birna húsmóðir, látin, Sigurveig húsmóðir, búsett í Kópavogi, Ingi sjómaður, búsettur í Reykjavík, Einína húsmóðir, látin. Hálfbróðir Aðalsteins samfeðra er Einar Björn skipstjóri, búsettur á Höfn í Hornafirði, hálfbræður Aðalsteins sammæðra eru Hallsteinn skrifstofumaður, búsettur í Reykjavík, og Vífill sjómaður, búsettur á Seyðisfirði.

Aðalsteinn kvæntist 16.1. 1960 Margréti Ingibjörgu Sigurgeirsdóttur, f. 27.8. 1931, d. 18.8. 2003. Börn þeirra eru Jónbjört, f. 26.7. 1957, maki Snorri Jónsson, f. 22.7. 1952, synir þeirra eru Páll Thamrong, f. 1.4. 1991, og Friðþjófur Vífill Rupan, f. 27.2. 1998. Einar, f. 27.9. 1959, sambýliskona Hugrún Ósk Guðmundsdóttir, f. 3.7. 1958. Einar var áður giftur Katrínu Bjarnadóttur, f. 10.12. 1960, börn þeirra eru Aðalsteinn, f. 25.9. 1985, Þórunn, f. 8.2. 1988, sambýlismaður Guðmundur Björn Birkisson, og Inga Karen, f. 7.8. 1992.

Útför Aðalsteins fer fram frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 17. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Eftir því sem árin líða og maður öðlast reynslu og vonandi þroskaðri sýn á lífið því meiri þörf verður á að leita upprunans og rótanna. Ekki síst ef sá uppruni og þær rætur liggja orðið langt í burtu í tíma og rúmi. Einmitt með þetta í huga lögðum við feðgar upp í helgarferð á vordegi fyrir tæpum tveimur árum, til Seyðisfjarðar, að heimsækja Alla föðurbróður minn. Í aldri munaði aðeins tæpu hálfu öðru ári á þeim bræðrum og ég fann í heimsókninni að bróðurtaugin var rammari en ég hafði áður gert mér grein fyrir.

Aðalsteinn bjó á Seyðisfirði alla tíð. Hann hefur því á nokkuð langri ævi séð bæinn ganga í gegnum miklar breytingar, stækka og dafna. Á fyrri hluta síðustu aldar var Seyðisfjörður á meðal fárra reisulegra bæja á landinu; norskir og danskir kaupmenn höfðu þar verslanir sínar og mörg húsin hafa verið endurbyggð. Af þessu státar þessi rólegi bær enn, inni í lygnum firði. Alli, eins og hann var alltaf kallaður, byrjaði að fara á vertíðir upp úr fermingu, fyrstu vertíðina á Sandgerði. Árin þar á eftir stundaði hann sjómennsku til rúmlega þrítugsaldurs en sneri sér þá að smíðum; smíðaði m.a. innréttingar í hina nýju Hvanney SF, 1975.

Alli tók vel á móti okkur feðgum vorið fyrir tveimur árum. Það skorti ekkert á gestrisni og heimilisbragurinn var til sóma; það virðist honum og systkinum hans öllum hafa verið í blóð borið alla tíð. Þeir bræður rifjuðu upp gamla daga, koníaksdreitill með kaffinu yljaði enn frekar undir flæði minninganna og gamlar sögur og brandarar, sumir gatslitnir, skutu upp kollinum án fyrirhafnar. Hlátur og vellíðan fram á hálfrökkvaða vornóttina. Þetta var góð stund. Mér, kynslóðinni yngri, leiddist ekki að sjá og finna hve taug þeirra bræðra var sterk og enn varð mér ljóst að mannsævin er stutt; fjarlægar minningar verða ljóslifandi eftir nærri mannsaldurs tíð.

Að morgni dagsins á eftir héldum við út á Vestdalseyri, æskustöðvarnar. Æskuminningar birtust, flestar þægilegar því allsnægtir hermannanna frá stríðsárunum voru drengjum þeirra tíma nýbreytni. Hluti af þessum samskiptum drengjanna varð að enskukunnáttu og sígarettureykingum. Alls kyns nauðþurftir þar að auki, svo sem kol og matvara. Framandi og spennandi og órjúfanlegur hluti æskuminninga drengjanna sem nú, eins og örskoti síðar, voru orðnir gamlir menn.

Minningin er ljúf frá þessari ferð okkar feðga til Seyðisfjarðar vorið 2008. Bræðurnir voru hressir og munaði ekki um að labba um tún og haga, margt var skoðað. Alli var léttur í lund, og þeir bræðurnir báðir. Sáttur við sína lífsgöngu eins og þeim hlýtur að vera eðlislægt sem lifað hefur eftir góðu innræti og sterkum dyggðum sem sumum hlotnast í vöggugjöf. Alla frænda hlotnaðist það. Í dag kveður faðir minn bróður sinn hinstu kveðju á Seyðisfirði, sem og aðrir vinir og aðstandendur. Aðstandendum votta ég samúð mína og sendi hinstu kveðju yfir höfin. Ég þakka Alla fyrir móttökurnar í sumarbyrjun 2008 og þakka fyrir að hafa farið þá góðu ferð. Alli er lagður af stað í lengri og vonandi enn betri ferð.

Viðar Ingason.