Laufey Jeremíasdóttir fæddist 3. ágúst 1947 á Þórdísarstöðum í Eyrarsveit. Hún lést á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi hinn 10. apríl sl.

Foreldrar hennar voru Jeremías Kjartansson, bóndi á Þórdísarstöðum í Eyrarsveit, f. 28. júní 1913, d. 3. júlí 2003. Móðir hennar var Cecilía Kristjánsdóttir, f. 10. maí 1919, d. 15. október 2006. Laufey var 6. í röðinni af 11 systkinum. Systkini hennar eru: Kristín, f. 1940; Svandís, f. 1942; Salbjörg Steinunn, f. 1943, d. 7. september 2001. Áslaugur Ingiberg, f. 1945; Kjartan, f. 1946; Þórdís, f. 1948; Hulda, f. 1950; Ásta, f. 1952; Sæunn, f. 1954; og yngst er Dagný, f. 1958.

Eiginmaður Laufeyjar er Stefán Björgvinsson bifreiðastjóri. Hann fæddist 24. júní 1945 í Stykkishólmi. Foreldrar hans voru Björgvin Þorsteinsson og Alexía Pálsdóttir. Börn Laufeyjar og Stefáns eru: Stefanía, f. 7. júlí 1966, maður hennar er Benedikt Kristjánsson, þau eru búsett í Reykjavík; Sigurður, f. 8. maí 1970, kona hans er Guðrún Rut Danelíusdóttir, þau búa í Mosfellsbæ; Bryndís, f. 29. ágúst 1977, maður hennar er Hannes Páll Þórðarson, þau eru búsett á Suðaustur-Englandi. Barnabörnin eru átta.

Útför Laufeyjar fer fram í Stykkishólmskirkju í dag, 17. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku Laufey mín, skrítið að þú sért farin og ekki nema 62 ára gömul. Mér fannst sem ég væri rétt að kynnast þér og sá fyrir mér að þú yrðir með okkur í ellinni. Þrátt fyrir erfið veikindi þín fannst okkur öllum þú standa þig svo vel og mér þótti afskaplega vænt um að það síðasta sem þú sagðir við Sigga var að þú bæðir að heilsa mér og krökkunum. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér bæði sem elskulegri tengdamóður og ekki síður sem vinkonu minni sem kom í klippingu reglulega þar sem við gátum spjallað um lífið og tilveruna, dottið á trúnó og hvaðeina.

Ég vona að ég hafi getað komið því til skila hvað það var dýrmætt fyrir mig að fá að kynnast þér í ró og næði. Ég hugsa með bros á vör til þess þegar ég kom í fyrsta sinn í Árnatúnið fyrir u.þ.b. fimm árum þegar við Siggi vorum að kynnast.

Það var svo krúttlegt þegar þú sóttir eldhússkærin, lagðir þau í hendurnar á mér og sagðir: „Ertu til í að særa á mér hárið“... hvílík skæri. Þarna kom pjattrófan upp í þér og seinna skildi ég hvað hárið var þér mikilvægt.

Þú varst svo handlagin og vandvirk og þótti mér mjög vænt um þegar þú gafst systkinabörnum mínum vettlinga og sokka eftir þig, með þessum hætti sýndir þú svo mörgum í kringum þig umhyggjusemi og væntumþykju. Þú varst alltaf með eitthvað á prjónunum í orðsins fyllstu merkingu.

Við áttum okkar sameiginlega áhugamál, sem var að gera upp gömul húsgögn. Og vorum við svolítið flottar þegar við fórum saman í Góða hirðinn og drösluðumst með einhverja kommóðu í skottið á bílnum, ég held að Siggi hafi haft smááhyggjur af þróun mála hjá okkur þá, en við skemmtum okkur vel, það var sko alveg á hreinu.

Takk fyrir allar samverustundirnar elsku Laufey mín, ég skal hugsa vel um hann Sigga þinn.

Þín tengdadóttir,

Guðrún Rut Danelíusdóttir.