Góður Jakob Örn Sigurðarson átti frábært tímabil í Svíþjóð þó að liðið væri slegið út snemma.
Góður Jakob Örn Sigurðarson átti frábært tímabil í Svíþjóð þó að liðið væri slegið út snemma. — Morgunblaðið/hag
JAKOB Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfuknattleik og leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Sundsvall Dragons, er besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu að mati sérstakrar dómnefndar á vegum netmiðilsins Eurobasket.com.

JAKOB Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfuknattleik og leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Sundsvall Dragons, er besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu að mati sérstakrar dómnefndar á vegum netmiðilsins Eurobasket.com.

Jakob var valinn besti leikmaður deildarinnar, besti bakvörðurinn, besti Evrópubúinn í deildinni og var valinn í lið ársins. Þetta er mikil viðurkenning fyrir Jakob sem gekk í raðir Sundsvall fyrir tímabilið eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitlinum með KR-ingum á síðustu leiktíð.

Sundsvall varð sænskur meistari á síðustu leiktíð og hafnaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar í vetur. Liðið féll hinsvegar úr leik í átta liða úrslitunum um titilinn í ár. Sundsvall-liðið var mikið breytt á þessu tímabili enda missti liðið átta leikmenn eftir tímabilið í fyrra.

Jakob, sem er 28 ára gamall, skoraði að meðaltali 17,8 stig í leik fyrir Sundsvall á tímabilinu og var með sjötta besta meðaltalið af öllum leikmönnum í deildinni.

Jakob verður áfram í herbúðum Sundsvall á næstu leiktíð en hann á eitt ár eftir af samningi sínum og eftir það hefur hann tækifæri á að framlengja samninginn um eitt ár.

Á vef Sundsvall Dragons nýttu menn tækifærið í gær þegar þeir sögðu frá glæsilegum árangri Jakobs, og kölluðu hann „íslenska eldgosið,“ og „heitasta hraunið“ í sænsku úrvalsdeildinni.

gummih@mbl.is