Dyndilund Margrét H. Blöndal, lengst til hægri, með fríðum hópi listamanna. Myndirnar eru af verkum barnanna.
Dyndilund Margrét H. Blöndal, lengst til hægri, með fríðum hópi listamanna. Myndirnar eru af verkum barnanna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is DYNDILYNDI - verði gjafa gagnstreymi heitir sýning sem er framlag Myndlistaskólans í Reykjavík til Barnamenningarhátíðar 2010.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

DYNDILYNDI - verði gjafa gagnstreymi heitir sýning sem er framlag Myndlistaskólans í Reykjavík til Barnamenningarhátíðar 2010. Þetta er þó ekki aðeins sýning heldur listrænn viðburður og að honum kemur grúi listamanna og hönnuða: myndlistarmenn, arkitektar, danshöfundar, leikarar, rithöfundar, hljóðmyndasmiðir og tónskáld.

Dyndilyndi stendur yfir í sextán daga í Listasafni Íslands en safnið verður þá gert að samkomustað ólíkra dýrategunda, boðið upp á listasmiðjur, endurmenntunarnámskeið og alls kyns uppákomur. Á morgun hefst einleikjaröð í safninu, DÝRlingasögur , í leikstjórn Hörpu Árnadóttur en hinir ýmsu leikarar flytja einleikina sem allir heita eftir dýrum.

Lítil hús utan um dýr

Skipuleggjandi þessarar sýningar, eða leiðangursstjóri eins og það er kallað, er myndlistarkonan Margrét H. Blöndal. Hún segir Dyndilyndi eiga upptök sín í listbúðum Myndlistaskólans í Reykjavík en þær hafa verið starfræktar í ein sjö ár, grunnskólanemendum boðið að koma í búðirnar í eina viku í senn með kennurum. „Síðustu listbúðir hétu Himinn, jörð og byggðin á milli og í þeim listbúðum unnu nemendur pinkulítil hús utan um dýr og þau bjuggu þessi hús til úr hvítum, mjóum renningum, skærum og bókbandslími. Á einni viku spruttu upp heilu borgirnar þar sem ólík dýr á borð við marglyttu, gaupu, hvítháf og bleikju bjuggu saman,“ útskýrir Margrét. Krakkarnir hafi unnið hvert í sínu horni en þegar samfélögin voru mótuð fóru þau að búa til samgönguleiðir milli húsa. „Þessi verk fjölluðu um kjarnann í lífinu, að finna sér skjól því það er fyrst þá sem hægt er að opna gluggann út í heiminn. Eftir því sem nemendur unnu lengur fóru húsin að taka á sig þarfir þeirra sjálfra og langanir. Þetta varð að smámynd af heiminum þar sem íbúar voru ýmist feimnir, grimmir, hégómlegir, blíðir eða hugvitsamir en allir áttu þeir það nú sameiginlegt að leita í tengsl.

Svo kom upp sú löngun að halda áfram með þetta verkefni, okkur fannst mikil synd að þessu lyki,“ segir Margrét. Þá hafi Barnamenningarhátíð komið til sögunnar og Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Myndlistaskólans, fengið hana til að leiða verkefnið áfram. Margrét hafði samband við ólíka listamenn og hönnuði um að koma inn í ferlið, í framhaldi af því sem börnin voru að gera, og þannig varð m.a. til einleikjaröðin DÝRlingar sem leikkonan Harpa Arnardóttir stýrir.

Dýr sem eru hvergi sjáanleg

Margrét segir áhugavert að sjá þær hugmyndir sem listamennirnir hafi fengið upp úr verkum barnanna, nærvera dýranna sé tilfinnanleg þó þau sé hvergi að sjá. Harpa hafi t.a.m. einbeitt sér að sálum húsanna og fengið hina og þessa til að skrifa einleiki um íbúa húsanna, þ.e. dýrin ósýnilegu.

En það er margt fleira í boði en einleikirnir. Margrét nefnir að arkitektarnir Teresa Himmer og Kristján Eggertsson hafi ákveðið að smíða nýjan inngang í safnið. Sá sé þrískiptur, einn hluti fyrir stór dýr (fullorðna fólkið, hávaxin dýr), annar fyrir smærri dýr eins og sauðfé, svani af tjörninni og hunda og sá þriðji fyrir þá sem koma fljúgandi. Margrét segir að listasafninu verði í raun breytt í samkomustað fyrir ólíkar dýrategundir í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þangað muni koma börn, gaupa, safngestir, kólíbrífugl, bakarar og minkur, svo dæmi séu nefnd.

Af uglu og hundi og afkvæminu uglundi

Megas, Magnús Þór Jónsson, tekur þátt í Dyndilyndi og hefur samið sjö ný lög og texta sem flutt verða af sýnilegum eða ósýnilegum barnakór ofan á hljóðmynd Hilmars Arnar Hilmarssonar, 18. apríl kl. 14, 22. apríl kl. 13 og 25. apríl kl. 14.

Megas, líkt og aðrir þátttakendur, sótti innlástur til verka barnanna sem unnin voru í listasmiðjum. Meðal þeirra dýra sem Megas hefur ort um er uglundur, blanda af uglu og hundi sem byggja brú á milli húsa sinna og gerast svo miklir vinir að úr verður afkvæmið uglundur.

Fyrstu tvö erindin eru á svohljóðandi:

Ugla sat ein á kvisti

átti börn sem hún missti

eitt tvö þrjú átti og misst'ún

ekki þú sagði Kristrún

en ekki er víst allt þó missi

að aldrei framar gæfan kyssi

Hún eignaðist í staðinn einn vin

þann einasta færði henni forsjónin

og vinur sá hann var hundur

á kvisti var þeirra fyrsti fundur

og þau urðu hvort öðru svo kær

hvort öðru þokuðust nær og nær.

Um verk barnanna almennt orti hann líka, hér koma tvö erindi:

Hátt flýgur örninn

í himna víðum sal

hærra fljúga börnin

í björtum djúpum dal.

Það kostar nostur

og nákvæma smíði

slíkur húsakostur

og híbýlaprýði.

Dagskrána í heild sinni má finna á www.dyndilyndi.is.