Stuðningur Með því að láta aðra vita af markmiðum þínum býrðu til mikilvægt aðhald.
Stuðningur Með því að láta aðra vita af markmiðum þínum býrðu til mikilvægt aðhald. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MÖRGU þarf að sinna í lífinu sem seint er hægt að kalla skemmtilegt, en jafnvel ánægjulegustu verkefni eiga það til að sitja á hakanum.

MÖRGU þarf að sinna í lífinu sem seint er hægt að kalla skemmtilegt, en jafnvel ánægjulegustu verkefni eiga það til að sitja á hakanum.

Hvort sem það er ólesin bók, óskipulögð ruslageymsla eða ókláruð mál í vinnunni, þá er sennilega leitun að þeirri manneskju sem ekki þarf að glíma við frestisýki af einhverri gerð.

Sem betur fer eru margar einfaldar leiðir til að vinna bug á frestisýkinni:

Bútað niður og skipulagt

Margt smátt gerir eitt stórt. Ef um umfangsmikið verkefni er að ræða er gott að skipta því niður í minni einingar, setja síðan niður áætlun um hvenær tekist er á við hvern hluta og halda sig við áætlunina.

Frestisýki snýst oft um hugarástand. Sum verkefni þorum við ekki að takast á við, og önnur viljum við ekki leysa af hendi nema niðurstaðan sé fullkomin. Líttu í eigin barm og skoðaðu hvort óraunhæf hræðsla eða fullkomnunarárátta er að trufla.

Illu er best aflokið

Óþægilegu verkefni, eins og t.d. erfiðu símtali, á ekki að slá á frest. Kláraðu óþægilegu verkin sem fyrst, og verðlaunaðu þig síðan eftir að hafa lokið þeim. Yfirleitt eru þessi verkefni ekki jafnslæm og maður hafði búist við og vont að hafa þau yfir sér allan daginn.

Það er betra að vinna í stuttum skömmtum frekar en löngum og hjálpar til við að halda dampi. Að sama skapi er betra að hafa markmið sem eru raunhæf og viðráðanleg – ef markmiðin eru óraunhæf er miklu auðveldara að gefast upp.

Byrjað á því léttasta

Með verkefnalista í höndunum er yfirleitt best að byrja á léttustu og fljótlegustu verkefnunum. Að strika verkefni út af listanum er hvetjandi enda færðu þá góðu og gefandi tilfinningu að þú sért að koma hlutunum í verk. Ef þú festist í erfiðu verki, taktu þér þá frí frá því ef þú getur og leystu annað verkefni í staðinn.

Allt á einum lista

Reyndu að halda einn lista utan um verkefnin framundan, frekar en t.d. að veggfóðra vinnustöðina þína með gulum minnismiðum. Með allt á einum lista er auðveldara að forgangsraða og hægt að fá betri yfirsýn yfir það sem þú hefur áorkað og það sem er framundan. Þegar þú hefur saxað á listann, skrifaðu þá nýjan og bættu við öðrum verkefnum sem kunna að hafa komið inn á borð.

Aðhald og vinnufriður

Fáðu aðra til að styðja við þig. Að þurfa að standa í skilum er afkastahvetjandi.

Þó þú gerir ekki annað en að lofa t.d. á Facebook síðunni þinni að þú munir klára tiltekið verkefni fyrir lok mánaðarins, þá ertu fyrir vikið líklegri til að standa við það og vinirnir veita þér visst aðhald.

Fjarlægðu truflanir. Það er svo margt sem getur truflað og mörgum reynist best að vinna þar sem ekki er auðvelt að t.d. kveikja á sjónvarpinu eða gleyma sér yfir útvarpsþætti. Stundum þarf einfaldlega að slökkva á símanum og loka sig af.

Að koma sér upp vana

Frestisýki snýst oftar en ekki um slæma siði og áunnið hugarfar. Gefðu því gætur hvort þú þurfir að tileinka þér annað viðhorf og starfsvenjur og hafðu það bak við eyrað næst þegar þig langar að slá hlutunum á frest. Reyndu t.d. að koma því upp í venju að taka frá ákveðinn tíma fyrir ákveðin verk, og standa við það. Oft er stærsti þröskuldurinn einfaldlega að setjast niður og byrja.

Verðlaun fyrir frammistöðuna

Haltu upp á það sem þú áorkar. Ef þú ert með verkefnalista fyrir vikuna, verðlaunaðu þá sjálfan þig eftir að hafa náð að ljúka vissum verkum eða náð vissum fjöldaþröskuldi. Hvað um að fara t.d. út að borða eftir að hafa tekið geymsluna í gegn? Eða panta pitsu eftir að hafa farið yfir heimilisbókhaldið?

Vandinn leystur í hámarksstuði

Sum verkefni eru blátt áfram leiðinleg og óáhugaverð. Þau eru best leyst þegar þú ert í mesta vinnustuðinu. Sumir eru best stemmdir á morgnana og aðrir síðdegis – tímasettu þessi verkefni í samræmi og þau verða mun auðveldari viðfangs.

Síðast en ekki síst: ekki slá því á frest að vinna bug á frestisýkinni. Það munar mest um að taka fyrsta skrefið.