<strong>Riðlar</strong> Kápumynd Trash Humpers.
Riðlar Kápumynd Trash Humpers.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GRÆNA ljósið hélt opnunarteiti Bíódaga í fyrrakvöld í Regnboganum og bauð í fjórfalt óvissubíó, gestir vissu ekkert hvaða mynd væri sýnd.

GRÆNA ljósið hélt opnunarteiti Bíódaga í fyrrakvöld í Regnboganum og bauð í fjórfalt óvissubíó, gestir vissu ekkert hvaða mynd væri sýnd. Í einum af smærri sölunum sem 35 gestir geta setið í var sýnd býsna merkileg kvikmynd, Trash Humpers , sem þýða mætti með orðinu Ruslagámariðlar , en hún fjallar um „gamalt fólk sem riðlast á ruslagámum“, eins og það er orðað á vef Græna ljóssins. Reyndar eru ungir leikarar í aðalhlutverkum með grímur sem líkjast gömlu fólki. Leikstjóri myndarinnar, Harmony Korine, skrifaði einnig handritið að þessari vægast sagt óvenjulegu mynd.

Þegar bíógestir áttuðu sig á því hvaða mynd væri verið að sýna gengu þeir nær allir út og aðeins einn gestur horfði á myndina til enda, Sædís Kolbrún Steinsdóttir.

„Þetta var áhugaverð mynd, hún er náttúrlega frekar viðbjóðsleg en ég sé alveg snilldina í þessu,“ segir Sædís. Hún segist hafa átt í löngum samræðum við fólk um myndina að sýningu lokinni og í gær einnig.

-Þá hefur hún skilið eitthvað eftir sig, ekki satt?

„Jú, mér finnst það.“

Sædís segir myndina leikna en henni hafi þó sýnst að sumir sem fram í henni koma séu rauverulegir „trash humpers“, eða ruslagámariðlar. Þrír leikarar séu í aðalhlutverkum en inni á milli skjóti ýmsar persónur upp kollinum. Hún segir myndina snilldarverk, viðbjóðslega en á sama tíma drepfyndna. Leikstjóri hennar hafi gert frábærar kvikmyndir í gegnum tíðina og sýn hans fari yfir mörg strik en veki samt sem áður athygli og umtal.

-Ef þú ættir að gefa henni stjörnur, hvað væru þær margar?

„Ég myndi gefa henni þrjár og hálfa af fimm mögulegum,“ svarar Sædís. helgisnaer@mbl.is