Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Krafa um að Þorgerður Katrín segi af sér sem varaformaður hefur verið hávær innan Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga, bæði meðal þingmanna og óbreyttra flokksmanna

Eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is

UNDANFARNA daga, eða alveg frá því að rannsóknarnefnd Alþingis kynnti skýrslu sína sl. mánudag, hefur umræða innan Sjálfstæðisflokksins verið um það, hvort ekki sé rétt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins og þingmaður Suðvesturkjördæmis víki.

Flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í Stapa í Reykjanesbæ í dag og hefst hann kl. 9.30 með ræðum formannsins, Bjarna Benediktssonar og varaformannsins Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þar er búist við að Þorgerður Katrín greini flokksmönnum frá því hvernig hún hyggst haga pólitískri þátttöku sinni næstu mánuði og misseri.

Samkvæmt samtölum við óbreytta flokksmenn Sjálfstæðisflokksins og þingmenn í vikunni, eru langflestir þeirrar skoðunar að Þorgerður Katrín verði að víkja, en ekki eru allir sammála um með hvaða hætti það eigi að verða.

Þannig virðist ákveðinn hópur þingmanna telja að nóg sé að Þorgerður Katrín segi af sér varaformennskunni, en hinn óbreytti flokksmaður, grasrótin, virðist telja að slíkt dugi ekki til. Nauðsynlegt sé að hreinsa andrúmsloftið inni á þingi og því verði varaformaðurinn líka að taka sér leyfi frá þingstörfunum. Og harðasti kjarninn er á því að ofangreint dugi hvergi til. Þorgerður Katrín eigi einfaldlega að segja af sér, bæði varaformennskunni og þingmennskunni.

Baráttujaxl og töffari

Þessi afstaða virtist bara verða ákveðnari og harðari, eftir að Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti í gær að hann hefði ákveðið að taka leyfi frá þingstörfum og sagðist hann mundu senda forseta Alþingis bréf þess efnis fyrir upphaf þingfundar á mánudaginn. Illugi tilgreindi sem ástæðu stjórnarsetu sína í peningamarkaðssjóði, sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur sent til skoðunar hjá sérstökum saksóknara.

Viðmælendur Morgunblaðsins sögðu í gær að þetta væri bæði erfitt og viðkvæmt mál.

Gamalreyndur sjálfstæðismaður sem rætt var við í gær, kvaðst ekki endilega sannfærður um að Þorgerður Katrín myndi segja af sér varaformennskunni og hann taldi harla ólíklegt að hún segði af sér þingmennsku. „Menn mega ekki gleyma því að Þorgerður Katrín er mikill baráttujaxl og hún er töffari,“ sagði hann.

Bjarni Benediktsson mun hafa átt í miklum viðræðum við flokksmenn, þingmenn og varaformanninn í þessari viku. Bjarni vildi ekkert segja, þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.

Þorgerður Katrín kom heim til Íslands frá New York í fyrradag. Ekki náðist í hana í gær.

Illugi tekur sér leyfi frá þingstörfum vegna setu í stjórn peningamarkaðssjóðs Glitnis

Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sendi eftirfarandi yfirlýsingu frá sér um hádegisbil í gær:

„Ég hef ákveðið að taka leyfi frá þingstörfum og mun ég senda forseta Alþingis bréf þess efnis fyrir upphaf þingfundar á mánudaginn kemur.

Sú er ástæða ákvörðunar minnar, að rannsóknarnefnd Alþingis hefur vísað málum peningamarkaðssjóða til athugunar hjá sérstökum saksóknara.

Ég hef fengið hóp sérfræðinga til þess að lesa yfir þann kafla skýrslunnar sem snýr að störfum þeirrar stjórnar sem ég átti sæti í. Niðurstaða þeirrar skoðunar er sú að í skýrslunni sé ekki að finna dæmi um brot sem eru á ábyrgð stjórnarinnar, en benda megi á atriði sem betur hefðu mátt fara við rekstur sjóðanna, eins og áður hefur komið fram í opinberri umræðu.

Mat mitt er að sú óvissa sem myndaðist við þá ákvörðun nefndarinnar að vísa með almennum hætti málum peningamarkaðssjóðanna allra til sérstaks saksóknara, sé til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á störfum mínum á Alþingi. Jafnframt kann þessi óvissa að skaða Sjálfstæðisflokkinn í þeirri miklu vinnu sem framundan er við endurreisn íslensks efnahagslífs og samfélags. Við það get ég ekki unað.

Ég treysti því að embætti sérstaks saksóknara ljúki sem fyrst skoðun sinni og að þessari óvissu linni. Ég er ekki í vafa um að niðurstaða þeirrar skoðunar verði jákvæð og gangi það eftir mun ég í kjölfarið taka aftur sæti á Alþingi.“