„ÉG mun að sjálfsögðu reyna að ná hér holu í höggi,“ segir sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur, staddur í golfferð syðst á Spáni ásamt eiginkonu sinni, Signýju Bjarnadóttur, og hópi 30-40 íslenskra kylfinga.

„ÉG mun að sjálfsögðu reyna að ná hér holu í höggi,“ segir sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur, staddur í golfferð syðst á Spáni ásamt eiginkonu sinni, Signýju Bjarnadóttur, og hópi 30-40 íslenskra kylfinga. Hjálmar verður því að heiman á sextugsafmælinu í dag og heldur upp á það í golfmóti með Íslendingunum, sem snúist hefur upp í afmælismót honum til heiðurs. „Ætli ég bjóði ekki upp á léttar veitingar í tilefni dagsins í mótslok.“ Golfferðina pöntuðu þau hjónin um áramótin síðustu en þau hafa verið á kafi í golfíþróttinni undanfarin þrjú ár. Golfið er nú helsta frístundaiðja Hjálmars á milli anna við prestverkin. „Forgjöfin hjá mér er komin niður í 22, hún lækkar því með hækkandi aldri,“ segir Hjálmar kankvís en hann heitir fjölskyldu og vinum síðbúnum en hófstilltum afmælisfagnaði eftir heimkomu til Íslands í lok næstu viku.

„Við vonumst auðvitað til að komast heim og höfum fylgst hér náið með framvindu gossins í Eyjafjallajökli. Þetta er hér fyrsta frétt í öllum fjölmiðlum, sama hvert við lítum. Hugur okkar er meira og minna heima vegna gossins og við viljum skila góðri kveðju heim til Íslands,“ segir sr. Hjálmar Jónsson. bjb@mbl.is