Karen Knútsdóttir
Karen Knútsdóttir
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is MIKIL spenna ríkir fyrir úrslitarimmu Vals og Fram í N1-deild kvenna í handknattleik en Reykjavíkurrisarnir mætast í fyrsta úrslitaleiknum í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda klukkan 16 á morgun.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

MIKIL spenna ríkir fyrir úrslitarimmu Vals og Fram í N1-deild kvenna í handknattleik en Reykjavíkurrisarnir mætast í fyrsta úrslitaleiknum í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda klukkan 16 á morgun.

Morgunblaðið ræddi við tvo leikmenn liðanna, Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur, línumanninn sterka í liði Vals, og leikstjórnandann Karenu Knútsdóttur í liði Fram, og kannaði hug þeirra til úrslitaleikjanna.

,,Ég er handviss um að þetta verða mjög skemmtilegir leikir og fólk ætti að fjölmenna á þá því ég get lofað góðri skemmtun. Liðin eru ákaflega jöfn og ég held að dagsformið og viljinn ráði því hvort liðið hefur betur,“ sagði Anna Úrsúla við Morgunblaðið.

Anna Úrsúla: Viljum meira

,,Við töpuðum bikarúrslitaleiknum á móti Fram og okkur svíður enn sárt eftir það. En nú fáum við gott tækifæri til að svara fyrir það. Okkur var spáð þriðja sætinu og því er það ákveðinn sigur fyrir okkur að vera komin í úrslitin og hafa unnið deildarkeppnina en við viljum meira. Þótt liðin séu hnífjöfn að styrkleika þá eru þau ólík. Það eru ungir og mjög efnilegir leikmenn í Framliðinu en okkar lið er eldra og reynslumeira. Það er rosaleg tilhlökkun hjá okkur og ég býst alveg við því að þetta fari í fimm leiki. Bæði lið koma til með að leggja allt undir og það verður ekkert gefið eftir,“ sagði Anna Úrsúla. Hún segir að engin meiðsli séu hjá liðinu.

Karen: Staðráðnar í að vinna

,,Það er rosalegur hugur í okkur Frömurum og stemningin hjá okkur er virkilega góð. Við töpuðum illa úrslitaeinvíginu í fyrra fyrir Stjörnunni en við mætum reynslunni ríkari núna. Við settum okkur það markmið að vinna alla titlana sem í boði eru. Við urðum bikarmeistarar en misstum af deildarbikarnum svo nú verðum við að taka stóra titilinn,“ sagði Karen Knútsdóttir við Morgunblaðið en árið sem hún fæddist varð Fram síðast Íslandsmeistari.

,,Við sýndum það í leikjunum á móti Stjörnunni í undanúrslitunum að við erum tilbúnar í slaginn og við erum staðráðnar í að vinna þetta einvígi. Mér finnst liðin afar jöfn og spila líkan handbolta. Þau spila hraðan handbolta, markvarslan er virkilega góð hjá báðum liðum og þau stóla bæði mikið á hraðaupphlaupin og seinni bylgju. Ég á alveg eins von á því að úrslitin ráðist ekki fyrr en í fimmta leik og ég lofa bara frábærum leikjum,“ sagði Karen.

Líkt og hjá Val eru allir leikmenn Fram klárir í slaginn. Hafdís Hinriksdóttir hefur verið mikið frá vegna meiðsla á tímabilinu en að sögn Karenar eru vonir bundnar við að hún geti verið með í leikjunum.