Útskriftarhópur Hluti af þeim 25 nemendum sem útskrifast af tónlistarbraut Listaháskóla Íslands í vor. Útskriftartónleikar verða 22 talsins.
Útskriftarhópur Hluti af þeim 25 nemendum sem útskrifast af tónlistarbraut Listaháskóla Íslands í vor. Útskriftartónleikar verða 22 talsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hólmfríði Gísladóttur holmfridur@mbl.is Í VOR mun Listaháskóli Íslands útskrifa 25 nemendur af tónlistarbraut.

Eftir Hólmfríði Gísladóttur

holmfridur@mbl.is

Í VOR mun Listaháskóli Íslands útskrifa 25 nemendur af tónlistarbraut. Námið sem skólinn býður upp á er mjög fjölbreytt og verða veittar gráður fyrir harmónikku, selló, söng, nýmiðlun, kvikmyndatónlist, tónlistarkennslu, píanó, flautu, orgel, gítar og tónsmíðar. Blaðamaður ræddi við fjóra nemendur sem útskrifast nú í vor.

Orgel

– Hvað kom til að þú valdir þetta nám?

„Ég var búinn að prófa margt og var eiginlega hættur í tónlistarnámi. En þegar ég fór að skoða námið sá ég að það var svo mikið í þessu, t.d. kórstjórn og litúrgírskur orgelleikur, og þetta er bara mjög fjölbreytt nám.“

– Hvernig er náminu háttað?

„Þetta er sett upp sem þrjú ár og leiðir til BA-prófs. Ég er á sama tíma að klára kantorspróf frá Tónskóla þjóðkirkjunnar en það veitir starfsréttindi í stærri kirkjum á Íslandi. BA-námið er samvinna, Tónskóli þjóðkirkjunnar leggur til það sem viðkemur orgelnáminu, en Listaháskólinn leggur til það sem upp á vantar til þess að maður geti fengið gráðuna. Þannig að þeir sem hafa BA-próf í tónlist myndu kannski ekki hafa mikinn hag af því að fara þessa leið til að verða organisti, en ég var búinn með kirkjuorganistaprófið, sem er inntökuskilyrði til að hefja nám á Kirkjulistabraut í LHÍ, og stökk á þetta nám því ég var ekki búinn með neitt BA-próf.“

– Hvað tekur svo við?

„Ég er búinn að vinna sem organisti í þrjú ár með náminu en það sem er í boði hérna heima þegar maður er búinn með kantorsprófið eða BA-prófið frá LHÍ er að fara í svokallaðan einleiksáfanga sem er á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar. En margir fara líka út í mastersnám og mig langar að gera það.“

Nýmiðlar

– Hvernig er námið í nýmiðlun frábrugðið hefðbundnu tónsmíðanámi?

„Á nýmiðlabraut er áherslan lögð á tölvunotkun og að læra á forrit, en í hefðbundnu tónsmíðanámi er til dæmis lögð meiri áhersla á útsetningar og að skrifa út fyrir klassísk hljóðfæri. Allir læra hljómfræði og tónlistarsögur en í nýmiðlun förum við í kúrsa í hljóði og hreyfingu og í hljóðhönnun. Við erum meira að vinna með hljóð en hefðbundin hljóðfæri. Það eru til svo margar aðferðir til að læra á tónlist og búa hana til, og þetta er bara önnur aðferð heldur en þessi gamla aðferð við að skrifa nótur.“

– Af hverju valdirðu þetta nám?

„Ég sá einu sinni útskriftarverkefni sem snerist um vídeó og tónlist og fannst það mjög spennandi. Þessi samblanda af tónlist og sjónlist heillar mig mjög mikið og líka bara það að það er hægt að semja tónlist á svo margan annan hátt en að skrifa niður nótur. Mig langaði líka mikið til að læra að taka upp og þannig. Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þessa ákvörðun. Mér finnst ótrúlega gaman að vinna með mismunandi rými og leggja þannig áherslu á tónlistina, en ekki endilega að það sé bara tónleikasalur og fólk komi, setjist niður og klappi.“

Kvikmyndatónlist

– Af hverju þetta nám?

Mér fannst ég þurfa að víkka út tónlistarlegan skilning. Og að ég þyrfti að læra á nótur og fleira. Og mér fannst eins og þetta væri góð leið.

– Hvaða áherslur eru í náminu?

„Það er lagt heilmikið upp úr því að maður kynni sér sögu tónlistar almennt og að maður fái alla þá grunnþekkingu sem tónlistarmenn þurfa að hafa. Þessi kvikmyndalína er tiltölulega ný en þetta eru þrjú ár sem tónsmíðabrautin er og það er hægt að sérhæfa sig alveg frá byrjun. Almennar tónsmíðar, kvikmyndatónlistin og nýmiðlun helst í hendur, er með sameiginleg fög og slíkt. Sérhæfingin felst helst í því að ég er til dæmis að vinna með stuttmyndir og hugsa tónlist eiginlega eingöngu útfrá kvikmyndum. Þá er ég ekki að semja verk frá byrjun til enda heldur hugsa um stemningar og reyna að búa til tilfinningu við myndefni.

– Og hvert er svo framhaldið?

Vonandi halda áfram að gera kvikmyndatónlist. Mig langar líka að fara til Hollands og taka master. Þetta er mjög skemmtilegt nám.

Selló

– Hvenær vissir þú að þú ætlaðir að leggja tónlistina fyrir þig?

„Ég er búin að vera að læra músík frá því að ég var lítil. Ég byrjaði að læra 6 ára í tónlistarskóla og fór fljótlega eftir það að læra á selló. Svo þegar ég varð 16 ára byrjaði ég í Tónlistarskólanum í Reykjavík, þá komst svona alvara í þetta og það varð ekkert aftur snúið.“

– Hvernig er BA-nám í sellóleik uppbyggt?

„Ég var búin með 7. stig og slatta af þessum bóklegu fögum sem fylgja því þegar ég byrjaði. En þetta er þriggja ára háskólanám og er mjög mikið skipt í bóklegt og verklegt. Lokaverkefnið okkar er tvískipt, annars vegar bóklegt, sem er þessi BA-ritgerð, sem reyndar er styttri en gengur og gerist því við hins vegar höldum síðan opinbera tónleika sem eru svona alvöru, alveg einn og hálfur tími á lengd.“

– Og hvað tekur svo við?

„Ég ætla að fara út til Danmerkur í mastersnám í Árósum.“

Útskriftartónleikar og viðburðir

Tónlistardeild Listaháskólans mun í vor útskrifa tuttugu og fimm nemendur, og er það stærsti útskriftarhópur deildarinnar til þessa. Skólinn útskrifar í fyrsta sinn þrjá nemendur með MA-gráðu frá tónlistardeild, allar í tónsmíðum, og veitir einnig í fyrsta sinn BA-gráður í kvikmyndatónlist, orgelleik og harmóníkuleik.

Í dag, 17. apríl, verða fyrstu útskriftatónleikar vorannarinnar haldnir í Þjóðmenningarhúsinu en þeir marka upphaf útskriftardagskrár sem mun standa til 30. maí næstkomandi.

Alls verða útskriftartónleikarnir tuttugu og tveir talsins, en auk þeirra verður haldinn einn fræðifyrirlestur. Dagskrá viðburðana má nágast á heimasíðu skólans, www.lhi.is.