Leifsstöð Farþegum hefur fjölgað á nýjan leik eftir mikla lægð, sem nær aftur til ársins 2008.
Leifsstöð Farþegum hefur fjölgað á nýjan leik eftir mikla lægð, sem nær aftur til ársins 2008. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Sigtrygg Sigtryggsson sisi@mbl.is NÝJUSTU tölur um fjölda flugfarþega til landsins og frá bentu til þess að flugstarfsemin væri loks að ná sér á strik eftir mikla lægð.

Eftir Sigtrygg Sigtryggsson

sisi@mbl.is

NÝJUSTU tölur um fjölda flugfarþega til landsins og frá bentu til þess að flugstarfsemin væri loks að ná sér á strik eftir mikla lægð. Alger óvissa ríkir um það hvaða áhrif eldsumbrotin á Suðurlandi muni hafa varðandi þessa jákvæðu þróun.

Farþegum sem fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um 15,7% í mars miðað við sama tíma í fyrra, úr 92 þúsund farþegum árið 2009 í 107 þúsund farþega nú. Farþegum til og frá Íslandi fjölgaði um 13,8% milli ára, en farþegum sem millilenda hér á landi á leið yfir Norður-Atlantshafið fjölgaði um tæplega 32%.

Farþegum sem fara um Flugstöðina hefur fækkað flesta mánuði frá því í apríl 2008. Þarf að fara allt aftur til nóvember 2006 til að finna jafnmikla fjölgun farþega milli mánaða og í nýliðnum mars. Fram til apríl 2008 hafði farþegum sem fóru um Leifsstöð fjölgað hægt og bítandi.

Í febrúar fjölgaði farþegum lítillega frá febrúar 2009, eða um 1,7%

Fyrstu þrjá mánuði ársins fóru 274.886 farþegar um Flugstöðina og hafði fjölgað um tæplega 15 þúsund miðað við sömu mánuði í fyrra. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2008 var farþegafjöldinn hins vegar 378.540, sem var met. Það er því langt í land að ná hápunktinum á nýjan leik.