Fjölskyldan Annika, Þorbjörg Sara Guðlaugsdóttir og Guðlaugur Sigurður.
Fjölskyldan Annika, Þorbjörg Sara Guðlaugsdóttir og Guðlaugur Sigurður. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Andra Karl andri@mbl.is „AÐ SJÁLFSÖGÐU er gaman að upplifa þetta. En maður er samt hálfdofinn,“ sagði Annika Rosén, bóndi á Ysta-Skála, síðdegis í gær.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

„AÐ SJÁLFSÖGÐU er gaman að upplifa þetta. En maður er samt hálfdofinn,“ sagði Annika Rosén, bóndi á Ysta-Skála, síðdegis í gær. Annika sem er sænsk hefur ekki áður upplifað eldgos og segist nokkuð spennt um leið og hún geri sér fyllilega grein fyrir mögulegum afleiðingum.

Annika sem flutti til Íslands árið 1980 heldur bú ásamt eiginmanni sínum, Guðlaugi Sigurði Einarssyni, og þremur börnum. Eru þau með kýr, kindur og hross. Hún minnist þess að aðfaranótt miðvikudags hafi fjölskyldan ekki sofið nema um tvo tíma þegar síminn hringdi og þau voru beðin að yfirgefa heimilið.

Upplýsingafulltrúi fyrir sænska fjölmiðla

Þrátt fyrir röskun á hefðbundnu heimilislífi lætur fjölskyldan atburðina ekki mikið á sig fá. Hins vegar hefur fjölskylda Anniku í Svíþjóð verið í nær stöðugu sambandi frá upphafi. Hefur hún enda miklar áhyggjur af Anniku og fjölskyldunni við rætur eldfjallsins.

Þegar tilkynning barst um fyrsta jökulflóðið segir Annika að fjölskyldan hafi helst óttast að flæða myndi í tveimur ám sem eru beggja vegna búsins. Sem betur fer hafi það ekki gerst, og muni vonandi ekki gerast. Hún hefur ekki teljandi áhyggjur af því að öskufallið valdi tjóni á túnum enda muni askan að öllum líkindum fjúka fljótt burt.

Meðfram því að hafa áhyggjur af afleiðingum gossins hefur Annika hálfpartinn sinnt hlutverki upplýsingafulltrúa fyrir sænska fjölmiðla, en þeir voru fljótir að hafa uppi á henni þegar byrjaði að gjósa. Kannski ekki að undra, enda fáir aðrir Svíar í grennd. „Þeir hringja fram eftir öllu kvöldi og byrja klukkan sex á morgnana,“ segir Annika og gefur lítið fyrir athyglina. „Ég væri alla vega til í að deila henni með einhverjum.“