Bronsið Íslensku landsliðsmennirnir ánægðir með bronsverðlaunin um hálsinn í lok heimsmeistaramótsins í Eistlandi í gær.
Bronsið Íslensku landsliðsmennirnir ánægðir með bronsverðlaunin um hálsinn í lok heimsmeistaramótsins í Eistlandi í gær. — Ljósmynd/Kristján Maack
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson í Eistlandi kris@mbl.is ÍSLENSKA landsliðið í íshokkíi náði takmarki sínu í 2. deild á HM í Eistlandi þegar liðið vann til bronsverðlauna en mótinu lauk í gærkvöldi. 2.

Eftir Kristján Jónsson í Eistlandi

kris@mbl.is

ÍSLENSKA landsliðið í íshokkíi náði takmarki sínu í 2. deild á HM í Eistlandi þegar liðið vann til bronsverðlauna en mótinu lauk í gærkvöldi. 2. deild er leikin í tveimur riðlum og dróst Ísland í sterkari riðilinn. Hlutskipti Íslands var lengi vel að flakka á milli 2. og 3. deildar en nú náði liðið mjög sannfærandi inn í efri hlutann í 2. deild.

Ísland undirstrikaði styrk sinn í gærkvöldi með því að leggja Ísrael að velli 6:2 án þess að sýna sínar bestu hliðar. Er þetta stærsti sigur Íslands á Ísrael en Ísraelsmenn voru í 1. deild fyrir ekki ýkja mörgum árum. Sama er hægt að segja um Kína sem Ísland vann 3:1 í keppninni. Ísland hafði aldrei áður lagt Kína að velli en þeir áttu lið í 1. deild fyrir nokkrum árum. Á meðan þessar þjóðir eru á niðurleið þá er Ísland klárlega á uppleið.

Emils þáttur Alengaard

Emil Alengaard og Robin Hedström sáu öðrum fremur um að afgreiða pirraða Ísraelsmenn sem voru fallnir niður í 3. deild fyrir viðureignina. Emil sýndi allar sínar bestu hliðar í leiknum, skoraði fjögur mörk og lagði upp hin tvö fyrir Robin. Tvö af mörkum Emils voru einstaklega glæsileg en þá skautaði hann upp allan völlinn, prjónaði sig í gegnum vörn Ísraela og skoraði einn síns liðs. Emil skoraði samtals 6 mörk í leikjunum fimm og var án efa einn skemmtilegasti leikmaður keppninnar. Emil var valinn besti leikmaður Íslands í keppninni. Robin gerði 4 mörk og var næst markahæstur Íslendinga.

Ísland bætti eigið stigamet

Eins og fram hefur komið þá hafði Íslandi aldrei áður tekist að ná 3. sæti í 2. deild en liðið varð í 4. sæti í Serbíu í fyrra. Liðið náði því sínum besta árangri frá upphafi en bætti einnig stigamet sitt með því að vinna þrjá leiki af fimm. Þó að íslenski hópurinn hafi sett sér þetta markmið kom þetta engu að síður mörgum á óvart í keppninni. Á pappírunum frægu þá áttu Nýja-Sjáland og Ísland að vera slökustu liðin en Nýsjálendingar komu upp úr 3. deild. Íslensku strákarnir vissu hins vegar betur því þeir unnu Ísrael í fyrra og höfðu tapað fyrir Kína í framlengingu. Það eina sem kom íslensku strákunum á óvart í keppninni var hversu nálægt þeir eru Eistum og Rúmenum í getu. Bæði liðin standa Íslendingum framar enda töpuðust báðir leikirnir með fimm marka mun. Leikirnir voru hins vegar jafnari en flestir reiknuðu með.

Liðið sem talað er um

Árangur Íslands hefur vakið mikla athygli á meðal keppnisþjóðanna hér í Narva. Ýmsir fulltrúar annarra þjóða komu að máli við blaðamann Morgunblaðsins á meðan keppninni stóð. Í upphafi keppninnar reiknuðu þeir allir með því að takmark Íslendinga væri að halda sæti sínu í deildinni. Þegar undirritaður tjáði þeim að Ísland ætlaði sér 3. sæti þá settu menn í brýrnar. Það var eitthvað sem menn sáu ekki fyrir og ekkert óeðlilegt við þau viðbrögð í ljósi þess að Ísland keppti fyrst á HM árið 1999. Eftir því sem á hefur liðið keppnina hefur íslenska liðið heillað fleiri og fleiri hér á mótsstaðnum. Eistarnir eru til dæmis mjög hrifnir af þeim framförum sem orðið hafa hjá íslenska liðinu. Þeir ættu að þekkja það því þeir unnu Ísland 16:1 fyrir ári en sluppu nú vel með 6:1 sigur.

Það sem leikmenn, tækjastjórar og þjálfarar annarra liða hafa einnig haft á orði við undirritaðan, er hversu mikinn stöðugleika íslenska liðið sýndi. Það átti í raun engan lélegan leik. Vann þrjá leiki sem það hafði aldrei gert áður en datt ekki niður gegn sterku þjóðunum heldur lét atvinnumennina hafa fyrir hlutunum. Þá komum við einnig að einu atriði sem gjarnan vill gleymast og það er sú staðreynd að enginn leikmaður landsliðsins er atvinnumaður.