Glæsilegar Þessar ungu stúlkur vöktu mikla athygli og aðdáun þátttakenda í skrúðgöngunni og komu meira að segja fram í sjónvarpsfréttum.
Glæsilegar Þessar ungu stúlkur vöktu mikla athygli og aðdáun þátttakenda í skrúðgöngunni og komu meira að segja fram í sjónvarpsfréttum. — Ljósmynd/Brynhildur Anna Ragnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svo lengi sem ég man eftir mér hefur páskadagur verið í ansi föstum, en ljúfum skorðum í fjölskyldunni.

Svo lengi sem ég man eftir mér hefur páskadagur verið í ansi föstum, en ljúfum skorðum í fjölskyldunni. Þegar við bræðurnir vorum yngri var vissulega meiri áhersla á páskaegg en nú er, en nýbakaðar bollur og heitt súkkulaði á páskadagsmorgun hafa verið fastur póll í hátíðahöldunum, jafnvel löngu eftir að ég var fluttur að heiman.

Það var því afar áhugavert að fylgjast einu sinni með páskadegi í öðru landi, en í ár var ég staddur í New York yfir páskahelgina.

Kristni er vissulega mjög stór þáttur í þjóðarsál Bandaríkjamanna, en í hátíðahöldunum í New York fór hins vegar miklu meira fyrir blómum og eggjum en kristilegum táknum.

Á hverju ári er haldin mikil skrúðganga á Fimmta breiðstræti, sem er merkileg fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi er ekki um eiginlega skrúðgöngu að ræða. Hún hefst ekki á einum stað og endar á öðrum. Í stað þess er breiðstrætinu lokað á stórum kafla og fólk labbar eftir því, í hvora áttina sem er, sýnir sig og skoðar aðra. Sterk hefð er nefnilega fyrir því að mæta í skrúðgönguna í litríkum fatnaði og eiga þátttakendur að vera prýddir höttum. Því stærri og meira áberandi sem höfuðfötin eru því betur þykir viðkomandi hafa tekist til.

Greinilegt var að hjá þeim sem taka þátt beygist krókurinn snemma, en í göngunni mátti sjá börn af báðum kynjum með hreint glæsilega hatta. Eru mér eftirminnilegar tvær stúlkur – á að giska tíu ára gamlar – sem voru með hatta sem hlaðnir voru ferskum blómum og hefðu allt eins átt heima á Ascot-veðreiðavellinum.

Blóm voru líka í aðalhlutverki í stórversluninni Macy's, sem á hverju vori efnir til mikillar blómaveislu í versluninni á Broadway. Öll neðsta hæð verslunarinnar, sem er sú stærsta í heimi, var böðuð í blómum og skrautjurtum af öllu tagi og komu heimsþekktir blómaskreytingamenn að samsetningu sýningarinnar. Þá ómaði fuglasöngur um verslunina, en smáfuglar sátu víðs vegar í litlum búrum og glöddu gesti og gangandi. Til að slá á áhyggjur dýravina voru þeir upplýstir um að fuglarnir fengju reglulega að taka hlé frá skarkalanum og hlaða rafhlöðurnar.

Central Park vann hins vegar allar blómakeppnir, en kirsuberjatrén voru á þessum tíma að fella blómin og göngutúr um garðinn var eins og að ganga í gegnum ilmandi snjókomu. bjarni@mbl.is

Bjarni Ólafsson

Höf.: Bjarni Ólafsson