Tíu Ólafur Stefánsson sýndi enn og aftur að hann er í fremstu röð í heiminum og skoraði 10 mörk gegn Frökkum. Hér reynir Nicola Karabatic að stöðva hann.
Tíu Ólafur Stefánsson sýndi enn og aftur að hann er í fremstu röð í heiminum og skoraði 10 mörk gegn Frökkum. Hér reynir Nicola Karabatic að stöðva hann. — Morgunblaðið/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mjög góður leikur íslenska landsliðsins í síðari hálfleik trryggði því jafntefli við þrefalt meistraralið Frakka í Laugardalshöll í gærkvöldi, 28:28, í leik þar sem stemningin var eins og best varð á kosið.

Mjög góður leikur íslenska landsliðsins í síðari hálfleik trryggði því jafntefli við þrefalt meistraralið Frakka í Laugardalshöll í gærkvöldi, 28:28, í leik þar sem stemningin var eins og best varð á kosið. Eftir að hafa mátt teljast gott með að sleppa við að vera aðeins fimm mörkum undir í hálfleik, 17:12, þá sýndi íslenska liðið á sér aðra hlið í síðari hálfleik. Liðin eigast við að nýju í dag í Laugardalshöll.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

FYRRI hálfleikur var slakur af hálfu íslenska liðsins. Lengi framan af var sóknarleikurinn staður og Frakkar áttu auðvelt með að verjast honum. Þá sjaldan það tókst að opna frönsku vörnina gekk illa að koma boltanum framhjá Thierry Omeyer markverði sem fór á kostum og varði 13 skot í fyrri hálfleik.

Eftir talsverðar breytingar á uppstillingu í sóknarleiknum lagaðist hann aðeins þegar á leið. Meiri ákveðni var, stimplanir voru betri og hraðinn jókst.

Varnarleikurinn var einnig gloppóttur í fyrri hálfleik hjá íslenska landsliðinu, einkum opnaðist á tíðum illa fyrir línumann Frakka, Bertrand Gille.

Skemmtileg innkoma Arons

Þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fór kom Aron Rafn Eðvarðsson í markið í stað Björgvin Páls Gústavssonar sem varið hafði fimm skot. Aron Rafn minnti strax á sig með því að verja tvö skot, þar af eitt vítakast. Skemmtileg innkoma hjá þessum efnilega markverði.

Íslenska liðið skoraði þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og lagaði þar með stöðuna þannig að aðeins var fimm marka munur, 17:12, sem lengst af meiri.

Ólafur fór á kostum

Fljótlega í síðari hálfleik var ljóst að allt annað íslenskt lið kom til leiks í síðari hálfleik. Vörnin var mun betri sem sést á því að Frakkar skoruðu aðeins 11 mörk í síðari hálfleik. Ólafur Stefánsson fór á kostum í sóknarleiknum og lék frönsku vörnina tíðum grátt. Björgvin Páll kom í markið síðasta stundarfjórðunginn eða svo og varði vel, m.a. tvö vítaköst. Í heild var leikurinn allt annar, menn voru baráttuglaðari og léttari á fæti í vörninni og sóknarleikurinn gekk betur gegn frönsku vörninni sem lék aftar en hún leikur oftast nær. Með smáheppni hefði e.t.v. mátt stela sigrinum en jafntefli var viðunandi niðurstaða eftir slakan fyrri hálfleik.

Ekki slegnir út af laginu

* Guðmundur ánægður með seinni hálfleikinn * Fastir í fari í þeim fyrri

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„VIÐ lékum alls ekki nógu vel í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var slakur og sóknarleikurinn var hægur og boltinn fékk ekki að ganga eins vel á milli manna og hann átti að gera. Síðari hálfleikur var miklum mun betri, vörnin var góð sem sést meðal annars á því að við fengum þá aðeins 11 mörk á okkur,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, eftir jafnteflið við Frakka í Laugardalshöll í gærkvöldi.

„Við vorum fastir í einhverju fari í sóknarleiknum lengst af fyrri hálfleiks. Síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks lagaðist hann aðeins og þá fengum við nokkur færi og gátum þar af leiðandi verið þokkalega sáttir í hálfleik. Síðan fórum við bara yfir stöðuna og ég sagði að við værum enn inni í leiknum þótt við værum fimm mörkum undir. Fyrirfram vorum við staðráðnir í að láta það ekki slá okkur út af laginu að vera undir í leiknum og mönnum tókst að hafa það í huga.

Í síðari hálfleik komum við svo sannarlega til baka og bættum okkur á öllum sviðum. Vörn og sókn batnaði mikið og síðan var Björgvin sterkur í markinu á lokakaflanum og varði vel á mikilvægum augnablikum. Þess vegna náðum við jafntefli að þessu sinni og hefðum ef til vill getað „stolið sigri“,“ sagði Guðmundur Þórður.

Hann sagði að eitt og annað af því nýja sem verið var að reyna hefði tekist misjafnlega. „Einkum vegna þess að Frakkar léku vörnina aftar en þeir eru vanir, til dæmis þegar við mættum þeim á EM í Austurríki. Fyrir vikið gerðum við breytingar á sóknarleiknum frá því sem lagt var upp með. Segja má að margt af því hafi gengið upp, ekki síst í síðari hálfleik þegar okkur hafði gefist ráðrúm til þess að fara yfir stöðuna.“

Um síðari leikinn á morgun sagði Guðmundur: „Við getum ekki leyft okkur að byrja þann leik eins og við gerðum í kvöld. En við tökum það jákvæða út úr þessum leik með inn í viðureignina á morgun og ekki mun af veita því Frakkar koma alveg kolvitlausir í hana, það er alveg ljóst. Síðari hálfleikur var skref í rétta átt.“

Alltof lengi í gang

* Fyrsta skrefið til að komast nær Frökkum * Áframhaldandi skemmtun lofað í leiknum í dag * Klassísk ræða í hálfleik

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„VIÐ vorum alltof lengi í gang en létum það ekki slá okkur út af laginu. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið fyrsta skrefið í þá átt að komast nær Frökkunum,“ sagði Þórir Ólafsson hornamaður sem átti fínan leik og skoraði þrjú mörk. Hann kom inn í landsliðið á nýjan leik eftir að hafa misst af EM í Austurríki vegna meiðsla.

„Frakkar hafa verið mikil fyrirstaða og við sáum það vel á þessum leik,“ sagði Þórir. Spurður um hvað Guðmundur landsliðsþjálfari hefði sagt við menn í hálfleik hikaði Þórir en svaraði síðan: „Það var bara eitthvað klassískt, við ættum bara að halda áfram, gefast ekki upp. Karlinn er alltaf hress,“ sagði Þórir og brosti.

„Við vorum bara staðráðnir í að komast nær Frökkunum. Við vorum aðeins að nálgast þá undir lok fyrri hálfleik og fundum vel að við gátum gert betur. Málið var að þétta vörnina og það tókst. Síðan skiptu þeir aðeins út af leikmönnum í síðari hálfleik, nokkrir nýir fengu að spreyta sig og það hefur ef til vill haft eitthvað að segja. Einnig tókst okkur aðeins að berja á þeim og fá nokkur hraðaupphlaup. Við það opnaðist leikurinn,“ sagði Þórir.

„Nú er bara að sjá hvernig tekst til á morgun, ég get að minnsta kosti lofað áframhaldandi skemmtun.“

Þakka gosinu fyrir tækifærið

„Ég átti alveg von á því að fá tækifæri til þess að komast inn á. Þegar að því kom þá var ég eiginlega bara ekkert stressaður og allt gekk bara betur en ég þorði að vona. Þetta var bara alveg frábært,“ sagði hinn ungi og efnilegi markvörður Aron Rafn Eðvarðsson sem lék í marki Íslands í einar 20 mínútur í sínum fyrsta landsleik og varði m.a. eitt vítakast.

„Ég hélt að ég yrði bara ein taugahrúga þegar ég fengi tækifærið en sú varð ekki raunin. Nú að leikslokum þá þakka ég bara gosinu í Eyjafjallajökli fyrir að ég fékk tækifæri í þessum skemmtilega leik. Ef ekki hefði gosið þá hefði Hreiðar Guðmundsson örugglega komið og ég ekki verið með. Það var þá eitthvað jákvætt sem kom út úr þessu gosi,“ sagði Aron Rafn.

Ísland - Frakkland 28:28

Laugardalshöll, vináttulandsleikur í handknattleik karla, föstudaginn 16. apríl 2009.

Gangur leiksins: 1:0, 2:1, 2:5, 4:10, 6.13, 9:15, 12:17 , 13:17, 17:19, 17:22, 19:24, 23:25, 25:26, 26:26, 27:26, 27:28, 28:28 .

Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 10/7, Alexander Petersson 4, Arnór Atlason 4, Róbert Gunnarsson 4, Þórir Ólafsson 3, Logi Geirsson 2, Aron Pálmarsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 15/2 (þaraf 5/1 aftur til mótherja). Aron Rafn Eðvarðsson 5/1 (þaraf 2 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Frakka : Nikola Karabatic 8, William Accambray 8, Bertrand Gille 4, Xavier Barachet 2, Luc Abalou 2, Didier Dinart 1, Guillaume Joli 1, Gregoire Detrez 1, Samuel Honrubia 1.

Varin skot : Thierry Omeyer 13/1 (þaraf 4 til mótherja). Daouda Karaboue 4 (þaraf 3 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Reiner og Bernd Methe frá Þýskalandi.

Áhorfendur : 2.800, fullt hús.