Jónas Bjarnason
Jónas Bjarnason
Eftir Jónas Bjarnason: "Um er að ræða fyrningu á forréttindum en ekki tekjum. Það eru sjálf forréttindin, sem sumir hafa haft en ekki aðrir, sem minnka um 5% á ári."

FLESTUM mun kunnugt um stefnu ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda í íslenskum sjávarútvegi. Hún er liður í boðaðri endurskipulagningu á íslenskum fiskveiðum, en ekki skiptir í sjálfu sér máli þótt stefnan sé komin frá Samfylkingu. Ýmsir hafa rætt þannig um þessi mál að vöntun sé á rökstuðningi á þessum breytingum. Það er rangt eftir haft en ritari vill fara nokkrum orðum um málin þótt ekki hafi hann heimild til að fjalla um þau af hálfu ríkisstjórnarinnar en hann er áhugamaður um sjávarútveg og velfarnað í íslensku atvinnulífi á landsbyggðinni. Af langri reynslu af sjávarútvegi veit hann að málin eru flókin og viðkvæm og erfitt er að ná fram breytingum svo allir séu sáttir.

Samtök í útgerð hafa skrifað um kvótakerfið og reynt að verja það allri gagnrýni og hafa þau sum hver gengið ansi langt í þeim efnum. Kvótakerfið hefur fengið á sig dóm af hálfu mannréttindanefndar SÞ gagnvart íslenskum sjómönnum. Hann byggist á því að sumir sjómenn geta starfað á sjó hjá útgerðum sem hafa fengið ókeypis eða keypt kvóta einhvern tíma í fortíð. Þeir fá því aðrar og hærri tekjur en þeir sjómenn, sem starfa hjá útgerðum, sem verða að kaupa sér aflaheimildir eða leigja hverju sinni. Þetta er alkunnugt. Þetta er mismunun sem getur ekki viðgengist til frambúðar og er það vegna réttlætiskenndar þjóðarinnar.

Reiknað hefur verið út fyrir samtök útgerðarmanna að 5% fyrning eða árleg minnkun á úthlutuðum aflaheimildum feli í sér 5% árlega minnkun á tekjum útgerðarfyrirtækja. Og þau einnig hafa fengið matsfyrirtæki til að reikna út hversu langan tíma það taki útgerðirnar að fara á hausinn með 5% árlegum tekjusamdrætti. Síðan hafa mörg samtök og einstaklingar rætt opinberlega um þessi mál og haldið fram ofanritaðri útreikningsaðferð og farið hinum verstu orðum um áætlanirnar og skammast út í stjórnvöld. – Þetta hefur haldið áfram þrátt fyrir mótmæli ýmissa og þar á meðal ritara þessara orða. Honum þykir það með ólíkindum að menn skuli leyfa sér að halda þessu fram en stefnt er að því að jafna aðstöðu útgerða til öflunar kvóta. Það þýðir að kvóti sem „losnar“ eða er ekki úthlutað skv. fyrirfram áætluðu kerfi eða hlutfallstölum, sem stuðst hefur verið við, stendur öllum til boða jafnt. Það sem um er að ræða er því fyrning á forréttindum en ekki tekjum. Það eru bara sjálf forréttindin sem sumir hafa haft en ekki aðrir sem minnka um 5% á ári.

Það á ekki að þurfa að deila um það að kvótakerfið svokallaða er kerfi forréttinda. Og samtök útgerða eða útgerðarmanna eru félagasamtök sem byggjast aðallega á félögum sem hafa forréttindi. Það er því ljóst að þeim hættir til að taka réttindamál þeirra, sem eru í samtökunum, fram yfir réttindi almennings í landinu og sjómanna sem njóta ekki forréttindanna. Það er skiljanlegt en ekki stórmannlegt hvað þá siðrænt.

Ritari vill með þessum orðum reyna að aðstoða við útskýringar en hvernig útgerðir munu fá úthlutanir veiðiréttinda að fyrningu lokinni er alls ekki á færi ritara að geta sér til um.

Höfundur er efnaverkfræðingur.