[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is ELDGOSIÐ í Eyjafjallajökli heldur áfram að valda gríðarlegum truflunum á flugumferð um Evrópu og í raun frá öllum heimsálfum.

Eftir Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

ELDGOSIÐ í Eyjafjallajökli heldur áfram að valda gríðarlegum truflunum á flugumferð um Evrópu og í raun frá öllum heimsálfum. Áhrifa öskunnar frá gosinu gætti allt suður til Spánar og Ítalíu og austur til Rússlands. Talið er að um 17 þúsund flugferðir hafi fallið niður í gær og allar líkur á að þetta ástand verði viðvarandi næstu daga. Að jafnaði eru um 28 þúsund flug um Evrópu á hverjum degi.

Þetta hafði þau áhrif í gær að mikið öngþveiti var á lestarstöðvum víða um Evrópu. Langar biðraðir mynduðust og gaf bókunarkerfi Eurostar-lestarinnar sig um tíma. Bílaleigur, ferjur, rútufyrirtæki og leigubílstjórar nutu góðs af truflunum á fluginu og dæmi voru um að fólk tók leigubíla langar leiðir á milli landa, samanber fréttina hér til hliðar.

Sum flugfélög ákváðu í gær að fresta öllu sínu flugi fram á mánudag, eins og Ryanair, og útlit er fyrir að fleiri flugfélög muni grípa til sömu ráðstafana yfir helgina. Langflestir flugvellir í Evrópu voru ýmist lokaðir eða lamaðir í gær en þó rofaði til í norðurhéruðum Noregs og Svíþjóðar, sem og á Norður-Írlandi og nyrst í Skotlandi.

Þannig náðu Icelandair og Iceland Express að fljúga til Glasgow í gær, aðallega með þá farþega sem höfðu beðið eftir flugi hér á landi síðustu daga til Bretlandseyja og annarra áfangastaða í Evrópu. Icelandair fór þrjár ferðir til Glasgow og Iceland Express eina. Flug á aðra áfangastaði félaganna í Evrópu lá niðri í gær og snerti það þúsundir farþega. Ferðir Icelandair til Bandaríkjanna hafa ekki raskast.

25 milljarða tjón á dag

Flugfélög verða mörg hver fyrir gríðarlegu fjártjóni sem skiptir tugum og hundruðum milljarða króna í það heila tekið. Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, töldu í gær að félögin töpuðu um 200 milljónum dollara á dag, jafnvirði 25 milljarða kr. Önnur stofnun, Centre for Asia Pacific Aviation, taldi að flugfélög gætu orðið af tekjum um helgina upp á einn milljarð dollara, eða um 125 milljarða króna.

Einna mest er tjónið talið vera fyrir British Airways, eða um 4 milljarðar króna á dag. Enda fór eins með hlutabréf félagsins og öskuna frá Íslandi, þau féllu í verði á markaði um rúm 3% í gær líkt og hjá fleiri flugfélögum. Má þar nefna Virgin Atlantic, Norwegian Airlines, Lufthansa, Air France-KLM og SAS, en bréf þess félags lækkuðu strax á fimmtudag um 7% í kauphöllinni í Stokkhólmi. Hefur fjárhagsstaða SAS ekki verið góð undanfarið.

Gríðarlegt áhyggjuefni

Íslensk flugfélög hafa ekkert farið varhluta af þessum truflunum á fluginu og fjártjón þeirra er sömuleiðis mikið. Fyrir utan raskanir á áætlunarferðum eru afbókanir farnar að berast, þó ekki í miklum mæli að sögn talsmanna félaganna í gær.

Birkir Hólm Guðnason, framkæmdastjóri Icelandair, segir starf félagsins þessa fyrstu daga eftir gos aðallega snúast um að koma farþegum á milli staða eða aðstoða þá sem sitja fastir hér og á öðrum áfangastöðum. Mikil óvissa ríki um framhaldið en haldi gosið lengi áfram sé það gríðarlegt áhyggjuefni fyrir íslenska ferðaþjónustu. Birkir segir Icelandair standa fjárhagslega vel og lausafjárstaðan sé góð nú um stundir. Útlagður kostnaður félagsins þessa fyrstu daga vegna raskana á flugi sé á bilinu 50-100 milljónir króna, fyrir utan tapaðar tekjur.

„Vissulega er þetta alvarlegt mál. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að þetta verði ekki langvarandi ástand. Eitthvað hefur verið um afbókanir en við höfum meiri áhyggjur af ímyndinni og að farþegar treysti sér ekki til að koma til Íslands. Byggja þarf upp og endurskapa ímynd íslenskrar ferðaþjónustu,“ segir Birkir og gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki komið betur á framfæri upplýsingum til erlendra fjölmiðla.

„Maður sér engan vera að svara fyrir Ísland. Allir eru að einbeita sér að einhverri skýrslu á meðan Róm brennur og gjaldeyristekjur hverfa úr landinu. Erlendis birtast fréttir um að hér gangi um fólk með gasgrímur út af öskunni og gosið geti staðið í tvö ár. Enginn er að leiðrétta þetta frá Íslandi og við höfum orðið að gera það í samtölum við okkar söluaðila og viðskiptavini. Þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Birkir.

Leigubíll frá Osló til Brüssel kostaði Cleese 650 þúsund kr.

Breski gamanleikarinn John Cleese varð ásamt hundruð þúsunda flugfarþega í Evrópu fyrir barðinu á eldgosinu í Eyjafjallajökli. Hann varð strandaglópur á flugvellinum í Osló á leið sinni til London, eftir að hafa komið fram í norskum skemmtiþætti, Skavlan. Greip leikarinn þá til þess ráðs að taka leigubíl alla leiðina til Brüssel í Belgíu, sem er 1.500 kilómetra akstur. Til þess þurfti tvo bílstjóra vegna reglna um hvíldartíma en frá Brüssel hyggst Cleese taka lestina Eurostar til Lundúna í dag.

Eldgosið verður leikaranum kostnaðarsamt því leigubíllinn kostaði litlar 650 þúsund krónur, eða um 30 þúsund norskar.

Fyrir utan öll hin óborganlegu gamanhlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, ekki síst Monty Python, er leikarinn Íslendingum að góðu kunnur úr auglýsingum Kaupþings er allt lék þar í lyndi.

Þetta ferðalag leikarans komst í þarlenda fjölmiðla og fréttamenn TV2 spurðu hvort Cleese dytti í hug einhver brandari. Ekki stóð á svarinu: „Hvernig færðu Guð til að hlæja? Segðu honum frá þínum ferðaáætlunum.“ bjb@mbl.is

Áhrifasvæði eldgossins stækkar og askan fellur á fleiri stöðum

Breyting á vindáttum í gærkvöldi varð til þess að eldgosið varð sýnilegt fólki úr byggð. Farið var að bera á öskufalli í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllum og er hætt við að askan berist til Eyja í dag, samkvæmt veðurspám. Líklegra er þó að það gerist í ríkari mæli á mánudag.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir nokkuð eindregnar norðan-, vestan- og suðvestanáttir næstu daga og ólíklegt að vindar snúist til austanáttar. Spám beri þó ekki saman um það um miðja næstu viku, en hætt er við að suðvesturhorn landsins verði fyrir barðinu á sterkum austanvindum frá gosinu, ekki síst millilanda- og innanlandsflug. Einar segir vindstyrkinn alveg upp í flughæð vera mjög eindreginn og lítil hætta sé á að háloftavindar beri ösku niður á einhverjum öðrum landshlutum en þeim sem eru næst gosstöðvunum.

Hánorðanátt verður ríkjandi í dag og léttskýjað á Suðurlandi. Á morgun snýst hann í norðvestan- og vestanátt. Veðurstofan reiknar þá með öskufalli frá Eyjafjöllum og austur að Mýrdalssandi. Á mánudag eru norðanáttir á ný í kortunum og norðaustanátt er líður á daginn. bjb@mbl.is

„ Móðir náttúra gaf og hún tók“

  • Ferðaþjónustufyrirtæki verða fyrir barðinu á eldgosinu í Eyjafjallajökli
  • Ekki jafn vænt og gosið á Fimmvörðuhálsi
  • Ferðamálastjóri segir stöðuna grafalvarlega ef gosið verður langvarandi
  • Eftir Björn Jóhann Björnsson

    bjb@mbl.is

    ÍSLENSK ferðaþjónustufyrirtæki eru þegar farin að finna fyrir afbókunum erlendra ferðamanna til landsins vegna eldgossins.

    Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Mountain Taxi, sem hefur verið með fjallaferðir á hálendið, hefur þurft að aflýsa nokkrum ferðum.

    „Móðir náttúra gaf og hún tók,“ segir Kristján og vísar þar til breytinganna sem urðu á örskotsstundu frá gosinu á Fimmvörðuhálsi og þar til fór að krauma undir miðjum Eyjafjallajökli í vikunni. Fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna lagði leið sína að fyrra gosinu, sem þótti sannkallað „túristagos“ og nóg var að gera hjá fyrirtæki Kristjáns, sem var með allt að 10-15 jeppa á sínum snærum þegar mest lét. Sjálfur rekur hann tvo stóra jeppa en fær til sín verktaka eftir þörfum hverju sinni.

    „Fólkið kemst einfaldlega ekki“

    „Þar sem margar flugferðir til landsins hafa fallið niður kemst fólkið einfaldlega ekki hingað. Enginn veit hvað þetta ástand varir lengi. Ef landið lokast verður ekki mikið að gera hjá okkur. Tjónið verður talsvert fyrir ferðaþjónustuna í heild ef gosið heldur áfram einhverja daga eða vikur,“ segir Kristján.

    Hann segir þá miklu athygli sem Ísland fær þessa dagana geta verið góð auglýsing til lengri tíma litið, en það geti einnig snúist upp í andhverfu sína. Hætt sé við að gosið fæli frá hinn almenna ferðamann, standi það vikum eða mánuðum saman. „Rétt eftir að gosið í Fimmvörðuhálsinum hófst var ég í sambandi við hóp bandarískra ferðamanna sem hafði pantað hjá okkur ferð. Ég varð að beita miklum fortölum til að fá þau til Íslands, þau ætluðu bara að hætta við. En þau komu og sáu ekki eftir því,“ segir Kristján.

    Miðað við veðurspá í dag má reikna með að ferðamenn hugsi sér til hreyfings, í öllu falli vestan megin frá, þegar á að sjást betur til gosstöðvanna. Mountain Taxi var nefnilega ekki eingöngu að fá til sín erlenda ferðamenn vegna gossins á Fimmvörðuhálsi heldur einnig Íslendinga í nokkrum mæli. Kristján bindur vonir við að verkefnastaðan glæðist eitthvað ef útsýni til náttúruhamfaranna batnar.

    Alvarlegt ef gosið stendur lengi

    Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir óvissuna vera versta fyrir ferðaþjónustuna vegna umbrotanna í jöklinum. Langvarandi gos geti haft verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Gosið á Fimmvörðuhálsi hafi svo gott sem verið hættulaust en nú séu allt aðrar og verri aðstæður uppi. Nú styttist í helstu vertíð ferðaþjónustunnar yfir sumarið og ferðamálastjóri segir alvarlega stöðu koma upp ef gosið stendur svo lengi.

    „Við höfum fundað með stjórnsýslunni og ferðaþjónustunni um hvernig hægt er að tryggja rétt upplýsingaflæði út á við. Það mega ekki fara í loftið flökkusögur um að hér sé fólk hlaupandi úti um allt undan ösku og gjalli. Mikilvægt er að réttar upplýsingar berist frá landinu, um að hér gangi lífið sinn vanagang alls staðar annars staðar en á sjálfu gossvæðinu, sem verður fyrir beinum áhrifum. Einnig þarf að tryggja upplýsingar til þeirra sem verða fyrir skakkaföllum vegna truflana á samgöngum. Við erum að gera allt sem við getum til að bregðast við þessu ástandi,“ segir Ólöf Ýrr og telur mikilvægt að skilaboð frá stjórnvöldum séu samhæfð. Upplýsingaflæði á milli aðila og út á við þurfi að vera gott.

    Hverjir eiga forgang í fluginu?

    Opnist fyrir flugferðir til og frá landinu ganga þeir farþegar fyrir sem eiga bókað í viðkomandi ferðir, að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, nema ef settar eru upp aukaferðir líkt og gert var með flug til Glasgow í gær. Þar náðu bæði Icelandair og Iceland Express að koma mörgum farþegum sem höfðu áður átt bókað flug til London eða Manchester, eða annarra áfangastaða í Evrópu.

    Annars verða þeir farþegar sem beðið hafa eftir flugi vegna aflýstra ferða að sæta lagi ef sæti losna í þeim ferðum sem komast mögulega á, út af eldgosinu. Hafi þeir þá ekki breytt ferðaáætlunum sínum vegna eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli. bjb@mbl.is