Kristín Rósa Steingrímsdóttir fæddist á Selfossi 24. febrúar 1967, hún lést af slysförum 6. apríl sl.

Kristín Rósa ólst upp á Torfastöðum 1 í Grafningi hjá foreldrum sínum, Steingrími Gíslasyni, f. 22. september 1921 og Birnu Aðalheiði Árdal Jónsdóttur, f. 24. ágúst 1937, d. 22. maí 2003. Hún var næstyngst átta systkina sem eru: 1) Birgir Árdal Gíslason, f. 1955, kvæntur Margréti Jónsdóttur, börn þeirra, Jón Sveinberg, Birna Aðalheiður Árdal, Sveinn Ægir og Sesselja Sólveig. 2) Sigríður María, f. 1959, látin 1994, sambýlismaður hennar var Bergur Geir Guðmundsson, börn þeirra, Guðmundur, Andri Már og Kristín Hanna. Bergur er í dag kvæntur Sigrúnu Óskarsdóttur. 3) Árný Valgerður, f. 1960, gift Friðgeiri Jónssyni, börn þeirra, Steingrímur, Linda Björk, Katrín Ýr og Anna María. 4) Jensína Sæunn, f. 1962, gift Ægi Stefáni Hilmarssyni, börn þeirra, Haukur Páll og Helena Dögg. 5) Aðalheiður Jóna, f. 1963, gift Birni Magnússyni, dóttir þeirra er Hugrún Harpa. 6) Gísli Steingrímsson, f. 1965, sambýliskona hans er Ragnheiður Sigmarsdóttir. Börn þeirra, Árdís Lilja, Guðlaug Bergmann og Helga Bergmann. 7) Sigurður Þór, f. 1971, sambýliskona hans er Guðbjörg Bergsveinsdóttir, börn þeirra, Rebekka Rut og Birkir Máni. Kristín Rósa eða Stína eins hún var oftast kölluð ólst upp í stórum systkinahóp og lærði snemma til verka og gekk í flest störf sem til féllu í sveitinni. Hún gekk í barnaskólann á Ljósafossi og síðan í gagnfræðaskólann á Selfossi. Stína flutti að heiman á haustdögum 1984, og hóf sambúð með Trausta Sigurjónssyni. Fyrst bjuggu þau á Selfossi, síðan í Keflavík, fluttust svo til Reykjavíkur. Stína og Trausti slitu samvistum 1992. Fljótlega upp frá því kynntist hún Magnúsi Inga Guðmundssyni, foreldrar hans eru Guðmundur Karlsson og Svanhvít Magnúsdóttir, hófu þau sambúð upp frá því. Lengst af bjuggu þau á Kleppsvegi 108 sem þau keyptu og gerðu upp saman. Þau slitu samvistum fyrir nokkru.

Kristín vann ýmis verslunar- og þjónustustörf um ævina.

Útför Kristínar Rósu fer fram frá Selfosskirkju í dag, 17. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður að Úlfljótsvatni.

Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim,

mig glepur sýn,

því nú er nótt, og harla langt er heim.

Ó, hjálpin mín,

styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,

ég feginn verð, ef áfram miðar samt.

Ég spurði fyrr: Hvað hjálpar heilög trú

og hennar ljós?

Mér sýndist bjart, en birtan þvarr, og nú

er burt mitt hrós.

Ég elti skugga, fann þó sjaldan frið,

uns fáráð öndin sættist Guð sinn við.

Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér,

þú logar enn,

í gegnum bárur, brim og voðasker.

nú birtir senn.

Og ég finn aftur andans fögru dyr

og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr.

(Matthías Jochumsson)

Elsku Stína mín. Þessi bíltúr varð undarlegt ferðalag og ótrúlega kuldaleg örlög, grjónið mitt (þú hélst svo upp á „grjónið mitt“). Þið stöllurnar hírðust þarna í ísköldum bílnum í marga langa klukkutíma og vonuðust til að hjálpin væri að berast, að Fjalar félagi ykkar hefði komist í símasamband og getað kallað eftir hjálp. Það fór heldur betur á annan veg, hann fórnaði lífi sínu til að reyna að ná í aðstoð – blessuð sé minning hans. Þú, jafnveik og þú varst í fótunum, fórst bara út úr bílnum til að pissa en veðurofsinn og hríðarbylurinn sem þarna var varð til þess að þú fannst ekki bílinn aftur, elsku kerlingin mín, og því fór sem fór. Mér finnst ljóðið hér að ofan bókstaflega vera eins og það sé samið um þig og þetta ferðalag. Þar sem þú áttir svo marga ástvini sem voru farnir en voru þér svo kærir geri ég ráð fyrir að það hafi verið mikil hátíð í himnasal þegar þú mættir á svæðið.

Elskurnar okkar, mamma og Sigga systir, hafa örugglega tekið hlýlega á móti þér inn úr kuldanum og vafið þig örmum. Það hafa þau líka gert afi og amma Magnúsar svo og fyrrverandi tengdaforeldrar þínir Svana og Sigurjón frá Stóru-Borg. Þér þótti svo mikið vænt um þetta fólk og talaðir oft um það. Þetta er ljósið í myrkrinu Stína mín og óska ég þér sannarlega góðrar ferðar.

Hvíldu í friði, elsku systa.

Jensína Steingrímsdóttir.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens)

Elsku Stína mín, þegar ég hugsa til þín þá er það bara; margs er að minnast, margs er að sakna og margt er hér að þakka. Síðasta kveðja mín til þín verður kveðjan sem við notuðum ávallt okkar á milli: „Bið að heilsa eftir Inga T.“ Þinn Gísli besti bró.

Hvíl í friði.

Gísli Steingrímsson

og fjölskylda.

Elsku Stína, nú er skynilega komið að kveðjustund og viljum við þakka öll árin sem við áttum saman. Við trúum því að mamma og Sigga hafi tekið vel á móti þér en minningin um þig lifir með okkur.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku pabbi, Maggi og fjölskyldan öll, megi guð og góðir englar varðveita okkur á þessum erfiða tíma. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Árný og Friðgeir.

Elsku Stína, nú er komið að kveðjustund og viljum við Skotturnar þakka þér fyrir alla æðislegu tímana sem við áttum saman.

Okkur eru efst í huga allar skemmtilegu sleðaferðirnar þar sem við þeyttumst um hálendið með appelsínugulu og grænu hjálmana aftan á sleðunum hjá pabba og Magga og þið mamma voruð á jeppanum og eltuð hjálmana, í von um að halda í við okkur.

Þótt við værum ekki háar í loftinu og reynsluleysið með hamarinn og sögina einkennandi vorum við engu að síður alltaf til í að fara í helgarferð á Kleppsveginn og hjálpa til við smíðar, því við áttum alltaf von á að Stína frænka byði upp á dýrindispítsu frá Pizzahöllinni í nágrenninu. Pítsan var þá borin fram í bílskúrnum á Kleppsveginum og var það mikil hefð hjá okkur á meðan á byggingu Kleppsvegarins stóð.

Gríðarlegur spenningur var í loftinu þau sumur sem þú varst hjá okkur í Dæló þegar mamma og pabbi fóru í Veiðivötnin. Spenningurinn var ekki bara hjá okkur Skottunum heldur leyndi sér ekki tilhlökkunin hjá þér sjálfri. Við eyddum þessum góða tíma saman og fórum meðal annars í sund á Selfossi og Hveragerði. Þú eldaðir handa okkur og hugsaðir vel um okkur. Þetta var góður og skemmtilegur tími og við Skotturnar nutum þess í botn að Stína frænka væri að passa okkur.

Ligg ég nú,

horfi upp, sný mér við,

sé mynd og spyr hví þú?

Stend upp, sé tár heimsins

falla af himnum ofan,

englarnir gráta líkt og ég.

Sest niður, kvíði upp kemur,

ég finn anda þinn,

sé þig í móðu.

Þú mig upp reisir,

ljós sólar birtist,

englar hætta að gráta,

Því nú ég sé þig brosa.

Hvíldu, hvíldu vel.

(Dagný Pálsdóttir)

Nú þegar við kveðjum þig, elsku Stína okkar, viljum við biðja Guð að hjálpa okkur að styðja Magga, afa og systkini þín á þessum erfiða tíma. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur. Skotturnar þínar,

Anna María og Katrín Ýr Friðgeirsdætur.

Skyndilega skall svartamyrkur á um miðjan dag hinn 6. apríl sl. Það myrkur sem enginn átti von á eða vildi sætta sig við og tók við mikil reiði og sorg.

Þú hefur kvatt okkur elsku Stína frænka, það er erfitt að hugsa til þess, en við fáum engu um það ráðið eins ósanngjarnt og það er.

Ég þakka fyrir alla þá góðu tíma sem við áttum saman, hvort sem það var heima í sveitinni okkar þar sem við nutum þess að vera til eða þeim fjölmörgu ferðalögum sem við fórum saman í, á fjöll, í sumarbústað og útilegur, þær ferðir voru yndislegar. Einnig voru ófáar stundir sem við áttum saman á Kleppsveginum, þegar byggt var afar fallegt heimili, þá var bílskúrinn sérstaklega vinsæll, alltaf nóg að narta í fyrir litla sísvanga orma sem reyndu hvað þeir gátu að aðstoða þá fullorðnu við sína vinnu. Öll þau áramót sem við áttum saman í faðmi fjölskyldunnar, alltaf voru þau frábær.

Þrátt fyrir erfiða tíma þegar mótvindurinn blés hvað mest, þá munu þessar frábæru minningar lifa með okkur um ókomna tíð og þú munt ávallt eiga stað í hjarta okkar.

Hvíl í friði elsku frænka.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Linda Björk Friðgeirsdóttir.

Elsku Stína okkar allra.

Nú ertu leidd, mín ljúfa,

lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa

hörmunga og rauna frí,

við Guð þú mátt nú mæla,

miklu fegri en sól

unan og eilíf sæla

er þín hjá lambsins stól.

Dóttir, í dýrðar hendi

Drottins, mín, sofðu vært,

hann, sem þér huggun sendi,

hann elskar þig svo kært.

Þú lifðir góðum Guði,

í Guði sofnaðir þú,

í eilífum andarfriði

ætíð sæl lifðu nú.

(Hallgrímur Pétursson)

Sorgin er yfirþyrmandi fyrir okkur öll en það eina sem við huggum okkur við er að það hlýtur að vera einhver tilgangur með svona hræðilegum atburði. Af hverju ertu tekin svona ung frá okkur? Það verða fagnaðarfundir þegar þú hittir Siggu og mömmu sem báðar fóru á besta aldri en þetta er okkur ætlað að læra að lifa við. Við höldum utan um pabba sem hefur misst svo mikið og núna „Rósina“ sína, við huggum hvert annað í djúpri sorg.

Við kveðjum þig með söknuði og þökkum þér fyrir allt.

Jóna, Björn og Hugrún Harpa.