Ingvar Þór Jónsson
Ingvar Þór Jónsson
INGVAR Þór Jónsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í íshokkí, var ánægður með árangurinn á HM þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gærkvöldi.

INGVAR Þór Jónsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í íshokkí, var ánægður með árangurinn á HM þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gærkvöldi. „Auðvitað er ég gríðarlega sáttur en það er sama hvað maður afrekar, manni finnst alltaf að maður hefði getað gert aðeins betur. Hefðum við unnið Kínverja áður en við lékum við Rúmena, þá veit maður aldrei hvernig við hefðum verið stemmdir í þeim leik. Á heildina litið erum við auðvitað sáttir enda náðum við markmiði okkar,“ sagði Ingvar sem er einn þriggja í liðinu sem tóku þátt á HM 1999 þegar Ísland var með í fyrsta skipti. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

„Fyrir um það bil fimm árum duttum við síðast niður í 3. deild. Þá sögðum við að eftir fimm ár yrðum við komnir í verðlaunasæti í 2. deild. Við það stóðum við í kvöld,“ útskýrði Ingvar og þá vaknar sú spurning hvaða markmið Ísland eigi að setja sér næst? „Nú er spurningin hvort við getum tekið gullið eftir fimm ár í viðbót. Ég tel að við þurfum að setja okkur bæði skammtíma- og langtímamarkmið. Við eigum klárlega heima í þessari deild og skammtímamarkmiðið þyrfti að vera verðlaunasæti. Ég held að við ættum að stefna á að komast upp í 1. deild eftir nokkur ár. Það er vel haldið utan um okkur. Þjálfararnir Rikki og Johan hafa staðið sig frábærlega. Gauti læknir fylgir okkur alltaf og Kristján tækjastjóri. Þessir fylgifiskar hafa gert magnaða hluti ásamt Hallmundi framkvæmdastjóra. Manni líður eins og atvinnumanni í eina viku.“ kris@mbl.is