Gaddurinn sorfinn Borgar Símonarson og Smári sonur hans beita þjölum til að sverfa gadd af tönnum kinda sinna í Goðdölum í janúar 1983. Þeir glímdu lengi við afleiðingar öskufallsins frá Heklugosinu árið 1980.
Gaddurinn sorfinn Borgar Símonarson og Smári sonur hans beita þjölum til að sverfa gadd af tönnum kinda sinna í Goðdölum í janúar 1983. Þeir glímdu lengi við afleiðingar öskufallsins frá Heklugosinu árið 1980. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is „ÉG held að maður gleymi þessu seint.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

„ÉG held að maður gleymi þessu seint. Þetta var skelfilegur tími, þegar maður hugsar um þetta núna, ég veit ekki hvernig maður komst fram úr þessu,“ segir Borgar Símonarson, fyrrverandi bóndi í Goðdölum í Skagafirði. Hann lenti í erfiðleikum með sauðfé sitt vegna flúormengunar í kjölfar Heklugossins 1980.

Þegar bændur í fremstu dölum Skagafjarðar tóku fé á gjöf haustið 1982 urðu þeir varir við gadd í tönnum yngri kindanna. Þær uxu vitlaust og aflöguðust, jafnvel að svo stór spjót mynduðust að þau særðu holdið í góminum á móti. Tennur fullorðnu kindanna slitnuðu líka misjafnlega. Þetta var rakið til flúormengunar af völdum öskufalls úr Heklugosi sem hófst 17. ágúst 1980. Hæg sunnanátt var og barst gjóskan yfir miðhluta Norðurlands. Mikið öskufall varð í innstu dölum Skagafjarðar.

Féð streymdi niður byggðina eins og göngur væru komnar, grátt af ösku, og kýrnar komu sótugar inn til mjalta. Borgar segir að heyskap hafi ekki verið lokið og aska því einnig komist í hey.

Slátra þurfti fé af 14 bæjum

Kindur með mikinn gadd vanfóðrast. Talið var að um 200 kindur hefðu drepist af þessum sökum og í nóvember 1982 þegar sérfræðingar höfðu skoðað féð var 440 kindum frá 14 bæjum slátrað. Talið var að laga mætti tennurnar í rúmlega 500 kindum en þó búist við meiri afföllum.

Bændur drógu fram þjalir og önnur áhöld og reyndu að sverfa tennur kinda sinna. „Þetta var geysilega mikið en við náðum þessu eitthvað niður,“ segir Borgar. Hann segir að það hafi ekki aðeins verið gaddurinn sem gerði þeim erfitt fyrir, féð hafi verið eitthvað sjúkt út af efnum úr öskunni. „Það kom ekki fram fyrr en seinna. Ekki tók fyrir þetta fyrr en við vorum búnir að endurnýja allan stofninn,“ segir Borgar.

Hann er feginn því að ekki skuli vera sunnanátt þessa dagana, á meðan Eyjafjallajökull gýs. „En auðvitað lendir vandinn á öðrum. Ég öfunda þá ekki,“ segir Borgar.