Göngugarpur Helgi Þorsteinsson reynir að ganga á Esjuna annan hvern dag að meðaltali og leggur gjarnan upp frá Mógilsá. Hann segist vera um klukkutíma á toppinn en taki því gjarnan rólega og tali við fólk á leiðinni.
Göngugarpur Helgi Þorsteinsson reynir að ganga á Esjuna annan hvern dag að meðaltali og leggur gjarnan upp frá Mógilsá. Hann segist vera um klukkutíma á toppinn en taki því gjarnan rólega og tali við fólk á leiðinni. — Morgunblaðið/hag
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is HELGI Þorkelsson var lengi í óreglu en hætti áður en hann missti tökin. Hann reynir að ganga á Esjuna annan hvern dag og hefur gert það um árabil.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

HELGI Þorkelsson var lengi í óreglu en hætti áður en hann missti tökin. Hann reynir að ganga á Esjuna annan hvern dag og hefur gert það um árabil. „Þetta er gott fyrir líkama og sál og styrkir mann allan,“ segir göngugarpurinn, sem er 71 árs.

Í vikunni hafa augu og eyru landsmanna beinst að öflugu gosi í Eyjafjallajökli og afleiðingum þess. Helgi hefur ekki látið það hafa áhrif á sig, heldur hefur hann haldið sinni áætlun og gengið á Esjuna. „Það var smá rigning á leiðinni en það birti til í Mosfellsbænum,“ sagði hann skömmu áður en hann kom að rótum fjallsins.

Gönguferðirnar bestar

Fyrir nokkrum árum fór Helgi í aðgerð á höfði en verkirnir hurfu ekki. „„Þú skalt hreyfa þig,“ sagði skurðlæknirinn þá við mig og það hef ég gert óspart síðan,“ rifjar hann upp. „Hreyfingin slær á verkina og svo er þetta líka svo gaman.“

Helgi ólst upp í sveit og hljóp á eftir kindum með meiru en var aldrei í íþróttum. „Ég vann oft erfiðisvinnu og var lengi sjómaður,“ segir hann. Hann segist hafa farið oft í sund á tímabili en hætt því vegna þess að hann hafi fengið exem og ekki þolað klórinn. Hreyfingin hafi því fyrst og fremt falist í gönguferðum og hjólreiðum. „Ég hjóla innanbæjar og læt bílinn standa enda hef ég nægan tíma eftir að ég hætti að vinna,“ segir hann.

Trú móðurinnar bar árangur

Fyrir um 30 árum komst Helgi úr klóm Bakkusar og hefur haldið sig sólarmegin síðan.

„Það er gott að gleyma henni ekki,“ segir hann um óregluna og bætir við að hann hafi verið ansi langt leiddur. „Móðir mín bað til guðs að hjálpa mér og hún var eiginlega eina manneskjan sem trúði því að ég myndi hætta.“ Hann segir að ástandið hafi verið mjög dökkt en hann hafi náð að snúa við blaðinu og tekið upp breytt og hollt líferni.

„Það er alveg óhætt að mæla með göngum á Esjuna,“ segir Helgi. „Ég er um klukkutíma á toppinn ef ég held stíft áfram en yfirleitt gef ég mér góðan tíma, stoppa og spjalla við fólk á leiðinni.“

S&S

Hvar er fjallið Esja?

Esjan er upp af Kjalarnesi handan Kollafjarðar og tilheyrir landi Reykjavíkur eftir sameiningu höfuðborgarinnar og Kjalarneshrepps 1998. Hún er syðsta blágrýtisfjall á landinu, eitt af helstu einkennum höfuðborgarsvæðisins og vinsælt útivistarsvæði.

Hvað er Esjan há?

Hæsti tindur Esjunnar, bungan ofan Gunnlaugsskarðs, er 914 metrar og eru nokkrar gönguleiðir upp á fjallið. Þegar gengið er upp Þverfellshorn er byrjað við Mógilsá en frá Esjubergi upp á Kerhólakamb vestan Kistufells eru 852 metrar.

Hvernig er nafnið til komið?

Í Esjunni eru móbergs- og blágrýtislög. Nafnið hefur verið rakið til móbergsins og vísað til þess að esja hafi þýtt tálgusteinn í eldra máli.