Alveg er það merkilegt hve listamenn hitta oft naglann á höfuðið. Stundum ekki á það höfuð sem miðað er á en listina má teygja og toga í svo margar áttir að allt verður þetta skiljanlegt á endanum. Eða ekki...

Alveg er það merkilegt hve listamenn hitta oft naglann á höfuðið. Stundum ekki á það höfuð sem miðað er á en listina má teygja og toga í svo margar áttir að allt verður þetta skiljanlegt á endanum. Eða ekki...

Frystikistulag hljómsveitarinnar Greifanna hefur leitað á mig síðustu daga. Það er sama hvað ég reyni að þagga niður í tónlistinni, hún fer alltaf sjálfkrafa í gang aftur. „Oj bara, oj bara, oj bara, ullabjakk...“ er sungið háum rómi í hausnum á mér.

Það er ljótt að segja frá því en ég vakna stundum upp með martröð; finnst ég oftast vera á leið í stærðfræðipróf í fyrramálið, illa undirbúinn. Man að tveir plús tveir eru fjórir en lítið meira. Er alltaf jafn sannfærður um að þetta reddist.

Í síðustu viku sótti að mér í svefni óttinn við að siðfræðipróf væri strax um morguninn. Gerði mér reyndar grein fyrir því að ég þyrfti líklega ekki miklu að kvíða, en leið illa fyrir hönd hinna sem voru með mér í draumnum. Má ekkert aumt sjá. Þetta var töluverður hópur fólks, margir með gullúr á handleggnum og í fínpússuðum skóm. Flestir töluðu útlensku en ég hafði á tilfinningunni að það væri ekki móðurmálið. Mér fannst glitta í fjóshaug í fjarska en skyndilega hvarf hann eins og hendi væri veifað. Einkennilegt. Og samstundis hvarf brosið af hópnum.

Á sömu stundu birtust mér í draumnum nokkrar gamlar byggingar í miðbænum. Í stóru steinhúsi var gömul plata á fóninum en fyrir utan stóðu nokkrar syngjandi húsmæður. Auglýsing frá Víkingalottóinu yfirgnæfði þær um stund: „Peningar, eins og þú getur í þig látið!“ Þá fannst mér allt í einu eins og aftur færðist bros yfir andlitin sem hímdu þar sem fjóshaugurinn stóð áður. Eða var þetta ófrýnileg ásjóna Eyjafjallajökuls?

Prófið fólst í því að greina texta gamals dægurlags með Greifunum.

Einhver vaknaði á sunnudagsmorgni, sá hjásvæfuna í nýju ljósi. Hún minnti hann á belju í fjósi. Hvort sú átti að tengjast fjóshaugnum er mér ekki ljóst en okkar maður var ekki að tvínóna við hlutina heldur ákvað að kál'enni og skellti henni svo í frystikistuna.

En þegar ég ætlaði að loka þá hreyfð'ún sig, hún var víst ekki alveg dauð svo ég ákvað þarna aðeins að doka.

Góð ráð voru dýr er verðir laganna knúðu dyra. En hugmyndaauðgin var ekki fyrir bí. Snúið skyldi á lögregluna eins og annað yfirvald. Í kistuna skreið hann.

Þá allt í einu mundi ég þar sem ég lá að fjandans frystikistan var læst utan frá.

Svo ómaði viðlagið í huga mér: „Oj bara, oj bara, oj bara, ullabjakk.“ Hvar er þessi frystikista? Er ég herfan? Er þetta ekki bara gott á hann? skapti@mbl.is

Skapti Hallgrímsson