Bridges og Gyllenhaal Lukkudísin hans Blakes birtist um síðir í Jean, ungri, vel gerðri konu sem á ungan son. Bridges sýnir stjörnuleik.
Bridges og Gyllenhaal Lukkudísin hans Blakes birtist um síðir í Jean, ungri, vel gerðri konu sem á ungan son. Bridges sýnir stjörnuleik.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Scott Cooper. Aðalleikarar: Jeff Bridges, Maggie Gyllenhaal, Robert Duvall, Tom Bower, Colin Farrell, 110 mín. Bandaríkin. 2009.

Að lokum fór það svo að Hollywood gat ekki lengur látið hjá líða að heiðra Jeff Bridges, einn sinn langbesta leikara í áratugi. Af tilhlýðilegum sóma, með Óskarsverðlaunum. Tilefnið trúverðug, gott ef ekki óaðfinnanleg túlkun hans á kántrísöngvaranum og drabbaranum Otis „Bad“ Blake. Hann er farinn að nálgast sextugsaldurinn og sukksamt líferni hefur sett svip sinn á söngvarann. Hann fer illa með sig, drekkur ótæpilega, sem kemur niður á lækkandi stjörnu söngvara og lagasmiðs sem er farinn að halda tónleika í keilusölum – þrátt fyrir tryggar vinsældir almennings. Hæfileikar hans og heillandi sviðsframkoma hafa gert hann að minni háttar goðsögn í harkinu á vegum úti, hann nær sér ekki upp úr þreytulegum hjólförunum, tekur ekki á því til að komast á þann stall í sinni listgrein sem honum ber og er svo nærri. Hann er feitlaginn alki, hálf-vanhirtur stórreykingamaður og einkalífið er síst skárra með mörg rústuð hjónabönd að baki og einn son sem hann hefur ekki augum litið í áratugi.

Blake er að brenna út og botninn virðist bíða hans skammt undan, þó hefur áhorfandinn það sterklega á tilfinningunni að þessi nagli með sínar persónulega meitluðu lagasmíðar, meðfæddan sjarma og útgeislun eigi sér von, hvað sem tautar og raular í því þreytta umhverfi sem hann hefur dagað uppi í.

Lukkudísin hans Blakes birtist um síðir í Jean (Gyllenhaal), ungri, vel gerðri konu með lítinn son. Hún hittir söngvarann til að taka við hann viðtal fyrir bæjarblað einhvers staðar í Nýju-Mexíkó. Um svipað leyti hittir hann Tommy Sweet (Farrell), gamlan félaga, sem hefur slegið í gegn og vill fá Blake til að semja fyrir sig lög. Skyndilega er grasið farið að grænka í kringum gamla brýnið.

Söguþráðurinn er sprottinn upp úr þúsundum texta úr kántrítónlistinni, sem oftar en ekki fjalla um niðurdrabbað líf, ástir, svik, vonbrigði – en eru oftast blessunarlega lausir við harmkvæli og uppgjöf. Þúsundþjalasmiðurinn Jeff er fæddur í hlutverkið, hann á einkar auðvelt með að ummyndast í Bad Blake, hefur e.t.v. bætt aðeins á sig, en hann er ágætur gítarleikari og söngvari sem nýtist honum heldur betur. Ekki sakar að lagasmíðarnar (titillagið „The Weary Kind“ vann til Óskarsverðlauna), eru eftir Stephen heitinn Bruton og T Bone Burnett, sem er með virtari listamönnum í þessum geira og hefur unnið með frægum leikstjórum, m.a. Coen-bræðrum.

Ástarsagan milli Jean og Blakes hefur sína vankanta, aldursmunur er mjög greinilegur, en í túlkun þessara framúrskarandi leikara verður hún aðeins heilsusamleg á báða bóga og styrkir enn frekar persónuna sem Jeff byggir upp og slípar til þangað til Bad Blake er orðinn eins og ósvikin kántrístjarna frá gullaldarárum þeirrar stéttar. Þegar snillingar, veðraðir í lífsins ólgusjó, á borð við Kris, Willie, Johnny og Waylon, áttu heiminn. Jeff er sem sprottinn úr þeim úrvalsmannskap, flott, grásprengd, heillandi kántríhetja sem er bjargað frá drukknun í áfengi og göturæsinu.

Crazy Heart er fyrsta mynd leikstjórans Coopers, hún sýnir svo ekki verður um villst að mættur er til leiks enn einn hæfileikamaðurinn í óháða geiranum sem kann að halda á litlum, mannlegum sögum af einstaklingum sem passa blessunarlega ekki inn í „normið“ og getur tekið hana slíkum ósviknum tökum að úr verður afburðakvikmynd. Hann nýtur hjálpar frá traustum tónlistarmönnum og aukaleikurum, en enginn nær að stela sekúndubroti af portrettsmíði frá hinum nýkrýnda stórleikara, Jeff Bridges, sem bætir enn einum gegnheila karakternum í safnið. Ég gef Crazy Heart bestu einkunn og hvet alla kvikmyndaáhugamenn til að láta hana ekki fara framhjá sér.

saebjorn@heimsnet.is

Sæbjörn Valdimarsson