<strong>Bygging</strong> Unnið við hleðslu varnargarðs við Markarfljót 1933. Stóri Dímon er í baksýn.
Bygging Unnið við hleðslu varnargarðs við Markarfljót 1933. Stóri Dímon er í baksýn. — Ljósmynd/Vegagerðin - úr safni Geirs G. Zoëga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is FYRSTU varnargarðarnir við Markarfljót voru reistir vestan við bæinn á Seljalandi frá Seljalandsmúla niður á sléttuna vorið 1910 og verða því senn 100 ára gamlir.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

FYRSTU varnargarðarnir við Markarfljót voru reistir vestan við bæinn á Seljalandi frá Seljalandsmúla niður á sléttuna vorið 1910 og verða því senn 100 ára gamlir.

Þórður Tómasson, safnvörður á Skógum, segir að Ungmennafélagið Drífandi hafi staðið fyrir gerð fyrsta varnargarðsins við Markarfljót fyrir tæplega 100 árum. Fram að þeim tíma hafi bæirnir oft verið eins og hólmar umluktir ís. Varnargarðurinn hafi breytt farvegi árinnar og fljótið hætt að renna austur með Eyjafjöllum. „Þetta er voldugur og mikill garður enda hefur honum verið haldið við og oft verið bætt á hann,“ segir hann.

Brúin yfir Markarfljót við Litla Dímon var byggð 1933 til 1934. Þórður segir að þá hafi verið byggðir miklir varnargarðar frá Stóra Dímon niður að Markarfljótsbrúnni. Þá hafi líka verið hlaðnir varnargarðar fyrir Þverá, Affall, Ála ofan frá Þórólfsfelli og öllu vatninu í Markarfljóti veitt í einn farveg. Varnargarðarnir hafi jafnt og þétt verið styrktir og því hafi þeir staðið áhlaupin af sér. Eysteinn Einarsson leiddi verkið við Þverá, Affall og Ála og sonur hans Dofri er verkefnisstjóri hjá Suðurverki í sambandi við framkvæmdir við Landeyjahöfn.

Þórður segir að í kringum 1900 hafi menn byrjað að reyna að hlaða fyrir Markarfljót á Seljalandi. Grjótið og annað efni hafi verið flutt í mykjukláfum á hestum en þessi garður hafi ekki dugað. Tímamótaárið hafi verið 1910. Fólk á hverjum einasta bæ undir Vestur Eyjafjöllum hafi unnið við hleðsluna og verkinu hafi verið lokið fyrir slátt. „Garðarnir vernda geysilega víðáttumikið land og Markarfljótsaurar fyrir neðan Stóra Dímon eru allir að gróa upp,“ segir Þórður.