<strong>Öndunarfærin</strong> Gosaskan getur komist ofan í lungun og jafnvel valdið óbætanlegum skaða. Einföld gríma eða klútur dugar til að verjast öskunni.
Öndunarfærin Gosaskan getur komist ofan í lungun og jafnvel valdið óbætanlegum skaða. Einföld gríma eða klútur dugar til að verjast öskunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Svanbjörgu H. Einarsdóttur svanbjorg@mbl.is GOSASKA getur haft skaðleg áhrif á lungu og augu fólks. Því er afar mikilvægt á svæðum þar sem öskufall er sýnilegt að fólk noti grímur fyrir öndunarfæri og hlífðargleraugu.

Eftir Svanbjörgu H. Einarsdóttur

svanbjorg@mbl.is

GOSASKA getur haft skaðleg áhrif á lungu og augu fólks. Því er afar mikilvægt á svæðum þar sem öskufall er sýnilegt að fólk noti grímur fyrir öndunarfæri og hlífðargleraugu. Hlífðargrímur er hægt að fá á heilsugæslustöðum, apótekum og einnig í byggingavöruverslunum. Séu grímur ekki tiltækar er vel hægt að nota vasaklút eða annan klæðnað til að halda ögnum frá. Gott gæti verið að bleyta jafnvel í efninu.

Á vef landlæknisembættisins og umhverfisstofnunar er að finna leiðbeiningar fyrir almenning vegna gjósku og öskufallsins.

Smáu agnirnar í öskunni eru lang-hættulegastar

Gunnar Guðmundsson lungnalæknir segir greiningu á öskunni benda til að um 25 prósent hennar séu afar smáar agnir sem mælist undir 10 míkron. „Stærstu kornin stoppa strax í nefi og munni og valda ertingu í nefi og hálsi. Það veldur óþægindum ein og nefrennsli og hósta en er ekki líklegt til að valda skaða. Hins vegar getur smæsta askan komist niður í berkjur og jafnvel alla leið niður í lungnablöðrur. Þar gæti hún í versta tilfelli ekki hreinsað sig út. Það getur valdið bólgubreytingum og gert lungun viðkvæmari fyrir sýkingum. Sem betur fer eru lungun búin öflugum hreinsivörnum. En það er vel hugsanlegt að eitthvað geti setið eftir í lungunum ef maður er óvarinn í miklu öskufalli eða er óvarinn lengi.“ Gunnar segir rannsóknir sýna fram á að fólk getur búið við langtímaafleiðingar af því að anda að sér gosösku.

„Afleiðingarnar geta verið krónísk berkjubólgu og einnig er hugsanlegt að það geti myndast bandvefur í lungunum. Það leiðir til mæði, sérstaklega við áreynslu, og lungun verða viðkvæm fyrir sýkingum. Þetta getur verið óviðsnúanlegt. Þess vegna er afar mikilvægt að fólk noti grímur því þær taka mikið af þessum litlu ögnum sem eru hættulegastar.“ Gunnar segir ekki hættu á að askan geti skorið eða sært alvarlega öndunarfæri eða lungu.

„Ef hins vegar öskufall er meira en 100 g á fermetra er ástandið er orðið mjög alvarlegt fyrir fólk með asma eða langvinna lungnateppu. Fólk með þessa sjúkdóma ætti að fylgjast vel með einkennum sjúkdómsins, jafnvel auka lyfjameðferðina og hafa samband við lækni.“ Hann segir litlar líkur á að flúor hafi heilsuspillandi áhrif á fólk þar sem vel sé hugað að vatnsbólum.

„Glerull í augun“

„Að lenda í gosöskumekki er eins og að vinna í glerull, þetta er bara andstyggilegt,“ segir Árni B. Stefánsson augnlæknir. „Það er kannski hægt að ímynda sér að augun séu nudduð með fíngerðum sandpappír. Að auki geta verið sýrur í öskunni sem valda meiri ertingu. Hins vegar er ekki mikil hætta á að askan skeri augað illa eða valdi óbætanlegum skaða.“ Hann hvetur fólk til að halda sig inni við ef öskufall er mikið. Ef nauðsyn krefji að það fari út í öskuregnið verði að verja augun með hlífðargleraugum eða skíðagleraugum. Árni segir augnlinsur afar óheppilegar við þessar aðstæður. „Fólk á draga fram gleraugun. Askan er svo fíngerð að hún smýgur undir linsurnar og getur skaðað augað. Hins vegar eru augun búin góðum varnarbúnaði. Askan festist að mestu í slímhimnunni og safnast svo í augnkrókinn.“

Tilviljun réð því að Árni var staddur við störf á Kirkjubæjarklaustri í gær. Hann segir engan hafa leitað til sín vegna óþæginda af völdum öskunnar.

Rykgrímur að seljast upp í byggingavöruverslunum

SÖKUM viðbúnaðar vegna svínaflensu er þjóðin vel birg af hlífðargrímum. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að búið sé að senda birgðir á svæðin þar sem öskufallið er og einnig á Suðurland og til Vestmannaeyja. „Það má líka verja vitin með klút og jafnvel bleyta í efninu. Það síar vel agnirnar frá. Annars á fólk að halda sig mest inni við með lokaða glugga.“ Hann segir ástæðulaust að grípa til róttækari aðgerða við að þétta hús.“ Aðspurður um áhrif öskufalls fjær gosstöðvum segir hann líklega ekki ástæðu til mikilla ráðstafana.

Vart hefur orðið aukinnar sölu á hlífðargrímum. Rúnar Viðar Gunnlaugsson verslunarstjóri hjá Byko segir að ódýrari grímur hafi hreinlega klárast í búðinni. „Það eru einstaklingar að kaupa sér grímur en við höfum líka selt talsvert í verslanir fyrir austan.“

Vatnsból ómenguð þrátt fyrir öskufall

VEL er fylgst með vatnsbólum á svæðinu þar sem aska hefur fallið. Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands segir sýru og leiðni í vatninu mælda og ekki hafi orðið vart efnamengunar. „Við höfum litlar áhyggjur af lokuðum vatnsbólum en hins vegar er mikið af einkavatnsbólum sem jafnvel eru ekki nógu vel lokuð.“ Elsa segir að ef vart verði við ösku í vatnsbóli eigi að hafa samband við heilbrigðisfulltrúa og ekki neyta vatnsins. Lítið gagni að sjóða eða sía vatnið þar sem þetta sé efnamengun sem ekki sé hægt að sía úr vatni.