Barnamenning Börn úr öðrum bekk Landakotsskóla með borgarstjóranum í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær.
Barnamenning Börn úr öðrum bekk Landakotsskóla með borgarstjóranum í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. — Morgunblaðið/Ernir
Eftir Ásgerði Júlíusdóttur asgerdur@mbl.is NÆSTKOMANDI mánudagsmorgun verður Barnamenningarhátíðin í Reykjavík sett í fyrsta sinn í Hljómskálagarðinum af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra.

Eftir Ásgerði Júlíusdóttur

asgerdur@mbl.is

NÆSTKOMANDI mánudagsmorgun verður Barnamenningarhátíðin í Reykjavík sett í fyrsta sinn í Hljómskálagarðinum af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra. Guðríðu Inga Ingólfsdóttir er verkefnastjóri hátíðarinnar og hún segir að megin- markmið hátíðarinnar sé að bjóða upp á menningu barna, menningu fyrir börn og menningu með börnum. „Hátíðin er hugsuð í víðasta skilningi menningar því við bjóðum upp á ýmislegt, allt frá tónlistar- og myndlistarviðburðum og út í útivistardag í Esjuhlíðum. Þetta er hugsað fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri.

Við erum búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í nokkur ár en það er loksins núna sem við sáum okkur fært að hrinda þessu í framkvæmd. Það fer heilmikið menningarstarf fram í öllum leik- og grunnskólum sem er oft hulið almenningi en með hátíðinni er verið að teygja þessa starfsemi barnanna út fyrir sinn venjulega ramma og út í samfélagið þannig að það verði sýnilegra.“

Ævintýrahöll og rokktónleikar

Aðspurð hvernig skólarnir á höfuðborgarsvæðinu koma að þessari hátíð segir Guðríður Inga að „hátíðin hafi verið kynnt skólunum fyrirfram og viðtökurnar hafi verið hreint út sagt frábærar. Flestir skólarnir hafa þegar skráð sig á ákveðna dagskrárliði hvort sem þeir eru flytjendur eða þátttakendur með einum eða öðrum hætti“.

Það er af nógu af taka því dagskráin er afar fjölbreytt líkt og Guðríður Inga tekur fram. „Það verður stútfullt prógramm alla vikuna, til dæmis verður Ævintýra-höllin, eins og við köllum hana, opnuð strax á mánudag á Fríkirkjuvegi 11 en þar má finna ýmsar listasmiðjur. Norræna húsið býður upp á vísindasmiðjuna Tilraunalandið og á Listasafni Íslands verður sýningin „Dyndilyndi – verði gjafa gagnstreymi“ opin öllum. Á sumardaginn fyrsta rennur dagskrá Barnamenningarhátíðarinnar saman við hverfahátíðarnar og svo um helgina ætlar Ferðafélag Íslands að bjóða upp á Esjudag barnanna.“

Eins og sjá má er af nógu að taka en hátíðinni lýkur með stórtón-leikum sem að sögn Guðríðar Ingu eru eins konar „barnarokk-tónleikar“. „Þeir fara fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum á sunnudaginn þar sem Gunnar Þórðarson verður við stjórnvölinn en fjölmargir taka þátt með honum, bæði fullorðnir og börn.“ Guðríður Inga er full bjartsýni á að þessi viðamikla hátíð muni mælast vel fyrir hjá öllum sem hana sækja og hún vonast sannarlega eftir því að hátíðin sé komin til að vera.

Fjölbreytt dagskrá

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður haldin vikuna 19. til 25. apríl. Dagskráin er afar fjölbreytt en á henni má meðal annars finna skáklistaverkasýningu á vegum Skákakademíunnar í Ráðhúsi Reykjavíkur, forvitnilega atburði í Þjóðmenningarhúsinu, þýska barna- og fjölskyldukvikmyndahátíð á vegum Goethe Institut á Borgarbókasafninu, barnaóperuna Jörðin okkar , vísindasmiðjuna Tilraunalandið í Norræna Húsinu, listasmiðju í Ævintýrahöllinni við Fríkirkjuveg 11, listsýningar í strætisvögnum Grafarvogs, barnabókaráðstefnu í Norræna húsinu og hönnunarsýningu á leikföngum barna í Hafnarborg.

Nánari upplýsingar um hátíðina og alla dagskrána má finna á vefsetri hátíðarinnar: www.barnamenningarhatid.is .