Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Í byrjun vikunnar kom enn betur í ljós en áður hversu risavaxnar skuldir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans voru við íslenska bankakerfið.

Í byrjun vikunnar kom enn betur í ljós en áður hversu risavaxnar skuldir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans voru við íslenska bankakerfið. Jón Ásgeir og helstu viðskiptafélagar hans skulduðu margfalt á við næstu skuldara, sem þó eru engir aukvisar í þeim efnum.

Í byrjun vikunnar kom einnig betur í ljós en áður hvernig Jón Ásgeir beitti áhrifum sínum sem eigandi banka til að draga þaðan fé í eigin þágu.

Þrátt fyrir skuldirnar sem aldrei verða greiddar og slaga hátt í heila landsframleiðslu eru Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans enn eigendur og/eða stjórnendur risa á fjölmiðlamarkaði og langstærstu smásölukeðju landsins.

Ástæðan fyrir því að þessum viðskiptajöfrum tekst að eiga og stýra svo miklum eignum er mikill velvilji banka sem eru og hafa verið beint og óbeint undir stjórn ríkisins. Þetta hefur aðeins verið mögulegt vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefur látið þetta viðgangast.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hefur fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og núverandi utanríkisráðherra játað að mögulega hafi tengsl á milli flokksins og Baugsveldisins haft áhrif á afstöðu flokksins fyrir nokkrum árum.

Nú hlýtur sú spurning að vakna hver skýringin er á velvilja í garð þessara viðskiptajöfra í dag. Hver er skýringin á því að bankarnir reyna enn að veita þessum mönnum takmarkalausa fyrirgreiðslu?