17. apríl 1913 Járnbraut, sú fyrsta og eina á Íslandi, var tekin í notkun. Hún lá frá Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn og var notuð við grjótflutninga, aðallega til 1917 en að einhverju leyti til 1928. 17.

17. apríl 1913

Járnbraut, sú fyrsta og eina á Íslandi, var tekin í notkun. Hún lá frá Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn og var notuð við grjótflutninga, aðallega til 1917 en að einhverju leyti til 1928.

17. apríl 1943

Leikritið Niels Ebbesen eftir danska prestinn Kaj Munk var flutt í Ríkisútvarpinu. Þetta var þá talið eina erlenda leikritið sem hafði verið frumflutt hér á landi, en hernámsstjórn Þjóðverja í Danmörku hafði bannað flutning þess þar.

17. apríl 1959

Fánar voru dregnir að húni á Austurbrún 2 í Reykjavík. Það var þá hæsta hús sem byggt hafði verið, þrettán hæðir, og var talið marka „enn ný tímamót í hinni byltingarkenndu byggingarsögu Íslands“ eins og Vísir orðaði það.

17. apríl 1994

Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, var opnað. Þar eru meðal annars verk eftir Gerði Helgadóttur myndhöggvara. Sigurður Geirdal bæjarstjóri sagði við opnunina að safnið væri „yngsta og fegursta blómið í menningarflóru bæjarins“.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson