ÓLÖF Nordal og Tómas Már Sigurðsson hafa beðið Morgunblaðið að birta eftirfarandi yfirlýsingu: „Nöfn okkar hjóna koma fyrir í kafla 8.11.

ÓLÖF Nordal og Tómas Már Sigurðsson hafa beðið Morgunblaðið að birta eftirfarandi yfirlýsingu:

„Nöfn okkar hjóna koma fyrir í kafla 8.11.2 í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem fjallað er um lánafyrirgreiðslur til alþingismanna sem og maka þeirra og félaga þeim tengdra. Okkur þykir rétt að gera grein fyrir því hvernig þau lán eru tilkomin.

Í febrúar árið 2004 tók Tómas Már við nýju starfi á Reyðarfirði. Í kjölfarið flutti fjölskyldan til Austurlands. Við ákváðum að koma okkur þaki yfir höfuðið á Egilsstöðum, en jafnframt að fresta um sinn sölu á húsnæði okkar á Seltjarnarnesi. Tókum við af þeim sökum bankalán vegna nýbyggingarinnar eystra.

Árið 2007 var Ólöf kjörin alþingismaður fyrir Norðausturkjördæmi og á því ári ákváðum við að skipta um fasteign á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim ástæðum þurftum við að auka fasteignalán, enda var húseign okkar á Seltjarnarnesi enn óseld á þeim tíma sem lánastaða í skýrslunni greinir frá.

Í lok september 2007 var því skuldastaða vegna þessara þriggja fasteigna 113 milljónir króna. Allar umræddar lánveitingar eru með veðum í góðum fasteignum og er verðmat þeirra hærra en samanlögð lán sem koma fram í skýrslunni. Engar lánveitingar komu til vegna hlutabréfakaupa eða til eignarhaldsfélaga á okkar vegum.“