Vinna Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný með hækkandi sól og atvinnuleysi minnki næstu mánuði.
Vinna Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný með hækkandi sól og atvinnuleysi minnki næstu mánuði. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samtök atvinnulífsins gera ráð fyrir að störfum á almennum vinnumarkaði fækki um rúmlega 1.500 á árinu, en 16.482 manns voru skráðir atvinnulausir í lok mars 2010.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun hefur aldrei verið meira en nú. Áætlaður mannafli á vinnumarkaði var 162.150 í mars og voru 9,3% þeirra atvinnulaus eins og í febrúar en voru 8,9% á sama tíma í fyrra og 1,0% í mars 2008.

Þrátt fyrir þessa dökku stöðu metur Vinnumálastofnun hana þannig að senn sjáist til sólar. Karl Sigurðsson, sviðstjóri vinnumálasviðs, bendir á að atvinnuleysi hafi aukist síðastliðið haust og í vetur en nú hafi sú þróun stöðvast og gert sé ráð fyrir að það fari minnkandi með hækkandi sól.

Aldrei meira atvinnuleysi

Atvinnuleysið var 9,9% á höfuðborgarsvæðinu og 8,1% á landsbyggðinni. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 14,9%, en minnst á Vestfjörðum, 3,2%. 10,2% karla voru atvinnulaus og 8,1% kvenna.

Um 52% atvinnulausra eða 8.533 manns höfðu verið atvinnulaus lengur en í sex mánuði og fjölgaði þeim um 666 frá febrúarlokum. 4.601 hafði verið atvinnulaus í meira en eitt ár og hafði fjölgað úr 4.365 í lok febrúar.

2.421 erlendur ríkisborgari var atvinnulaus hérlendis í lok mars og þar af 1.428 Pólverjar.

Vinnumálastofnun bárust þrjár tilkynningar um hópuppsagnir í mars og í þeim var 57 starfsmönnum sagt upp.

Um 16% skráðra atvinnulausra eða 2.633 voru í hlutastörfum. 3.155 einstaklingar voru skráðir í sérstök úrræði hjá Vinnumálastofnun. Þar af voru um 43% á aldrinum 16 til 24 ára eða 1.362 manns.

Alls voru skráðir 346.409 atvinnuleysisdagar í mars og jafngildir það því að 15.059 manns hafi verið atvinnulausir að meðaltali.

Samkvæmt könnunum Vinnumálastofnunar batnar atvinnumálaástandið yfirleitt frá mars til apríl. Í fyrra jókst atvinnuleysið reyndar um 1,8% frá mars til apríl en Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í apríl verði á bilinu 9,0-9,4%. Í fyrra var það 9,1% í apríl.

Bjartsýni

Karl segir að þótt atvinnuleysistalan sé sú sama í febrúar og mars sé töluvert um afskráningar og nýskráningar á móti og nú sé meira um afskráningar en nýskráningar. Þær virðist vera í flestum greinum en minnst á meðal ófaglærðra. „Á meðal allra faglærðra er farið að draga úr atvinnuleysi,“ segir hann.

Samkvæmt könnun SA hyggjast um 50% fyrirtækja SA ekki gera breytingar á starfsmannafjölda á árinu, um 25% ætla að fjölga starfsmönnum og annar fjórðungur að fækka þeim. Karl segir að alltaf sé árstíðabundin sveifla sem svona könnun mæli ekki. Til dæmis megi gera ráð fyrir að starfsmönnum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu fjölgi tímabundið yfir sumarmánuðina. Samkvæmt venju megi ætla að starfsmönnum fækki í haust en margir þættir hafi áhrif á stöðuna. Í sumarlok í fyrra hafi Vinnumálastofnun óttast að atvinnuleysi færi í tveggja stafa tölu, en sem betur fer hafi ræst úr málum.

Erfiðast fyrir karla

Atvinnuleysi er mest á meðal karla á höfuðborgarsvæðinu en samkvæmt yfirliti Vinnumálastofnunar er ekkert atvinnuleysi á tveimur stöðum, í Skorradalshreppi og Tálknafjarðarhreppi.

Einn er skráður atvinnulaus í Bæjarhreppi í Strandasýslu, Akrahreppi á Norðurlandi vestra og Tjörneshreppi. Tveir eru skráðir atvinnulausir í Árneshreppi, Eyja- og Miklaholtshreppi, Skagabyggð og Grýtubakkahreppi. Þrír eru skráðir atvinnulausir í Reykhólahreppi, Borgarfjarðarhreppi og Ásahreppi. Samtals eru 9.795 karlar og 6.687 konur skráð atvinnulaus. Þar af eru 11.113 manns á höfuðborgarsvæðinu, 6.735 karlar og 4.378 konur.

Karl Sigurðsson bendir á að vegna brottflutnings fólks frá landinu sé mannafli minni en á sama tíma í fyrra og því mælist atvinnuleysið meira nú. Gert sé ráð fyrir að það minnki í apríl og fari svo hraðar niður á við næstu mánuði. „Við erum tiltölulega bjartsýn hvað varðar næstu mánuði,“ segir hann.