Eva Mjallhvít Snæbjarnardóttir, fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans á Sauðárkróki, fæddist á Sauðárkróki 7. ágúst árið 1930. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 5. apríl síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Snæbjörn Sigurgeirsson, bakarameistari á Sauðárkróki, fæddur í Gunnarssundsnesi við Stykkishólm 22. mars 1886, d. 3. september 1932, og Ólína Björnsdóttir, húsfreyja frá Skefilsstöðum á Skaga í Skagafirði, f. 23. maí 1903, d. 13. október 1980. Guðjón Sigurðsson, bakarameistari á Sauðárkróki, f. á Mannskaðahóli 3. nóvember 1908, d. 16. júní 1986, gekk Evu í föðurstað eftir fráfall Snæbjarnar.

Systkini Evu samfeðra voru: Ólöf f. 1922, d. 1947, Guðrún (Gígja) verslunarmaður í Reykjavík, f. 1925, Geirlaug, f. 1927, d. 1927, Sigurgeir framkvæmdastjóri, f. 1928, d. 2005, og Snæbjörg óperusöngvari og söngkennari, f. 1932.

Systkini Evu sammæðra voru: Elma Björk nuddari, f. 1935, d. 1984, Birna húsmóðir, f. 1943, og Gunnar Þórir bakarameistari og húsvörður, f. 1945.

Eiginmaður Evu var Kári Jónsson, stöðvarstjóri Pósts og síma á Sauðárkróki, f. 27. október 1933, d. 19. mars 1991. Þau gengu í hjónaband 28. apríl 1960. Synir þeirra eru: Óli Björn Kárason blaðamaður, f. 1960, og (Guðjón) Andri Kárason, konditormeistari og sölumaður, f. 1963. Eiginkona Óla Bjarnar er Margrét Sveinsdóttir framkvæmdastjóri, f. 1960, og þeirra börn eru: Eva Björk viðskiptafræðingur, f. 1983, Kári Björn framhaldsskólanemi, f. 1991, og Ása Dröfn, f. 1999. Eiginkona Andra er Ingibjörg Guðjónsdóttir, söngkona og söngkennari, f. 1965. Sonur þeirra er Daníel Guðjón, f. 1999.

Eva ólst upp á Sauðárkróki en lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar 1948. Hún hélt þá til Reykjavíkur í tónlistarnám. Hún lagði stund á píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Hermínu Björnsdóttur og síðar Rögnvaldar Sigurjónssonar. Hún lauk burtfararprófi frá skólanum árið 1953. Á árunum 1953-1956 stundaði Eva framhaldsnám í píanóleik í New York í Bandaríkjunum. Eftir að Eva sneri heim settist hún að í heimabæ sínum Sauðárkróki og stundaði einkakennslu á píanó frá árinu 1957. Við stofnun Tónlistarskólans á Sauðárkróki var Eva fastráðinn kennari árið 1965 og árið 1974 tók hún við skólastjórn af Eyþóri Stefánssyni tónskáldi. Uppbygging og viðgangur tónlistarskólans var hugðarefni Evu en hún lét af störfum árið 1999 eftir 34 ára starf fyrir skólann. Fyrstu árin eftir starfslok hélt Eva þó áfram að stunda kennslu í hlutastarfi. Eva tók á árum áður virkan þátt í starfi Leikfélags Sauðárkróks ásamt Kára eiginmanni sínum. Síðasta hlutverk Evu var Kate, eiginkonan í Allir synir mínir eftir Arthur Miller, sem Leikfélagið frumsýndi í febrúar 1972 í leikstjórn Kára. Áður hafði Eva meðal annars farið með hlutverk Höllu í Fjalla-Eyvindi eftir Jóhann Sigurjónsson árið 1963 og með eitt aðalhlutverka í Skálholti eftir Guðmund Kamban.

Síðustu æviárin bjó Eva á Seltjarnarnesi.

Útför Evu verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 17. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku Eva. Það eru rúm 30 ár síðan ég kom á puttanum frá Árskógsströnd til að hitta í fyrsta sinn verðandi tengdaforeldra mína. Móttökurnar sem ég fékk eru mér ennþá ljóslifandi og eftir þessa fyrstu heimsókn á Smáragrundina var eins og ég hefði alltaf tilheyrt fjölskyldunni, svo vel tókuð þið Kári mér.

Á langri vegferð er margs að minnast og ekki hægt að gera því skil í fáeinum kveðjuorðum en við fjölskyldan munum ylja okkur við þær minningar um ókomin ár. Við áttum oft góðar stundir saman við að rifja upp árin þín í New York. Ég dáðist að þessari ungu glæsilegu skvísu sem ég sá á myndum og ímyndaði mér klæðast þeim flottu fötum og skóm sem þú geymdir frá þessum árum. Ég er meira að segja svo heppin að passa í sum fötin og hef klæðst þeim við sérstök tækifæri.

Þó að ég hafi ekki átt þess kost að sjá þig á leiksviði þá er gaman að skoða myndir af öllum þeim fjölda leiksýninga sem þú tókst þátt í og sjá leikbúningana og gervin sem þú og Kári klæddust. Það duldist engum sem fylgdist með þér í starfi þínu sem píanókennari og skólastjóri Tónlistarskólans að þar fór mikil fagmanneskja. Ósérhlífnin og dugnaðurinn fyrir hönd skólans og nemenda var eftirtektarverður og búa margir Sauðkrækingar ennþá að því starfi. Börnin okkar Óla hafa einnig notið góðs af. Fyrir mig var einstaklega gott að koma á Smáragrundina og slappa af í rólegheitum. Það var augljóst að þegar von var á okkur norður þá var búið að undirbúa komu okkar vel og ekkert til sparað til að gera okkur heimsóknina notalega. Alltaf voruð þig Kári tilbúin að fá Evu Björk norður í heimsókn og þú síðar Kára Björn og Ásu Dröfn eftir hans dag. Þau eiga góðar minningar frá þeim heimsóknum og minnast ekki síst fjöruferða, garðræktar í gróðurhúsinu og ferða í Tónlistarskólann til að spila á hljóðfærin þar.

Eftir að Kári féll frá komst þú suður til okkar á jólum og eru fyrstu jólin sérstaklega minnisstæð. Þá kom ég heim af fæðingardeildinni á aðfangadag með Kára litla. Þér var mjög umhugað að allt yrði nú hreint og fínt þegar litla barnið kæmi og var ákafinn svo mikill að þú stórslasaðir þig á höfði við skúringarnar þannig að Óli Björn þurfti aðra ferð á spítalann, nú með þig á slysadeild til að sauma skurðinn. Allt fór þó vel og fyrstu jólin þín fyrir sunnan voru yndisleg þrátt fyrir þessa byrjun.

Eftir að þú fluttir suður var stutt á milli okkar og samverustundirnar tíðari. En nú er komið að leiðarlokum og ekki fleiri ferðir í kaffisopa í Eiðismýrina.

Elsku Eva, takk fyrir allt og allt. Hvíl þú í friði.

Þín tengdadóttir,

Margrét Sveinsdóttir.

Elsku amma mín.

Ég mun sakna þess að geta ekki átt fleiri æðislegar stundir með þér eins og ég gerði. Ég veit að núna ertu búin að hitta afa Kára. En nú get ég ekki gist hjá þér, farið upp í sumarbústað með þér og Snæju, eða farið annað með þér.

Takk fyrir allt.

Ég mun sakna þín mjög mikið, elsku besta amma mín.

Ása Dröfn.

Elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið og á erfitt með að trúa því að ég geti ekki bara tekið upp símann og hringt í þig eða komið við hjá þér í heimsókn. Það er svo margt sem ég vil segja þér að ég veit ekki hvar ég ætti að byrja eða enda. Minningarnar sem ég á um þig eru svo margar og hver annarri betri að erfitt er að hugsa til þess að við munum ekki geta rifjað þær upp saman og búið til fleiri. Allar ferðirnar norður á Krók til að vera hjá ykkur afa, og seinna meir þér, mun ég halda í það sem eftir er.

Það er svo margt sem gleður mig þegar ég huga til baka. Á kvöldin þegar þú og ég vorum að búa til heitt hunang með ediki svo ég gæti nú örugglega sofið vel alla nóttina eða þær stundir sem við áttum saman úti í garði að hugsa um öll fallegu blómin þín sem þér þótti alltaf svo vænt um. Gönguferðirnar upp í Skagfirðingabúð og Tónlistarskólann þar sem við þurftum að taka hinar ýmsu krókaleiðir ef við sáum hund í fjarska því þú varst svo hrædd við þá, sem breyttist heldur betur þegar þú fluttir hingað suður því þið Rocky urðu bestu vinir.

Ég man svo vel allar þær samræður sem við áttum um flug og flugvélar þegar ég var yngri, þú sagðist aldrei ætla aftur upp í flugvél og værir bara sátt við að taka rútuna suður. En þær voru nú minnst fjórar utanlandsferðirnar eftir þetta, þar sem ég fékk að vera með þér í þremur af þeim og stendur New York-ferðin okkar alveg upp úr. Bara við tvær. Ég og þú. Þetta var ógleymanleg ferð í alla staði. Stórstjörnur, glæsikerrur, pelsar, kokteilar og stórinnkaup er það sem kemur upp í hugann og eru minningarnar úr þessari ferð mér svo kærar að ég mun aldrei gleyma henni.

Það er svo erfitt að hugsa til þess að hafa þig ekki hjá mér, ég þekki ekkert annað. Ég mun sakna þín svo mikið að það er sárt að hugsa til þess. Veit að núna líður þér vel og ert í faðmi afa Kára. Ég elska þig amma mín og það mun ekki líða dagur sem mér verður ekki hugað til þín.

Þín

Eva.

Það er farið að vora í Skagafirði, og þessi sérstaka silfurbláa aprílbirta sem liggur til hafsins er hvergi til nema hér. Og einmitt núna þegar birtan er vaxandi og myrkur vetrar dvínar, sól hækkar á lofti dag frá degi, og allt líf að endurfæðast, þá lagði Eva mágkona mín af stað í sína hinstu för, hljóðlega lagðist hún til hvíldar, sofnaði og vaknaði ekki aftur.

Ég minnist þess er ég kynntist þeim hjónum Evu og Kára, og heimili þeirra, sem var dálítið á annan veg en ég áður þekkti og ekkert hversdagslegt.

Alla daga kenndi hún við Tónlistarskólann og flesta daga komu nemendur heim til Evu og æfðu sig þar, enda ekki hljóðfæri á hverju heimili.

Að loknum kennsludegi gat það svo gerst að kennarinn settist við hljóðfærið, slakaði á og þá gat allt heyrst í bland; klassík, djass, söngleikjatónlist eða lög eftir Eyþór, Pál Ísólfs eða einhverja af íslensku öndvegistónskáldunum. Og Kári kunni vel að meta tónlistina þótt hans aðaláhugasvið lægju nær hinu ritaða og talaða orði, og maður komst ekki upp með að hafa ekki lesið nýjustu ljóðin hans Hannesar og hafa á þeim skoðun eða skáldverkum Indriða G. en skagfirsku listamennirnir skipuðu öndvegi í huga Kára.

Þannig sköpuðu þau og nutu menningar, og leiklistin varð ekki útundan, því bæði léku þau burðarhlutverk í stórum sýningum hjá Leikfélagi Sauðárkróks.

Að loknu námi byrjaði Eva sem einkakennari í píanóleik, en eftir að stofnaður var tónlistarskóli varð hún fastráðinn kennari og raunar allt frá byrjun staðgengill skólastjóra, Eyþórs Stefánssonar. Þegar svo Eyþór lét af störfum tók Eva við skólastjórninni, og undir hennar handleiðslu óx Tónlistarskóli Sauðárkróks og dafnaði, og vann sér sess í menningarlífi bæjarins. Upphafsár eru oft erfið og þannig var einnig um Tónlistarskóla Sauðárkróks. Vilji til að bjóða kennslu í sem flestum greinum var mikill, en skólinn réð ekki yfir húsnæði og ekki voru á staðnum kennslukraftar til að svara þeim óskum sem bárust. Því komu um árabil t.d. fiðlukennarar viku og viku til kennslu og til að lágmarka kostnað var kennarinn oftast í fæði og húsnæði heima hjá skólastjóra þær vikur sem staðið var við. Eva lét af störfum 1999, og sagðist þá ganga ánægð og áhyggjulaus frá borði þar sem skólinn, þetta óskabarn hennar, væri í öruggum höndum nýs skólastjóra, Sveins Sigurbjörnssonar.

Eva Snæbjarnardóttir var Skagfirðingur í húð og hár. Hún sagðist hafa notið þeirra forréttinda að geta farið út í heim til að læra það sem hugur hennar stóð til, en síðan komið heim til að miðla þar menntun sinni og þekkingu, og fá í samvinnu við hóp af góðu fólki að byggja upp öflugan og góðan skóla.

Við leiðarlok vil ég þakka Evu Snæbjarnardóttur frábæra vináttu, samvinnu og samstarf um árabil. Megi sá Guð sem yfir okkur öllum vakir leiða hana á móti bjartari degi í eilífu ríki sínu.

Við Birna sendum öllum aðstandendum Evu Snæbjarnardóttur innilegar samúðarkveðjur.

Björn Björnsson.