Guðmundur Franklín
Guðmundur Franklín
Eftir Guðmund F. Jónsson: "...finnst ykkur Jóhannes Jónsson, stjórnarformaður Haga hf., traustsins verður sem stjórnarformaður og kaupandi að ráðandi hlut í fyrirhuguðu almennings hlutafélagi...?"

EFTIR birtingu rannsóknarskýrslu Alþingis hlýtur ykkur að vera orðið ljóst hverjir ollu bankahruninu. Það voru mennirnir sem áttu og stjórnuðu bönkunum. Aldrei hafa eins fáir valdið eins miklu tjóni. Þar fara fremst Baugsfeðgar og fyrirtæki tengd þeim. Baugur skuldaði mest 975 milljarða í bankakerfinu og 53% af eiginfjárgrunni bankanna þriggja. Útlánahæsti fyrirtækja hópurinn hjá Kaupþingi var Baugur með 42,30%.

Gaumur, 75% eigandi Baugs skuldaði íslenska bankakerfinu ríflega 279 milljarða króna í október 2008. Mestar voru skuldirnar hjá Kaupþingi, eða 103 milljarðar króna. Jóhannes Jónsson og Ása K. Ásgeirsdóttir eiga 45% og sonur þeirra Jón Ásgeir á 41% hlut í Gaumi.

Baugur og tvö félög tengd Baugi voru með part af 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum við bankana. Gjaldeyrinn keyptu þeir af Kaupþingi. Hefur nefndin tilkynnt þetta til ríkissaksóknara þar sem grunur leiki á markaðsmisnotkun.

Af topp 10 skuldsettustu einstaklingunum í bankakerfinu lok september 2008 eru: númer 3 Jón Ásgeir Jóhannesson með 125,7 milljarða, númer 6 Jóhannes Jónsson með 62,5 milljarða, númer 7 Ása K. Ásgeirsdóttir með 62,6 milljarða og númer 9 Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir með 56,8 milljarða.

Bankastjóri Arion banka Finnur Sveinbjörnsson er fyrrverandi bankastjóri Icebank. Icebank keypti skuldatryggingu fyrir skuldabréf að fjárhæð átta milljarðar af fyrirtæki sem var með 105 milljónir í eigið fé í árslok 2007. Málið er hjá sérstökum saksóknara.

Eigendur og stjórnendur Arion banka verða að ákveða sig; hvort þeir ætla að þjónusta mennina sem keyrðu bankakerfið í þrot haustið 2008 eða ekki.

Spurning mín er:

Að öllu framangreindu, finnst ykkur Jóhannes Jónsson, stjórnarformaður Haga hf., traustsins verður sem stjórnarformaður og kaupandi að ráðandi hlut í fyrirhuguðu almenningshlutafélagi Hagar hf.?

Heimildir: Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis

Höfundur er viðskiptafræðingur.