Baggalútur Finnst Vigdís best.
Baggalútur Finnst Vigdís best. — Morgunblaðið/Kristinn
BAGGALÚTUR samdi lag til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni af áttræðisafmæli hennar í fyrradag. Lagið fær frú Vigdís fyrir að vera Baggalúti innblástur, fyrirmynd og hvatning – en þó einkum og sér í lagi fyrir að vera til.

BAGGALÚTUR samdi lag til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni af áttræðisafmæli hennar í fyrradag. Lagið fær frú Vigdís fyrir að vera Baggalúti innblástur, fyrirmynd og hvatning – en þó einkum og sér í lagi fyrir að vera til. Lagið heitir „Gjöf“ og hefst á þessu erindi:

Þú mátt fá næstum allt sem ég á

mína ást, mína trú, mína von, mína þrá.

Ég þarf eitt, aðeins eitt fyrir mig

eina einustu minningu um þig.

„Árið 2004 gerðum við lag til hennar, sem er að finna á síðunni okkar ásamt nýja laginu. Nefndinni sem skipulagði afmælið hennar Vigdísar barst það til eyrna að við værum miklir aðdáendur og hún bað okkur þess vegna að spila í afmælisveislunni á fimmtudaginn. Okkur fannst þá tilvalið að koma með nýtt lag til að gefa henni,“ segir Karl Sigurðsson, meðlimur Baggalúts, um fæðingu „Gjafar“.

Hann segir meðlimi Baggalúts vera heita aðdáendur Vigdísar. „Já, við erum það allir og höfum alltaf verið. Við værum til í að sjá hana sem forseta aftur og lagið okkar frá 2004 er stuðningslag til hennar, að hún bjóði sig aftur fram til forseta. Í textanum er sýnt fram á það með rökum að hún hafi alltaf verið langbesti kosturinn.

Reyndar hefur þetta líka með nostalgíu í okkur að gera, við ólumst allir upp í tíð Vigdísar. Það breytir því samt ekki að hún er ein dásamlegasta manneskja sem hefur fæðst á Íslandi,“ segir Karl sem varð ekki svo lánsamur að hitta Vigdísi í afmælisveislunni.

„Hún hafði í mörg horn að líta og mörg atriði að horfa á svo að við bara veifuðum henni ofan af sviðinu og hún okkur á móti.“

Lagið og nánari upplýsingar má nálgast á http://baggalutur.is/vigdis