Peningar Á Íslandi eru meðallaunin hæst í fjármálageiranum.
Peningar Á Íslandi eru meðallaunin hæst í fjármálageiranum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MARGT þarf að vega og meta þegar velja á starfssvið. Á Íslandi erum við svo lánsöm að fólk getur yfirleitt leyft sér að velja sér frama eftir áhuga og stundað nám óháð fjárhag.

MARGT þarf að vega og meta þegar velja á starfssvið. Á Íslandi erum við svo lánsöm að fólk getur yfirleitt leyft sér að velja sér frama eftir áhuga og stundað nám óháð fjárhag. En það hversu góðra launa má vænta eftir útskrift hlýtur vissulega að hafa mikið að segja þegar lagt er af stað út á menntaveginn.

Olíu- og efnaverkfræðingar

Vefmiðillinn vinsæli Huffington Post birti fyrir skemmstu samantekt á árlegri rannsókn Samtaka háskóla og vinnuveitenda (e. National Association for Colleges and Employers) yfir þær gráður sem gefa bestu byrjunarlaunin.

Í fyrsta sæti lendir gráða í verkfræði með sérhæfingu í olíuvinnslu, með byrjunarlaun að meðaltali 86.200 dali yfir árið, eða yfir 11 milljónir króna á núverandi gengi. Í næsta sæti lenda efnaverkfræðingar með öllu minna, eða 65.000 dali rösklega í árslaun, kringum 8,4 milljónir króna. Hefur þar eflaust sitt að segja að vinnuaðstæður við olíuboranir eru oft lítt skemmtilegar og launin bæta fyrir það.

Gráður í verkfræði fyrir námaiðnaðinn, í tölvuvísindum, tölvuverkfræði, og rafmagnsverkfræði fylgja fast á hælana. Vélaverkfræði, iðnaðarverkfræði, og flugvélaverkfræði koma næst í röðinni og síðast á listanum lendir upplýsingatæknigráða sem ætti að skila um 54.000 dölum eða nærri 7 millónum króna með útskriftarpappírana í hendi.

Fjármálageirinn enn hæstur

Því miður er sambærilegri tölfræði ekki til að dreifa á Íslandi, en að sögn starfsmanns Hagstofu er þó unnið að upplýsingagrunni sem í framtíðinni ætti að geta tengt saman tekjur og tegund skólagráðu.

Hagstofan á þó tölur sem greina laun eftir atvinnugrein, en samkvæmt þeim er ekki óviturlegt að leggja fyrir sig nám sem leiðir að starfi í fjármála-, lífeyris og tryggingaþjónustu en þar mældust meðalheildarlaun arið 2009 532.000 kr á mánuði. Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð kemur næst með 449.000, iðnaður með 409.000, samgöngur og flutningar með 394.000 og loks verslun og viðgerðarþjónusta með 373.000 í meðallaun.

Launakönnun VR gefur líka vísbendingu um að menntunin borgi sig. Þeir sem hafa BA gráðu geta átt von á 19% hærri launum en þeir sem eingöngu hafa framhaldsskólapróf, og masters- eða doktorsgráða gefur síðan 13,6% umfram þann sem hefur aðeins BA gráðuna.

Fríðindi og vinnutími

Ekki nóg með það heldur aukast starfstengd hlunnindi með menntun og hafa 86% fólks með háskólapróf hlunnindi af einhverju tagi á móti 72% þeirra sem menntuðu sig ekki frekar eftir framhaldsskólapróf, og 65% þeirra sem létu grunnskólaprófið duga.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því þeir sem eru með masters- eða doktorsgráðu upp á vasann geta átt von á að vinna 44,9 stundir á viku á meðan einstaklingar með grunnskólapróf eða minna vinna 43,4 stundir.