Á fundinum Ljóst er að áhrif gossins á landbúnað verða mikil.
Á fundinum Ljóst er að áhrif gossins á landbúnað verða mikil. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
JÓN Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði til fundar í ráðuneytinu í gær um möguleg áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á landbúnað og sjávarútveg og viðbrögð við því, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

JÓN Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði til fundar í ráðuneytinu í gær um möguleg áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á landbúnað og sjávarútveg og viðbrögð við því, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Til fundarins voru boðaðir fulltrúar frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Veiðimálastofnun, MATÍS, Bændasamtökum Íslands, Búnaðarsambandi Suðurlands, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ennfremur voru á fundinum fulltrúar frá Almannavörnum og Háskóla Íslands.

Tilgangurinn með fundinum var að meta eins og hægt var á þessum tíma möguleg áhrif gossins á landbúnað þ.m.t. heilbrigði dýra, sjávarútveg, matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar og aðra þætti sem falla undir ráðuneytið og tryggja að hlutaðeigandi stofnanir og samtök séu tilbúin að takast á við þau verkefni sem nauðsyn getur borið til.

Fyrir liggur að áhrifin verða mest á landbúnað og ekki síst heilbrigði búfjár á þeim svæðum sem áhrif gossins í Eyjafjallajökli ná til.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvað að skipa strax starfshóp undir forystu ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að fara yfir og halda utan um samræmdar aðgerðir stofnana og samtaka vegna gossins. Er honum ætlað að marka skammtímaaðgerðir og einnig aðgerðir til lengri tíma sem kunna að vera nauðsynlegar.

Í hnotskurn
» Ráðuneytið hvetur bændur á öskusvæðum til að taka búfé á hús og aðra til að undirbúa slíkar ráðstafanir.