Verslun Alterna hóf að auglýsa starfsemi sína á miðvikudaginn.
Verslun Alterna hóf að auglýsa starfsemi sína á miðvikudaginn.
ALTERNA, nýtt farsímafélag, hóf starfsemi á miðvikudaginn. Róbert Bragason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að fyrirtækið sé alfarið í erlendri eigu.

ALTERNA, nýtt farsímafélag, hóf starfsemi á miðvikudaginn. Róbert Bragason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að fyrirtækið sé alfarið í erlendri eigu. „Það hefur komið mér töluvert á óvart hversu mikið hefur verið spurt um eignarhald á fyrirtækinu. Fólk er afar tortryggið, og segist óttast að félagið tengist einhverjum útrásarvíkingunum,“ segir hann.

Hrunið tafði fyrir

Róbert segir að félagið sé í eigu bandaríska fjarskiptafélagsins IMC Worldcell. Aðspurður hvort aðstæður í íslensku efnahagslífi og gjaldeyrishöft hafi ekki vafist fyrir erlendu fjárfestunum segir hann að svo hafi vissulega verið. „Hrunið tafði fyrir okkur, tvímælalaust,“ segir hann og bætir við að fjárfesting Worldcell nemi milljónum dollara. Að sögn Róberts var ákvörðunin um að stofna til starfseminnar endanlega tekin skömmu eftir hrun, en hann segir að félagið hafi haft tilraunaviðskiptavini hér á landi frá áramótum.

Róbert segist sjá tækifæri í því hversu keppinautar félagsins, sem fyrir eru á markaðinum, eru skuldsettir. Systurfélag Alterna, IMC Ísland, hefur gert reikisamning við Símann á stöðum þar sem félagið er ekki með sitt eigið net og hefur því útbreiðslu um allt land. Starfsemin á Íslandi er tvíþætt, annars vegar í gegnum Alterna Tel, sem selur þjónustu til viðskiptavina, og hins vegar í gegnum félagið IMC Ísland, sem hefur heimild til fjarskiptastarfsemi og rekur fjarskiptanetið. Þá hefur IMC Ísland gert samning við kínverska fyrirtækið Huawei, um kaup á farsímakerfi.