Heiður Kiri Te Kanawa kveður.
Heiður Kiri Te Kanawa kveður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KIRI Te Kanawa, ein þekktasta sópransöngkona heims, mun í kvöld syngja í síðasta sinn í óperu, Rósariddaranum eftir Richard Strauss, í uppfærslu Óperunnar í Köln. Kanawa er orðin 66 ára gömul.

KIRI Te Kanawa, ein þekktasta sópransöngkona heims, mun í kvöld syngja í síðasta sinn í óperu, Rósariddaranum eftir Richard Strauss, í uppfærslu Óperunnar í Köln. Kanawa er orðin 66 ára gömul. Bjarni Thor Kristinsson syngur aðalbassahlutverkið í sýningunni, en hann rétt náði flugi til Þýskalands áður en það var lagt niður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Bjarni segist hafa ákveðið að fljúga degi fyrr en til stóð, til að komast örugglega út en hann hélt utan í fyrradag.

„Ég átti ekki að fljúga fyrr en í dag, föstudag, en ákvað að færa flugið fram um einn dag,“ sagði Bjarni í gær, hann hafði farið með síðustu vélinni til Frankfurt.

„Hún var með tvær kveðjusýningar, fyrri sýningin var í byrjun mánaðar og þessi sýning er á morgun (í dag),“ segir Bjarni um Íslandsvininn Kiri Te Kanawa.

Bjarni syngur hlutverk Barons Ochs í Rósariddaranum, eitt af fjórum burðarhlutverkum óperunnar. Hann segir frábært að syngja með Kanawa. „Það er mikill heiður, hún er mikill listamaður og indælismanneskja á allan hátt, góð söngkona,“ segir Bjarni um þessa merku söngkonu.

„Það er mjög gaman hjá okkur,“ segir hann og hlær digurbarkalega enda dimmraddaður með endemum. helgisnaer@mbl.is