Lúðvík Gizurarson
Lúðvík Gizurarson
Eftir Lúðvík Gizurarson: "Greinarhöfundur vill stofna nýja matarhjálp til viðbótar við Mæðrastyrksnefnd sem starfa myndi áfram"

Kreppuráðherrann sagði í sjónvarpinu núna eitt kvöldið að engir peningar væru í ríkissjóði til að hjálpa þeim sem hanga í biðröð undir húsvegg niðri í bæ og vonast eftir matarbita frá Mæðrastyrksnefnd. Börnin eru svöng heima. Ríkissjóður á ekki peninga segir ráðherra til að hjálpa þeim. Liggur á þeim sem ormur á gulli. Ráðherra er samþykkur ástandinu. Greinarhöfundur vill stofna nýja matarhjálp til viðbótar við Mæðrastyrksnefnd sem starfa myndi áfram. Best væri ef þetta væri Hjálparstofnun kirkjunnar eða álíka nýr aðili. Margir koma til greina.

Þessi aðili myndi kaupa mat, t.d. fisk af útgerðinni og dreifa til þurfandi. Greiðslan til útgerðarmanna væri í formi skuldabréfa sem ekkert væri greitt af fyrstu 5-7 árin eins og vera átti með Icesave. Svo væri langur árafjöldi sem færi í að greiða bréfin upp eins og vera átti með Icesave. Svo væri skuldari bréfanna ríkissjóður eins og vera átti með Icesave. Einnig kæmi ríkisábyrgð eins og vera átti á Icesave. Munurinn á öllu þessi er sá, að stórt, ofurstórt, risaskuldabréf Icesave átti að fara fyrir lítið til Breta og Hollendinga upp í uppskáldaða skuld.

Þessi mörgu smáskuldabréf, lík spariskírteinum ríkissjóðs að upphæð, færu til útgerðarmanna sem létu á móti fisk til Hjálparstofnunar kirkjunnar til að dreifa til fátækra og þurfandi. Svo gætu útgerðarmenn greitt skuldir sínar í bönkunum með þessum skuldabréfum ríkissjóðs og kæmu þessi bréf ríkissjóðs með ríkisábyrgð í stað vanskilaskulda útgerðar en vanskilaskuldir útgerðar eru miklar í bönkunum. Þannig kæmist nokkurt lag á skuldir útgerðar í bönkunum. Allir græddu og engan gjaldeyri þarf í þetta.

Þar sem ekkert er greitt í bili í peningum af þessum mörgu smáskuldabréfum ríkissjóðs en bréfin væru öll notuð til kaupa á innlendum mat, bæði fiski og svo ýmsu öðru handa Hjálparstofnun kirkjunnar. Þá gætu menn verið flottir á því í innkaupum handa fátækum. Enga beina peninga þarf næstu árin að borga úr ríkissjóði upp í þetta. Allt upp á skuldabréf og krít. Allir fengju nægan mat. Svo skapar þetta hagvöxt með nýrri veltu í þjóðfélaginu og meiri vinnu.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður