Eftir Sigurð Boga Sævarsson og Björn Jóhann Björnsson ÞRÝSTINGUR undir Eyjafjallajökli er að minnka samkvæmt því sem GPS-mælitæki, sem staðsett eru beggja vegna jökulsins, sýna. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson og Björn Jóhann Björnsson

ÞRÝSTINGUR undir Eyjafjallajökli er að minnka samkvæmt því sem GPS-mælitæki, sem staðsett eru beggja vegna jökulsins, sýna. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Fram að gosi sýndu mælitækin síaukinn þrýsting sem nú er í rénun.

Mikið öskufall var í gærdag í nágrenni gosstöðvanna. Samfellt öskufall var í gærkvöldi frá Vík og 40 km til austurs og var því veginum um Mýrdalssand lokað. Í dag er gert ráð fyrir norðanátt og má því gera ráð fyrir öskufalli undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum. Léttskýjað verður í dag og ætti að sjást vel til gosmakkarins úr sveitum á Suðurlandi.

Ferðaþjónustan hefur áhyggjur

„Gerð gosefna og jarðskorpuhreyfingarnar samhliða gosinu benda til þess að kvikan komi af mun minna dýpi en í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Gosið bræðir jökulísinn og þegar vatn blandast kvikunni verða til þær miklu sprengingar sem gosinu fylgja,“ segir Magnús Tumi.

Minni þrýstingur undir fjallinu og sú staðreynd að kvikan kemur af fremur litlu dýpi bendir til þess að styrkur gossins verði ekki langvarandi. Sú fíngerða aska sem myndast í gosinu verður til við blöndun bræðsluvatns og kviku. Ef vatn næði ekki að gosrás væri hins vegar líklegt að þar rynni hraun eins og varð á Fimmvörðuhálsi.

Vegna öskufalls varð að aflýsa um 17 þúsund áætluðum flugferðum í Evrópu. Sum flugfélög hafa raunar aflýst öllum ferðum fram yfir helgi. Búsifjar flugfélaganna eru miklar og talið er að vegna eldgossins tapi þau um 25 milljörðum ísl. kr. á degi hverjum. Hefur þetta valdið því að gengi hlutabréfa í félögunum hefur fallið eins og aska.

Áhrifafólk í ferðaþjónustu hefur áhyggjur af stöðunni. „Erlendis birtast fréttir um að hér gangi fólk með gasgrímur út af öskunni og gosið geti staðið í tvö ár. Enginn er að leiðrétta þetta frá Íslandi,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Eldgos í Eyjafjallajökli | 2, 4, 6, 17, 18-19 og 20-21

  • Þrýstingur undir jökli að minnka
  • Vatni í kviku fylgja sprengingar
  • Leiðrétta þarf rangfærslur
  • Flugfélög tapa miklum fjármunum