Ragnheiður Elín Árnadóttir, alþingismaður, hefur fengið svar frá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, við nokkrum spurningum um kostnað við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, alþingismaður, hefur fengið svar frá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, við nokkrum spurningum um kostnað við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Upplýsingarnar í svari ráðherra eru því miður af sama meiði og aðrar upplýsingar sem frá ríkisstjórninni koma, rýrar, óljósar og ófullnægjandi.

Það eina sem ljóst er af svari ráðherra er að stjórnvöld leggja mikið á sig við að draga úr sýndum kostnaði við umsóknarferlið. Þannig er ferðakostnaður ríkisins vegna umsóknarinnar ekki reiknaður nema að hluta til, því að ferðir verða ekki taldar tengjast umsókninni nema þær snúist eingöngu um umsóknina. Geti menn gert sér upp önnur erindi í leiðinni bókar ríkisstjórnin ferðina ekki sem kostnað við aðildarumsóknina.

Ferðalögin eru aðeins eitt dæmi um kostnað sem er falinn, en þrátt fyrir það fullyrðir ráðherra að haldið sé utan um „allan kostnað í bókhaldi ráðuneytisins með tegunda- og viðfangslyklum“. Þannig er reynt að halda því að almenningi, sem borgar brúsann, að aðildarumsóknin kosti ekki mikið og að haldið sé vel utan um kostnaðinn, þegar hið gagnstæða er staðreynd.

Ein leið sem farin er við að fela kostnaðinn er að segja að mikil óvissa ríki um þróun viðræðnanna og augljóst er af svarinu að öll óvissan er notuð til að lækka kostnaðaráætlunina. Við þetta bætist, að ráðherra virðist einnig óviss um hvaða leið hann ætlar að fara í umsóknarferlinu. Í fyrsta lið svarsins segir að sá varnagli sé sleginn í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins „að ef farið væri í aðildarviðræður með ,,mjög víðtæk samningsmarkmið þar sem fátt væri undanskilið og þau væru undirbyggð af mjög mikilli sérfræðilegri greiningu, erlendri ráðgjöf og virku baklandi“ gæti kostnaðurinn orðið umtalsvert meiri en gert er ráð fyrir í áætlun ráðuneytisins.“

Í öðrum lið svarsins segir hins vegar að ráðuneytið hafi tekið þá afstöðu „að fara leið víðtækra samningsmarkmiða sem byggjast á greiningu, innlendri og erlendri ráðgjöf og virku baklandi“. Í þessum lið segir að kostnaðarmatið grundvallist á þessari afstöðu, ólíkt því sem sagði í fyrsta lið svarsins. Áfram er svo haldið að slá úr og í og nefna að auki að ef til vill verði ákveðið að greina hluti enn betur eða leita yfirgripsmeiri sérfræðiaðstoðar.

Eins og sjá má – og hér er þó fjarri því allt rakið – er svar utanríkisráðherra um kostnað við aðildarumsókn með miklum ólíkindum. Öllum brögðum er beitt til að svara ekki þeim einföldu spurningum um kostnað sem óskað er eftir að svarað sé á Alþingi. Leyndin og óvissan eru í fyrirrúmi. Einna verst er þar að ráðherra virðist ekki sjálfur vita hvort samningsmarkmið Íslands eru mjög víðtæk og hvort þau eru studd mjög mikilli sérfræðilegri greiningu. Það eina sem eftir stendur er að þingmenn voru þvingaðir til að styðja umsókn um aðild að Evrópusambandinu og þurfa svo að fylgjast með vanbúinni ríkisstjórninni í viðræðum sem enginn veit hvað munu kosta en gætu orðið þjóðinni til stórtjóns. Þingið verður að taka af skarið og stöðva þessa óvissuferð.