Það er eðlilegt að margur eigi erfitt um svefn á þessum síðustu og verstu tímum og viti ekki hverju hann eigi að trúa. Kristján Karlsson orti: Ég festi ekki blíðan blund fyrir bölvaðri rökfesti um stund.

Það er eðlilegt að margur eigi erfitt um svefn á þessum síðustu og verstu tímum og viti ekki hverju hann eigi að trúa. Kristján Karlsson orti:

Ég festi ekki blíðan blund

fyrir bölvaðri rökfesti um stund.

Loks tókst mér að sofna

fann samhengi rofna;

og símastaur pissaði á hund.

Og enn kvað Kristján:

„Víst er gaman að ganga upp þil,“

mælti Guðný og labbaði upp þil.

„Eða fyndist þér gaman

jafngreindum í framan

að geta ekki labbað upp þil?“

Í byrjun 17. aldar hefur tóbak verið lítt kunnugt hér á landi, en þeim mun meir hefur þótt til þess koma, og sendu menn kunningjum sínum þumlung af tóbaki í vinargjöf. Í ljóðabréfi sendi séra Bjarni Gissurarson á Þingmúla séra Eiríki Ólafssyni í Kirkjubæ vísu þessa:

Bróðir nefi mínu minn

miskunn veittu nokkra,

láttu í bréfi liggja þinn

að létta kvefi þumlunginn.

Sem aftur minnir á gamlan hús-gang:

Taktu í nefið, tóbak hef ég til að gefa þetta ef að kannski kvefið kynni að sefa.

Þessi staka er af öðru tagi:

Taktu í nefið, tvinna-hrund,

til er baukur hlaðinn.

Komdu svo með káta lund

og kysstu mig í staðinn.

Þessi staka mun vera eftir Sigurð Guðmundsson frá Kolgrímastöðum:

Pontan mín er prýdd með Rínar rjóma. Utan gljáir á hana;

innan fáir sjá hana.

Loks kemur hér tóbaksvísa, þar sem ekki er talað um pontu heldur tóbakspung, en hann var oft kall-aður tuðra:

Nú er ekki tóbak til í tuðru minni,

mér þótt bjóði maðurinn svinni

meginpart af eigu sinni.

Séra Stefán Ólafsson á Vallanesi orti:

Bauk hér brúka ríkir,

bauk hafa sultargaukar,

bauk sá ég biskup taka,

bauk hafa prestar að auki,

bauk hefur bóndi í taki.

bauk hefur kona í hrauki,

bauk hefur böðull og skækja,

bauk hefur þræll í hnauk

Og vel fer á því að Kristján Karlsson eigi síðasta orðið:

Guðmundur bóndi á Gnípu

var gleyptur af mýrisnípu

fyrir kunnuglegt ávarp

og óþarfa smákarp.

Lát þetta í þína pípu.