Emil Alengaard
Emil Alengaard
EMIL Alengaard fór á kostum í leiknum gegn Ísrael í gær og skoraði fjögur mörk og lagði upp hin tvö. Emil skoraði alls sex mörk í leikjunum fimm og var valinn besti leikmaður Íslands í keppninni.

EMIL Alengaard fór á kostum í leiknum gegn Ísrael í gær og skoraði fjögur mörk og lagði upp hin tvö. Emil skoraði alls sex mörk í leikjunum fimm og var valinn besti leikmaður Íslands í keppninni.

„Ég fann strax þegar ég kom til móts við hópinn í þetta skiptið, hve fagmennskan var orðin mikil. Við vitum út á hvað þetta gengur og Rikki þjálfari veit hvað hann vill. Við æfðum vel í æfingabúðum í Svíþjóð í aðdraganda mótsins og sögðum þá hver við annan að við myndum ná í verðlaun. Ef við hefðum ekki náð í verðlaunasæti þá hefðum við ekki verið sáttir við mótið. Þegar mótið var komið í gang þá áttuðum við okkur á því að við vorum nægilega góðir. Eistland og Rúmenía eru í næsta gæðaflokki fyrir ofan okkur enn sem komið er. Við erum þó farnir að spila svipað íshokkí nema að þeir búa yfir aðeins meiri hraða. Ef við leggjum meira á okkur þá getum við náð þeim að getu,“ sagði Emil við Morgunblaðið og bætti því við að liðið væri komið með grunn til þess að byggja ofan á. „Rikki er búinn að búa til góðan grunn sem við getum byggt ofan á. Við eigum marga efnilega leikmenn sem hafa ekki sprungið almennilega út því þeir eru ekki vanir hraðanum sem er í landsleikjum. Við eigum eftir að verða mun betri á næstu árum og ég hef á tilfinningunni að þetta lið eigi eftir að komast upp í 1. deild,“ sagði Emil Aleengard ennfremur en hann er sjálfur aðeins 22 ára gamall. kris@mbl.is