Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson og Sigurð Boga Sævarsson ÞAÐ breytir miklu að AGS hafi nú samþykkt aðra endurskoðun á þeirri efnahagsáætlun sem Íslendingar starfa eftir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Eftir Kristján Jónsson

og Sigurð Boga Sævarsson

ÞAÐ breytir miklu að AGS hafi nú samþykkt aðra endurskoðun á þeirri efnahagsáætlun sem Íslendingar starfa eftir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. „Við erum í raun komin í allt aðra stöðu enda er sá stimpill sem samþykkið veitir okkur mikils virði. Lánin sem nú fást ættu að gera íslenskum stjórnvöldum kleift að ráða við afborganir af öllum lánum á árunum 2011 og 2012 og þannig komumst við í allt aðra og betri stöðu en var.

Samþykki stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins breytir miklu. Við erum komin í skjól.“

AGS mun sjálfur lána Íslendingum upphæð sem samsvarar 20 milljörðum ísl. kr. Norðurlöndin leggja til 76 milljarða kr. og Pólverjar níu milljarða kr. Þá eiga Íslendingar inni fyrningar úr fyrsta áfanga norrænu lánanna og gætu því úr norræna pottinum komið alls um 100 milljarðar króna.

Steingrímur var spurður um frétt sem Bloomberg-fréttaveitan birti í gær, þar sem haft var eftir heimildarmanni í Hollandi að þarlend stjórnvöld væru ekki andvíg afgreiðslu lánsins frá AGS. Ástæðan væri að Íslendingar hefðu heitið að greiða Icesave-skuldbindingarnar með vöxtum. Steingrímur segir þetta ekki rétt enda þótt Íslendingar séu tilbúnir að greiða sanngjarna vexti og semja.

Mikilvægast að losna við gjaldeyrishöftin

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist vera ánægður með að Íslendingar hafi núna aðgang að þessum lánum, það skipti máli vegna þess trúverðugleika sem fylgi áætluninni í heild. „Mestu skiptir samt að þetta getur orðið til þess að við getum sem allra fyrst losað okkur við þessi skaðlegu gjaldeyrishöft, það vona ég að gerist. Hins vegar held ég að nú þurfi að ígrunda að hve miklu leyti þörf er á að draga á þessi lán, það verður að vega og meta.

Þetta sýnir líka að það stenst ekki skoðun sem haldið hefur verið á lofti allt frá miðju ári 2009 að hér myndi ekkert gerast án þess að búið væri að ganga frá Icesave-samningunum, útilokað yrði t.d. að fá aðgang að AGS-lánunum. Hins vegar finnst mér skorta á að ríkisstjórnin geri betur grein fyrir áformum sínum um uppbyggingu gjaldeyrisvaraforðans, hvað sé réttlætanlegt að kosta miklu til að byggja hann upp. Það er dýrt að draga á þessi lán.“

Bjarni var spurður um frétt Bloomberg en sagðist ekki hafa séð viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gagnvart AGS og gæti því ekki staðfest neitt í þessum efnum. Að sögn Benedikts Stefánssonar, aðstoðarmanns Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra, er ekki hægt að birta viljayfirlýsinguna strax vegna reglna AGS sem á eftir að ganga endanlega frá skýrslum sínum í tengslum við endurskoðunina. Menn vonuðust til að geta birt yfirlýsinguna eftir helgi.

Lofa Icesave-lausn

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, í Washington samþykkti í gær aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS. Við endurskoðunina sendi ríkisstjórnin sjóðnum nýja viljayfirlýsingu þar sem lýst er efnahagsstefnunni, þeim árangri sem þegar hefur náðst og næstu skrefum.

Fram kemur m.a. í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu að íslensk stjórnvöld skuldbindi sig í viljayfirlýsingunni til þess að styrkja enn eftirlit með fjármálamarkaði til að skjóta enn styrkari stoðum undir endurreist bankakerfi. Í því skyni hafi ráðherra lagt fram frumvarp til laga um fjármálamarkaðinn, um tryggingasjóð innistæðueigenda og verðbréfamarkaðinn.

„Í viljayfirlýsingunni er einnig áréttað það markmið stjórnvalda að ná samningum við Hollendinga og Breta um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem þeir hafa reitt af hendi vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta gagnvart innistæðueigendum netútibúa Landsbanka Íslands hf.,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

  • Dagsetningum á næstu endurskoðun er hliðrað vegna seinkana sem urðu á annarri endurskoðun endurreisnaráætlunarinnar
  • Framkvæmdastjóri AGS álítur að efnahagur Íslands muni taka við sér á seinni helmingi 2010