Lára Jóhannesdóttir fæddist í Rauðanesi í Borgarhreppi 28. júli 1928. Hún lést á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi 6. apríl 2010.

Foreldrar hennar voru Jóhannes Einarsson og Eva Jónsdóttir. Lára var næstelst fimm systkina, elst var Ingibjörg, f. 1926, lést 1939, Júlíus Ágúst, f. 1930, lést 1963, Þórdís, f. 1938, og Ragnar, f. 1948.

Eiginmaður hennar var Sumarliði Páll Vilhjálmsson, f. 22. nóvember 1930, foreldrar hans voru Vilhjálmur Jónsson og Sesselja Sveinbjörnsdóttir. Lára og Sumarliði eignuðust níu börn. 1) Vilhjálmur Einar. Áður kvæntur Jóhönnu Hlín Ragnarsdóttir, sonur þeirra Sumarliði Einar Már, kona hans er Anna Björg Úlfarsdóttir. Dætur þeirra Sara Lousie og Elisa Lind. Önnur kona Vilhjálms var Inga Kolfinna Ingólfsdóttir, börn þeirra eru Ingólfur Haukur, kvæntur Rósu Hlín Sigfúsdóttur, Eva Lára, barnsfaðir Ríkharður Mýrdal Harðarson, sonur þeirra er Vilhjálmur Ingi; Jón Örn og Adam Orri, unnusta hans er Erla Rún Rúnarsdóttir. Vilhjálmur er kvæntur Hjálmfríði Björgu Jóhannsdóttur. 2) Eva Ingibjörg, sonur hennar er Lárus Páll Pálsson, sambýliskona hans er Jónína Kristín Ágústsdóttir, börn þeirra eru Almar Páll, Eva Karólína og Ágústa Guðrún. 3) Jóhannes Torfi, kvæntur Önnu Maríu Sigfúsdóttur. 4) Þórdís Málfríður, eiginmaður hennar er Jóhann Björgvin Marvinsson. Börn þeirra eru Linda Sólrún, sambýlismaður Ásbjörn Ólafsson, Ásthildur Rósa, Debóra Dögg og Ágúst Máni. 5) Pétur Ísleifur, kvæntur Guðrúnu Kristjánsdóttur. Börn þeirra eru Kristján Jóhannes, Margrét Hildur og Ólafur Magnús. 6) Ólöf Sesselja, eiginmaður hennar er Sigurbergur Dagfinnur Pálsson. Börn þeirra eru Drífa Mjöll, sambýlismaður Stefán Orri Ólafsson, dóttir þeirra er Aldís Karen, Jóhanna Lóa, unnusti Óðinn Guðmundsson, og Sumarliði Páll. 7) Sveinbjörg Rósa, eiginmaður hennar er Albert Ólafsson. 8) Ágúst Páll, kvæntur Hafdísi Gunnarsdóttur. Börn þeirra eru Lára, unnusti er Bjarni H. Halldórsson, Arnór, unnusta Katrín Birna Smáradóttir, og Dagný. 9) Óskírð Sumarliðadóttir.

Lára stundaði nám við Húsmæðraskólann á Varmalandi árið 1948. Alla ævi hafði hún áhuga á saumaskap og útskrifaðist með sveinspróf sem dömuklæðskeri 1953 frá Iðnskólanum í Reykjavík. Á skólaárunum var hún virk í Þjóðdansafélaginu. Hún giftist Sumarliða Páli Vilhjálmssyni 26. des. 1954 og þau hófu búskap á Ferjubakka III í Borgarfirði í samstarfi við Jóhannes, föður Láru. Lára vann sem húsmóðir alla ævi og starfaði við saumaskap fyrir sveitunga sína og fjölskylduna. Mörg haust vann hún í Sláturhúsinu í Borgarnesi . Á hverju sumri dvaldi hjá henni og Sumarliða fjöldi barna. Hún söng í mörg ár í Kirkjukór Borgarkirkju og einnig tók hún virkan þátt í starfi Kvenfélags Borgarhepps. Haustið 1998 fluttist hún á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi og dvaldi þar til dauðadags.

Útför Láru fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 17. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Nú að leiðarlokum hjá þér kæra Lalla tengdamóðir langar mig að þakka þér fyrir þau tæpu 27 ár sem eru liðin síðan ég kom inn í þína fjölskyldu. Það er margt sem flýgur um hugann og margt gerst en eitt af því sem stendur upp úr er hvað þú varst góð amma barnanna okkar. Enginn kom á Ferjubakka öðruvísi en þeir fengju eitthvað að borða, hvort maður væri ekki svangur og hefði ekkert fengið.

Börnin mín hafa verið svo heppin að hafa alist upp svo nærri þér og afa öll sín ár og fengið að hafa ykkur með okkur um bæði jól og áramót í þó nokkur skipti sem er dýrmæt minning sem lifir með þeim. Okkar samband er ég afar þakklátur yfir að hafa átt. Þótt heilsan hjá þér væri kannski ekki alltaf upp á það besta varst þú alltaf ljúf og stutt í húmorinn. Ef eitthvað þurfti að fara eða gera var það gert, ég man ekki að það væri nokkurt vesen með poka eða pinkla þegar ég skutlaði þér upp á Bakka af Dvalaheimilinu og þú sigraðir alltaf tröppurnar níu þegar þú komst í heimsókn, – við kannski bölvuðum þeim aðeins en upp komstu og niður aftur.

Takk fyrir árin. Minning um ljúfa og mjúka ömmu og tengdamóður lifir hjá öllum.Takk.

Sigurbergur Pálsson.

Elsku amma, nú sitjum við systkinin og reynum að brosa í gegnum tárin þegar við hugsum til þín og rifjum upp allar þær yndislegu minningar sem við eigum um þig. Það er erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur en við vitum að þú ert á góðum stað og átt eftir að fylgjast með okkur í fjarska. Þú varst alltaf svo hjartahlý og góð og okkur þótti svo gott að fá faðmlag eða kossa frá þér. Það sem einkenndi þig var hversu vel þú hugsaðir um okkur ömmubörnin þín, þú passaðir að okkur liði alltaf vel og sást til þess að við værum aldrei svöng hjá þér.

Okkur systrum er minnisstæður sá tími þegar við bjuggum hjá ykkur afa á Ferjubakka, við áttum góðan tíma saman og erum við mjög þakklátar fyrir það. Einnig minnumst við sérstaklega þess þegar við fengum að leika okkur með fínu dúkkurnar þínar, stóri dúkkuskápurinn þinn var eins og stór ævintýrahöll fyrir litlar stelpur. En það var þó ekki nema í sérstökum tilfellum sem við máttum taka dúkkurnar út úr skápnum. Skilyrðið fyrir því að leika með dúkkurnar var að þurrka af skápnum, þrífa glerið og raða dúkkunum fallega upp aftur og þetta gerðum við þegjandi og hljóðalaust því okkur fannst það ómetanlegt að fá að leika með fallega dúkkusafnið þitt.

Þú hafðir mikinn áhuga á fötum og hannyrðum enda varstu lærður dömuklæðskeri. Þessi áhugi þinn á fötum og kjólum hefur svo sannarlega erfst til okkar systra. Okkur þótti ekki leiðinlegt að halda tískusýningar fyrir þig, þar sem við sýndum þér nýju fötin okkar og þú skoðaðir þau vandlega, bæði saumaskapinn og efnið, og ekki fannst þér skemma fyrir ef fötin voru rauð. Þú fylgdist vel með tískunni og allt fram á seinustu stund vildirðu fá að sjá í hvaða fötum við værum og fékkst að þreifa á efninu. Við systurnar eigum nokkra jóla- og sumarkjóla sem þú og mamma saumuðuð fyrir okkur. Yfirleitt vorum við ánægðar með þá en það var þó einn kjóll sem við vorum ekkert voðalega ánægðar með en hann var saumaður úr gardínuefni og blúndum! Við höfum mikið hlegið að þessari samsetningu nú í seinni tíð.

Við systkinin eigum eftir að sakna þess að hafa þig ekki hjá okkur á jólunum en við áttum saman mörg skemmtileg jól og áramót. Þið afi nutuð þess að horfa á okkur opna pakkana og þá sérstaklega þegar Summi Palli var í stuði. Þér fannst alltaf svo gott að fá knús og kossa frá litla nafna eins og þú kallaðir Summa Palla oft. Honum þótti það nú ekki verra sjálfum og neitaði því sjaldan. Svo má ekki gleyma því hvað þið Summi höfðuð gaman af því bæði að skreppa fram í frystikistu og fá ykkur ís saman.

Elsku amma, það er svo erfitt að hugsa til þess að við fáum ekki að sjá þig aftur en þessar minningar og svo miklu fleiri hlýja okkur um hjartarætur og minna okkur á allt það góða sem þú hefur gefið okkur. Við systkinin lofum því að passa hann afa fyrir þig og við munum líka segja börnum okkar seinna meir frá hversu yndisleg amma þú varst. Hvíl í friði elsku amma.

Þín barnabörn,

Drífa Mjöll, Jóhanna Lóa

og Sumarliði Páll.

Elsku mamma. Þegar þú áttir 80 ára afmæli fyrir tveimur árum fengum við þá hugmynd að setja upp sýningu á allri handavinnunni sem þú hefur gert um ævina. Við komumst fljótt að því að þú hafðir gert miklu meira en eitt lítið samkomuhús gæti tekið við. Samt sýndum við bara brotabrot af því sem þú hafðir gert því að mikið af því hafðir þú gefið frá þér. Það sást á þessari sýningu hvað þú varst geysilega fjölhæf og óhrædd við að prófa eitthvað nýtt. Það lék allt í höndunum á þér, það var sama hvað það var. Þarna voru svo ólíkir hlutir; myndlist, útsaumur, útskurðarlist, fatasaumur, listaverk úr skeljum og steinum. Þú bættir alltaf einhverju við frá sjálfri þér þannig að hvert verk varð einstakt.

Þú hafðir unun af dúkkum og safnaðir þeim í kringum þig. Fólk kom með dúkkur alls staðar að úr heiminum til að færa þér, sem sýndi að þú varst þeim ofarlega í huga. En þú varst fljót að sjá ef saumaskapurinn á kjólunum þeirra var ekki fullkominn, þú þoldir ekkert hálfkák. Það var aldrei ládeyða í kringum þig, yfirleitt var húsið fullt af börnum, barnabörnum og vinum barnanna og alltaf mátti finna pláss fyrir einn í viðbót. Svo var spjallað, spáð og hlegið og endalaust var komið með meira brauð og kökur. Og alltaf gafstu það sem þykir dýrmætast í dag – tíma fyrir hvern og einn.

Manstu eftir öllum spádómunum og hvað spilin voru orðin máð í lokin? Það var alltaf dauðaþögn og spenna þegar þú lagðir spilin. Þú sagðir öllum að taka þetta ekki alvarlega en oftast rættist spádómurinn þótt síðar yrði. Hvað ætli þú hafir bjargað mörgum brostnum unglingshjörtum þegar þú spáðir spennandi ferðalögum og ástarævintýrum. Það var ekki nóg að þú værir með okkur systkinin átta, þú varst líka með börn sem voru í sveit. Þessi börn sögðu ekki skilið við þig, því mörg þeirra komu í heimsókn fram á fullorðinsár. Börnin þeirra voru jafnvel líka hjá þér. Þú gast verið amma þeirra allra, þig munaði ekkert um það. Böndin urðu stundum svo sterk að sum þeirra urðu eins og systkini okkar. Þér fannst alltaf skemmtilegt þegar nóg var að gera og það var rífandi gangur í öllu. Þú varst alltaf svo stolt þegar þú horfðir niður á tún og allir krakkarnir unnu sem einn í heyskapnum og þá var líka gaman að koma inn í kvöldkaffi eftir góðan vinnudag.

Þú elskaðir að ferðast. Síðustu árin vorum við hrædd um að löng ferðalög yrðu þér ofviða, eins og ógleymanlegt ferðalagið í afmælið hennar Debbu í fyrra til Vopnafjarðar. En gleðin, þrjóskan og lífsviljinn glæddist við það. Þú varst manna hressust þegar þú komst í nýtt umhverfi. Þú þekktir og mundir örnefnin og sögurnar sem voru tengdar þeim stöðum jafnvel þótt áratugir hefðu liðið frá því að þú komst þar síðast. Þú hafðir alveg unun af litlum börnum, þau fundu það fljótt að þau voru velkomin og hvergi var mýkra fang en hjá ömmu. Þú varst svo sannarlega rík, komin 19 barnabörn og sjö barnabarnabörn. Bara eitt áður en við kveðjum: Við keyptum rósir handa þér – litinn þinn manstu. Þú tekur þær með þér.

Vilhjálmur, Eva, Torfi, Þórdís, Pétur, Ólöf, Sveinbjörg og Ágúst.

Það fylgir hækkandi aldri að kveðja æ fleiri ættingja og vini sem voru ögn eldri en maður sjálfur. Þegar ég var 10 ára fluttu foreldrar mínir að Ferjubakka og fengu að byggja Ráðagerði á smáparti úr jörð Jóhannesar, bróður mömmu. Síðan hefur Lalla frænka, dóttir Jóhannesar og Evu, verið fastur punktur í tilveru minni. Létt lund, yndislegt skopskyn og stórt hjarta einkenndu hana auk listrænna hæfileika. Í húsmæðraskóla á Varmalandi lærði hún held ég allt sem hægt var að læra í handavinnu. Allt sem hún gerði var einstaklega fallegt. Hún var líka fús til að reyna að kenna okkur Dísu systur sinni. Því miður reyndist ég bæði klaufsk og áhugalaus. Ég gat bara horft með lotningu á Löllu töfra fram blúndur og dúka úr örfínu garni með bækluðum prjóni sem hún kallaði heklunál. Trúi í alvöru að hebreska hefði hentað mér betur.

Æskuárin með systkinunum í Efstabænum og öllum öðrum krökkum á Ferjubakkabæjunum skilja eftir margar minningarperlur. Til dæmis fyrsta sumarið mitt var farið á hestum í berjaferð upp í Gufuárland. Ég gat setið á hesti en var ekki gangfær með brákuð ristarbein. Þá bjargaði Lalla öllu með því að taka ræfilinn á bakið og bera á milli berjalauta.

Tvítugsafmælið hennar gleymist aldrei. Allt unga fólkið í sveitinni kom á yndislegum sólskinsdegi. Eftir kaffiveislu fór hópurinn upp á Húsatún. Farið var í ótal leiki og sungið og dansað við harmonikkuspil. Við litlu krakkarnir fengum að taka þátt í öllu með „stóru krökkunum“, þvílíkur dýrðardagur.

Lalla var lærður dömuklæðskeri og síðasta námsveturinn hennar vorum við samhliða í Reykjavík. Þá var gott að geta skotist til Löllu ef eitthvað bjátaði á. Þennan vetur kynntumst við báðar verðandi eiginmönnum okkar. Við giftum okkur saman árið eftir og Lalla og Sammi settust að í sambýli við foreldra hennar. Ég fylgdi sjómanninum mínum á Suðurnes. Þau sumur sem hann var á síld fyrir norðan, fór ég heim til foreldra minna, raunar fannst mér ég alltaf eiga heima í Efstabænum líka. Jói og Eva gerðu aldrei mun á mér og sínum börnum. Raunar var Efstibærinn alltaf fullur af börnum öll sumur, þá voru öll börn send í sveit ef hægt var.

Lalla og Summi eignuðust 8 börn, við Óli 2 stráka. Þeir sóttu í sveitina til afa og ömmu öll sumur og sváfu auðvitað þar, en alla daga runnu þeir saman við hópinn hennar Löllu. Það var gaman að heyra þá bræður rifja upp þessi sumur, orðnir fullorðnir menn. Það hafði greinilega verið óskaplega gaman hjá þeim, ekki síst á unglingsárunum. Eftir að bílprófsaldri var náð þurfti mjög oft að skreppa í Borgarfjörðinn um helgar. Efstibærinn stóð alltaf opinn fyrir þeim þó afi væri dáinn og amma flutt suður til okkar og aðrir teknir við Ráðagerði.

Jóhannesi bróður mömmu, Summa og Löllu fáum við fjölskyldan í Hvammi aldrei fullþakkaða aðstoð og umhyggju við aldraða foreldra mína. Svo allar þær ánægjustundir sem við fjölskyldan áttum í Borgarfirðinum. Summa og öllum ástvinum Löllu sendum við fjölskyldan innilegar samúðarkveðjur. Ég kveð Löllu með 18. aldar kveðjunni sem hún setti undir bréfin sem hún skrifaði mér: „Elsku frænka, vertu svo af mér kært kvödd og Guði falin.“

Hjartans þökk fyrir allt.

Þín frænka,

Ingibjörg.

Við Lára vorum systradætur, hún nokkuð yngri. Ég minnist þess þegar ég sá hana fyrst á Ferjubakka, en þá var hún á unglingsaldri. Þó að við værum svona náskyldar hittumst við ekki fyrr þar sem ég átti heima vestur á fjörðum en hún í Borgarfirði. Á þeim tíma sem við vorum að alast upp var þetta mikil fjarlægð og meira tiltökumál að ferðast á milli landshluta en síðar varð. Ég var komin til Reykjavíkur til dvalar þegar ég ákvað að taka mér ferð á hendur með rútu og hitta frændfólkið mitt í Borgarfirðinum. Þegar ég kom að afleggjaranum að Ferjubakka hitti ég fyrir mann að störfum úti við og spurði hann um ábúendur því bæirnir voru þrír á þessum slóðum. Hann hélt nú að hann vissi um mitt skyldfólk því þar var kominn Jóhannes faðir Láru. Þar fékk ég í fyrsta sinn að kynnast þeirri einstöku gestrisni sem alltaf hefur einkennt heimilisfólkið, þá ung stúlka og síðar fullorðin með mína fjölskyldu. Lára frænka mín var ekki heima, hún var á Brennistöðum að æfa leikrit. Þegar hún kom heim var hún skellihlæjandi og kát, lundarfar sem ávallt einkenndi hana. Vinskapur myndaðist strax og hélst upp frá því. Nokkru síðar leigðum við saman þegar við unnum báðar í Reykjavík.

Lára var einstaklega fær í höndunum eins og sagt er. Hún kunni skil á hvers kyns handverki og varla nokkuð sem henni var óviðkomandi á þeim vettvangi, sívakandi, forvitin og fróðleiksfús. Hún lærði til dömuklæðskera hjá Guðfinnu Magnúsdóttur og kúnstbróderí hjá Júlíönu Jónsdóttur. Verkin hennar voru falleg og vel unnin og báru merki alúðar og kunnáttu þeirrar sem þau vann.

Það átti hins vegar ekki fyrir Láru að liggja að dvelja í Reykjavík því hún bjó alla tíð á Ferjubakka með sinni stóru fjölskyldu. Þar var óvenjugestkvæmt og eins og áður segir og einstaklega vel tekið á móti fólki. Ekki var farið fram hjá Ferjubakka án þess að koma við og minnumst við fjölskylda mín með þakklæti þeirra fjölmörgu góðu stunda sem við höfum átt með heimilisfólkinu. Þar ríkti gleðin og gæskan og skemmtilegar sögur voru sagðar við matarborðið, dekkað mat hverjum sem þiggja vildi. Í hvert sinn sem átti að fara fram að Ferjubakka ríkti spenningur, ekki hvað síst hjá ungviðinu því þar var nóg um að vera og allir fundu einhvern á sínu reki til að eiga samskipti við, ásamt því að upplifa hefðbundin sveitastörf. Þá gafst og tóm fyrir okkur frænkurnar að eiga stundir saman og treysta böndin.

Oft þó líði of löng stundin

alltaf man þig frænka mín.

Verður kær sú von um fundinn

vermir hugann fyrri tíð.

(Jón Kristófersson frá Selárdal.)

Ég kveð nú Láru frænku mína með þökk fyrir allt.

Fari hún í friði.

Sigríður Kr. Árnadóttir (Didda) og fjölskylda.